Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Blaðsíða 60
G í s l i S i g u r ð s s o n
60 TMM 2006 · 3
lýðurinn mætti skilja að þar skrifuðu lærðir menn og valdamiklir.
Lærdómur, vald og þvælin hugsun áttu þannig samleið í þeim stíl sem
við höfum síðan kallað kansellístíl eða embættismannastíl; böksulegt og
samanbarið mál.
Nú er pólitíska öldin önnur. Við höfum breyst úr þegnum í borgara
og gerum þá kröfu til embættismanna að þeir skrifi skiljanlegt mál en
feli sig ekki á bakvið málskrúð og tilgerð. Þá ber svo við að almenningur
er oft hræddur við einfaldan stíl. Fólk heldur að uppskrúfaður stíll sé
ávísun á djúpa hugsun. Eins og á fleiri sviðum er vandinn því vaxinn
upp úr þeirri hugmyndafræði sem mörgum er inngróin. Í pólitíkinni
höfum við fyrir löngu tileinkað okkur hugmyndir um frelsi, jafnrétti og
bræðralag en í málfarsefnum eimir ennþá eftir af því að rétt sé að reisa
múra milli fólks með tungumálinu; jafnvel að hreykja sér hátt á eigin
stílhröngli. Líkt og í stjórnmálunum er þessi hugsun löngu úrelt. Krafa
tímans er um skýrt og ljóst málfar. En það er alls ekki jafn auðvelt og
ætla mætti að verða við þeirri kröfu.
Í umræðu um málpólitík er leitast við að rækta og viðhalda hugmynd-
um okkar um að gott málfar sé nokkurs virði; það sé ekki sama hvernig
við tölum og skrifum. Oft hefur umræða Íslendinga um málfar snúist
um rétt mál og rangt með áherslu á nokkur málfræðiatriði sem algengt
er að fólk fari ekki með á sama hátt og kennt er í skólum. Klassískt dæmi
um það er þágufallssýkin sem er heldur í sókn, samkvæmt BA-ritgerð
Björns Gíslasonar, þrátt fyrir aldarlanga baráttu hins íslenska skólakerf-
is við að lækna landsmenn af henni. Vegna þessarar ofuráherslu á ein-
stök málfræðiatriði hefur viljað brenna við að fólk missi sjónar á aðal-
atriðinu, sem er í raun gott mál og vont, fremur en rétt mál og rangt.
Í kennslu getur verið þægilegt að hamra á einstökum þekkingaratrið-
um sem nemendur eiga að læra utan að. En það er flóknara og tekur miklu
lengri tíma að þjálfa almennan smekk fyrir góðu máli og vondu. Slík
þjálfun krefst stöðugrar umhugsunar og ánægju af því að beita tungu-
málinu, langmáttugasta tækinu sem við eigum til tjáningar og samskipta.
Lífsleikni okkar og lífsnautn er að verulegu leyti háð því að við getum
notað þetta tæki sem best, ekki bara á æðsta stigi orðlistarinnar, í skáld-
skap, heldur líka í okkar daglega amstri þar sem tungutakið getur orðið
endalaus uppspretta sköpunar og lífsgleði, sé því sómi sýndur.
Um árþúsundamótin kölluðu norrænir viðskiptaforkólfar saman
æskufólk af Norðurlöndum og báðu það að geta sér til um ástandið í
okkar heimshluta eftir 20 ár. Unga fólkið sá fyrir sér að eftir 20 ár færi
vel á því að Norðurlandabúar hefðu auglýst lönd sín sem eins konar
fríhafnarsvæði þar sem allir heimsins borgarar gætu sótt vinnu og talað