Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Síða 25
H i ð s t ó r f e n g l e g a l e y n d a r m á l h e i m s i n s
TMM 2006 · 3 25
og glampaði af hafi, en í brjósti mér var þykkja manns sem fellur ekki
að umhverfi sínu, hvers sála hefur glatað aðkomu sinni við heiminn og
snertir hann ekki lengur, er úthýst líkt og rakka frá heimili sínu nær
kreppir í búi. Ég skimaði rannsakandi í andlit samferðarmanna minna
í leit að vísbendingu um að fleiri kynnu að hafa merkt slík umskipti,
hinn nýborna óróa, fæðingu vífillengjunnar, en greindi ekkert – ein-
ungis samþykki, kyrrð fljótsins er streymir mót hafi, yfir drumba, yfir
rætur og leir, og getur ekki annað. Ég reyndi að brynja hug minn mót
þessu er leitaði svo heiftarlega á mig; ég synti um laugina á efsta þilfari,
og ég synti um flötinn með höfrungum, ég neytti apéritífs og spjallaði,
raðaði í mig kræsingum af hlaðborði Heimsins, en drunginn ágerðist.“
Gestur okkar þagnaði, smellti í góm, ranghvolfdi augunum, og andlit
hans var rjótt og gljáandi af svita. Frásögnin hafði augljóslega æst upp í
honum hitastigið.
„Meira konjakk?“ sagði Steinn.
„Ekkert. Ég ætla að ljúka þessu,“ sagði maðurinn, og hélt áfram.
„Fljótlega gafst ég upp á að banda frá mér skynjun þeirra ísmeygilegu
breytinga sem orðið höfðu á umhverfi mínu, og breytingar þessar urðu
mér staðfesting á að drunginn er sótt hafði á mig væri ekki einungis
persónulegur, hefði þvert á móti inntak sem hafið væri yfir hið sérlega
og fæli í sér Heiminn allan, nei – mannkyn, náttúru þess og tengsl við
heiminn, og krefðist afmörkunar, svo lausnar, ef sýking þessi ætti ekki
að lúra óáreitt, líkt og krókódíll uppi við bakka vatnsbóls, njóta óhefts,
og lymskulegs framgangs án þess að nokkur yrði til að benda og segja:
„Þarna! Þarna lúrir hættan! Sjáið þið ekki augun sem lóna þarna við
yfirborðið og bíða átekta? Alas! þeim er þyrstir og kemur grunlaus að
bóli skepnunnar!“ Breytingar þær er ég vísa til, og ég tók eftir í krafti
andlegs næmis míns, fólust í eftirfarandi: á daginn merlaði flöturinn líkt
og brugðið væri hnífum; hitinn jókst upp úr öllu valdi, lagðist yfir
brjóstið og sló út æðum á framhandlegg og við gagnaugun er púlsuðu
skilaboðum við stálskrokk skipsins, tikkandi af þenslu í hitanum; yfir
miðdegið tók að bera á loftbólum við yfirborð hafsins líkt og þenslan og
hitinn væri náttúru þess um megn; fiskar, slöngur, marglyttur, þörungar
og ókennilegri sjávarverur tóku að kafna, flutu dauðar mót glampanum,
úldnuðu í sólinni, knepptust saman í hrúgur umluktar grárri móðu og
af þessu varð rotnunarþefur; blámi himinsins varð marblettur, ásjóna
hans tortryggin, kýld og hörkuleg, dýptin umhverfð í þrengjandi bólgu
er stefnt var gegn óheftri tímgun vindanna, og líknandi blær kvöldsins
vék fyrir heiftugu logni sem á stundum hjúpaði sig grárri þoku, verptist
feiknlegum myndum er umkringdu skipið og biðu átekta.