Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Side 32
32 TMM 2006 · 3
Ástríðufullur Íslandsvinur
Bréf Daniels Willards Fiske til
Gísla Brynjúlfssonar 1855
„Ég er útlendingur en ég ann Íslandi svo heitt að ef ég gæti farið þangað og
svarið landinu hollustueið án þess að verða með því þegn Danmerkur, færi ég
strax á morgun.“ Þetta sagði 23 ára Bandaríkjamaður árið 1855 í bréfi til Gísla
Brynjúlfssonar, þáverandi styrkþega Árnasafns og síðar kennara í íslenskum
fræðum við Hafnarháskóla.1 Maðurinn hét Daniel Willard Fiske (1831–1904)
og átti þegar fram liðu stundir eftir að setja mark sitt á íslenska menningu og
fræðastarfsemi, meðal annars með bókagjöfum til einstaklinga og bókasafna,
ritgerðum um land og þjóð í erlendum blöðum og tímaritum, með því að
stuðla að iðkun skáklistar í landinu og ekki síst með því að koma á fót einu
besta íslenska bókasafni sem til er utanlands. Það er The Fiske Icelandic Col-
lection (Fiskesafn) sem hann ánafnaði Cornell-háskóla í New York-fylki
Bandaríkjanna að sér látnum, en þar hafði hann verið prófessor og bókavörður
um langt skeið. Hefur Fiskesafni verið viðhaldið fram á þennan dag og er sér-
safn í bókasafni háskólans. Bókaskrá Fiskesafns, sem kostuð var af sjóðum sem
fylgdu safninu, hefur verið ein ítarlegasta bókfræði yfir íslenskar bækur fram
á okkar daga.2 Útgáfur á fornum íslenskum ritum og fjöldi bókfræðirita sem
birst hafa á 20. öld í ritröðinni Islandica bera enn fremur arfleifð Fiske fagurt
vitni.3
Fiske var aðeins á 18. ári þegar hann fékk brennandi áhuga á íslenskum forn-
bókmenntum, svo mikinn að hann hvarf frá háskólanámi í Hamilton College
í New York-fylki og réð sig sem léttadreng á skip sem sigldi til Evrópu í því
skyni að komast til Norðurlanda að nema norræn tungumál og fræði. Hann
dvaldi í Kaupmannahöfn og Uppsölum árin 1850–1852 og lærði dönsku,
sænsku og íslensku.4 Á þessum árum byrjaði Fiske að safna íslenskum bókum,
eins og sjá má af bréfinu til Gísla hér á eftir. Sýnir það á skemmtilegan hátt
hvernig menn fóru að því að byggja upp bókasöfn áður en bókaskrár útgefenda
og fornbókasala urðu almennar og vefverslanir á borð við Amazon komu til
sögunnar.5
Í bréfi til æskuvinar síns, Charles Dudleys Warner, dagsettu í Kaupmanna-
höfn 12. janúar 1851, segir Fiske: