Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Side 24
S t e i n a r B r a g i
24 TMM 2006 · 3
því er satt, ég get ekki tjáð huga minn með beinum hætti, sjáið þér, ég er
haldinn bölvun, hið drungalega ský tortímingarinnar hvílir yfir mér –
allt verpist, eitt er þrúngið af öðru, og ég kem hingað í ónáð tiltekinnar
persónu! Mér er þetta ekki frjálst, og ekkert af því sem ég segi merkir
ekki eitthvað annað, eða allt sem ég segi er ekkert af því sem ég gæti sagt
einfaldlega.“
„Athyglisvert. Haltu áfram.“
„Þér áttuð kollgátuna: ég er af Heiminum, skipi sem liggur hér við
ströndina, þetta get ég sagt yður, en þó mun þetta einungis satt að hluta.
Við höfum langt ferðalag að baki, ég og fleiri … Skipið siglir hringinn í
kringum Jörðina, og hefur gert síðustu árin, ég veit ekki hversu lengi, frá
því það byggðist? En það var ekki fyrr en nýlega að dró til tíðinda, í lok
desember, nánar tiltekið, fyrir tíu mánuðum. Við vorum að ljúka flakki
okkar umhverfis hnöttinn og sigldum inn á hið bláa, ævaforna Karíba-
haf, hvar við hugðumst lóna og sitja af okkur hinn grimma mánuð jan-
úars, en halda svo áfram ferð okkar.“
„Ég skil,“ sagði Steinn og kinkaði kolli.
„Framan af var þetta blítt,“ hélt gesturinn áfram, „sólin skein, him-
inninn var blár og djúpur líkt og augað í einhverju almætti, hvers ásjóna
hvíldi á okkur, smáum manneskjunum, og hugnaðist gjörðir vorar,
fáfengilegt tipl vort um skipið. Svalandi blær kvöldsins líknaði okkur
yfir sterklituðum apéritíf sem var yfirleitt brúkaður á veröndum, áður
en haldið var í kvöldmat sem fól í sér ferskar sjávarafurðir, eða ávexti
hafsins, líkt og sagt er í Firenze. Þetta myndi verpast …
Dag einn, er ég lyfti höfði af kodda og fann geisla morgunsins leika
um andlit mitt, vissi ég samstundis að allt væri breytt; það sem eitt sinn
hafði verið saklaus, næstum sjálfsprottin værð, brydduð rauðgylltum
sólum bak við augun, í hjartanu og broddum fingranna, brydduð merl-
andi silfri hafsins er hjalaði bríma sínum og lífmagni svo ljúft við kinn-
ungum skipsins – líf hvers framrás sveipaðist látlausum, höfugum
þokka, jafnvel eftirvæntingu, en aldrei nauð – ekki löngun til nýja-
brums, eða töfra fáfengilegrar gleymsku hins næsta, afþreyingar, vél-
rænnar skynjunar hennar og hyggju til glingurs, nei, væntingin beindist
að áframhaldi hins sama: hvort dagurinn á morgun yrði hinn sami og
sá er hafði liðið í gær, hvort nokkuð yrði breytt, hvort nokkru mætti
auka við ofgnótt slíkrar endurtekningar án þess að svipta hana þeirri
orðlausu kynngi er hóf sig til lífsins líkt og fugl er spannar himin en
beitir ekki vængjunum – einn daginn var þetta horfið.
Í fyrstu var mér ekki ljóst í hverju breytingin var fólgin. Ég gekk um
skipið og virtist sem allt væri óbreytt, sem fyrr: sólin, blámi himinsins,