Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Page 45
TMM 2006 · 3 45
Þórhildur Ólafsdóttir
Leikhúsið sem
draumaverksmiðja
Viðtal við leikhússtjóra, leikara og leikstjóra
Það er eitthvað að gerast í leikhúsi á Íslandi. Síðustu ár hefur gróskan
verið mikil, fjölbreytni og nýjungar sem aldrei fyrr. Það er leikhús all-
staðar, leikurum og leikhúsfólki fjölgar, áhugamannaleikhús blómstra í
öllum landshlutum og talað er um ákveðnar sýningar á kaffihúsum og
kaffistofum. Fólk þarf ekki að vera leikhússérfræðingar eða korthafar í
stóru húsunum til að finna fyrir áleitni leikhússins. Hvað hefur breyst?
Leitum við meira í leikhúsið eða leitar leikhúsið á okkur?
Ég settist niður með þremur mönnum sem hafa verið áberandi í leik-
húslífinu á Íslandi undanfarin misseri og reyndi að komast nær innvið-
um leikhússins á Íslandi og ætlan þess í nánustu framtíð. Magnús Geir
Þórðarson, Björn Hlynur Haraldsson og Jón Páll Eyjólfsson: Leikhús-
stjórinn, leikarinn og leikstjórinn.
Það þurfti eitthvað að gerast
Viðmælendur mínir, sem eru hluti af ungu kynslóðinni meðal leikhúss-
fólks hér á landi, segja að á síðasta áratug hafi hafist tímabil sem enn
stendur innan íslenska leikhússins og hafi verið því erfitt. „Á tíunda
áratugnum missti leikhúsið hér af mörgu sem var að gerast úti í heimi,“
segir Jón Páll. „ Það skapaðist ákveðinn leiði meðal listamanna á Íslandi
því nýjar hugmyndir komust ekki að. Nýjar hugmyndir fengu lítinn
hljómgrunn þó áhugaverðar væru, og maður fann fyrir áhugaleysi í fag-
inu, tregðu til að taka upp hanskann fyrir þá sem þó þorðu að víkja af
almennri braut. Ofuráhersla á frumsamin íslensk verk kom líka í veg
fyrir að stórkostleg nútímaverk erlendis frá væru sett upp. Peningarnir
fóru að langmestu leyti til stóru leikhúsanna sem stóðu svo ekki undir
væntingum. Það var hræðsla við að hreinsa út úr húsunum og gera eitt-
hvað djarft og öðruvísi, svo og hræðsla við að missa áhorfendur.“