Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Blaðsíða 50
Þ ó r h i l d u r Ó l a f s d ó t t i r
50 TMM 2006 · 3
fólki þetta ljóst um leið og við fengum vegtyllu erlendis; um leið og Björk
sló í gegn. Menn eru ekki lengur óttaslegnir yfir að segjast vinna verk af
því að þeir trúi á það og vilji fara með það alla leið. Því allt er hægt.“
Það gerist í leikhúsinu
Þeir takast allir á loft þegar ég spyr þá út í hlutverk leikhússins og liggja
ekki á meiningum sínum. En heyra má á þeim að tilgangurinn verði að
vera skýr með uppsetningu verka. „Þegar þú velur verk,“ segir Magnús
Geir, „verðurðu að geta svarað því til af hverju þú setur það upp. Ef þú
ert að setja upp verk sem hefur verið sýnt áður verðurðu að velta fyrir
þér hverju þú ætlar að bæta í það frá síðustu sýningu og hvers vegna það
eigi erindi á svið aftur.“
Jón Páll talar fyrir pólitísku leikhúsi og segir aldrei hafa verið eins
áríðandi og nú að listafólk noti málfrelsi sitt og takist á við samfélagið,
sláist jafnvel við það. „Leikhúsið á að vera vettvangur fyrir orðræðu,
fyrir okkur að setja hlutina í samhengi fyrir fólk í landinu. Fjölmiðlar
sinna ekki eftirlitinu sem skyldi. Samfélagið kallar á úrvinnslu og
listamenn sem geta tekið afstöðu í verkum sínum eiga hiklaust að gera
það.“ Hann segir leikhúsið ekki bara eiga að vera skemmtun með markaðs-
legan ásetning. „Leiklist eins og önnur listform er miðill sem á að segja
frá hlutunum sem gerast í kringum okkur, vera þessi spegill samtímans
eins og alltaf er talað um. Við eigum ekki að gefast upp fyrir því sem við
þurfum að segja. Þá er leikhúsið dautt.“
Björn Hlynur álítur hins vegar að leikhúsið eigi að vera krydd í til-
veruna. „Það er sko ekkert ómerkilegt hlutverk,“ segir hann. „Sjáið til
dæmis heimsmeistarakeppnina í fótbolta. Milljónir manna horfa á hana
og ýmis konar tilfinningar brjótast fram yfir fótboltaleikjunum. Þjóðar-
sorg ríkir ef landsliðið tapar leik. Samt er þetta bara leikur, þetta er fót-
bolti. Leikhúsið er ekkert merkilegra en þetta. Í leikhúsi á að vera boðið
upp á alþýðulist þó án þess að allt sé eins og sjoppulegir raunveruleika-
þættir. Leikhúsið hefur sett sig upp á stall en það á að vera aðgengilegra,
við eigum ekki að þurfa að klæða okkur upp til að fara í leikhús. Ekki
frekar en þegar við förum á fótboltaleiki.“
Björn Hlynur spáir því að íslenskir leikhúsáhorfendur muni sjá meiri
frumsköpun í íslensku leikhúsi í framtíðinni. „Leiklist er að vísu erfið
að þessu leyti. Myndlist og tónlist gengur meira og minna út á frum-
sköpun en í leikhúsinu hefurðu endurtekninguna. Það eru til mörg góð
verk en það á ekki að setja þau á fjalirnar bara af því að það er svo langt
síðan þau voru sýnd síðast.“ Hann hefur sjálfur leikið í fjöldamörgum