Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Síða 26
S t e i n a r B r a g i
26 TMM 2006 · 3
Allt þetta sá ég; og ég sá það sem ég sá og hvarf lengra inn í hinn
ömurlega skugga dauðans, gjáin milli mín og lífsins tók enn að breikka,
þar til brottnám mitt varð algert og opinberaðist mér, dag einn í janúar.
Það var snemma morguns sem ég gekk að þeirri sundlaug er hvílir á
efsta þilfari Heimsins; ég var einsamall en sýtti það ekki, breiddi úr
handklæði mínu á þann sólbekk er ég hafði gert að mínum og aðrir
íbúar skipsins virtu – þannig er á tíðum hið mannlega samkomulag,
teygir sig jafnt til siðferðilegrar iðkunar og þöguls samkomulags um
smáræði legubekkja. Ég ákvað að geyma mér hina svalandi mýkt vatns-
ins, léttleika þess og hreinsun, og gerði líkamsæfingar á bakkanum,
armbeygjur, uppsetur og teygjur, og fylgdist með sólinni rísa úr fleti
sínu, gægjast yfir brún þilfarsins, en ég leiddi hana hjá mér, barnslegan
splendor frekjunnar, og gerði ekki nema storka henni með smæð minni
og fánýti.
Að loknum æfingunum gekk ég að lauginni, beygði mig fumlaust
niður að yfirborðinu, sótti mér vatn í lófa og hugðist væta því bak við
eyrun, siður sem ég hef frá móður minni, er vandi mig að kuldanum með
þessum hætti, en í sama mund og ég hallaði mér út yfir laugina mótaði
fyrir torkennilegri speglun í sléttu, blásilfruðu vatninu, sem vakti athygli
mína – nei, heimtaði aðgát af slíku offorsi að svipaði til fíknar. Það sem
speglaðist var andlit mín sjálfs, og þrátt fyrir að andlit þetta væri óum-
ræðilega mitt eigið og kunnuglegt eftir því, var það nú hlaðið slíkum
feiknum og dýrð að mér þvarr máttur, lyppaðist af áður óþekktum sjálfs-
bríma niður að mynd þessari og svalg hana í mig líkt og hin langa eyði-
merkurganga sjálfs mín væri loksins að baki og takmark hennar og
merking vildi nú opinberast mér, og þorstinn – hin mikla þröng hins
næsta, vék nú loks fyrir þeirri dýrð hi- hins algera, þess … er e – “
„Snöggur!“ hrópaði Steinn. „Sérðu ekki hvað – “
„Ég sé um þetta,“ sagði ég, tók viðbragð og otaði saltinu upp að nösum
hins sjúka manns þar til hann náði aftur tökum á sér, andardrátturinn
hægðist.
„Þér eruð fullkomlega öruggur,“ sagði Steinn. „Enginn getur snert
yður. Allt er hér til alls – ilmsaltið, byssan, borgin allt í kringum okkur.
Þér eruð hólpinn.“
Maðurinn blikkaði augunum, strauk hendinni yfir ennið og gapti.
„Það er … “ sagði hann og gaf frá sér dularfullt muldur og skræki, en
virtist svo koma böndum á sjálfan sig og hélt áfram. „Ég held áfram sög-
unni. Þarna lá ég flatur á bakka sundlaugarinnar og starði í spegilmynd
sjálfs mín; sólin logaði milli augnanna, ekki sól heimsins, heldur mín
eigin upphafna, ósnertanlega og bjarmandi sól og yfir höfðinu var líkt