Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Page 51
L e i k h ú s i ð s e m d r a u m av e r k s m i ð j a
TMM 2006 · 3 51
klassískum verkum og segir sig aldrei hafa grunað að svo myndi verða.
„En það þarf að vera tenging í klassískum verkum við nútímann. Klass-
íkin er ekki heilög og hana má nútímavæða. Svo eigum við náttúrlega að
búa til fleiri sögur um Ísland í dag.“
Magnús Geir kveðst sjálfur leita mikið eftir nútímaverkum. „Ég er
alltaf á höttunum eftir verkum sem eru í klárri tengingu við það sem er
að gerast í dag. Ef leikhúsið er að reyna að segja eitthvað er hægt að segja
það á beinni hátt með samtímaverkum. Það er þó heillandi þegar vel
tekst til við að tengja sígild verk við aðstæður líðandi stundar.“ Hann
segir íslenskt leikhús stefna í að verða meira afgerandi og áleitið en um
leið aðgengilegra og áhugaverðara. „Þróunin er í þá átt.“
Ferlið sem hefur verið í gangi undanfarin misseri hefur leitt af sér
jákvæðar breytingar. Magnús Geir segir þó gróskuna innan leikhússins
nú ekki vera nýja af nálinni, framgangur innan leikhússins hefur alltaf
verið til staðar. „Það væri freistandi að segja það, en ég held að menn
hafi alltaf verið að reyna þetta. Dirfskan er hins vegar meiri í dag og má
gjarnan dafna enn frekar.“
Að mati Björns Hlyns getur leikhúsið svo orðið enn betra með aðhaldi
þeirra sem vinna við það. Það hefur sýnt sig að fólk hefur áhrif og getur
skapað sér grundvöll til gjörða og verka sem skipta máli. „Mér finnst að
listamenn eigi að koma út úr listnámi og rífa niður allt sem þeim líkar
ekki,“ segir hann. „Spurningin á alltaf að vera þessi: Hvað viltu gera,
hvað þarftu að gera? Við eigum að hjálpa hvert öðru að láta draumana
rætast, þó það sé barnalegt að segja það. Þannig verður leikhúsið að
draumaverksmiðju.“
Leikhúsið leitar meira á okkur en fyrr því þar er kraftur og djörfung
sem hefur búið til skilyrði fyrir ótakmarkaðri sköpun. Nýjar víddir opn-
ast og fjölbreytnin ríkir ein. Við leitum meira í leikhúsið því þar er
veisla. Leikhúsið hefur alltaf verið að bjóða okkur áhorfendum upp á
eitthvað og við höfum tekið því misvel í gegnum tíðina. Leikhúsið er
þarna fyrir okkur, vegna okkar og vill segja okkur frá. Ég held að með
sanni sé hægt að segja að framundan sé margra rétta hlaðborð í leikhús-
inu. Og við megum ekki hafna svo góðu boði.