Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Síða 63
Í s l e n s k m á l p ó l i t í k
TMM 2006 · 3 63
Eitt af mörgum sérkennum íslenskrar menningar, sem við teljum
okkur trú um að sé allt öðru vísi en menning annarra þjóða, er að klifa
sífellt á mikilvægi íslenskrar tungu. Á þessu sviði er sérstaðan þó minni
en ætla mætti því allar þjóðir gera tungumáli sínu hátt undir höfði. Það
er langt frá því að vera sérviska í íslenskum menntamönnum að vilja
vanda mál sitt til þess eins að skapa málótta hjá alþýðu manna, eins og
stundum er haldið fram af skammsýni og undarlegu þekkingarleysi.
Þjálfun og leikni í meðferð tungumálsins er alls staðar lykill að starfs-
frama og velgengni í lífinu, jafnt í samfélögum sem okkur er gjarnt að
kalla frumstæð sem í hinum þróaðri og tæknivæddari. Málvöndun er alls
staðar mikils metin vegna þess að með málfari opinberum við hugsanir
okkar og þrár, mótum í orð það sem býr hið innra og upplýsum þannig
hver við erum. Með orðum birtum við hugmyndir sem geta haft áhrif á
aðra, með orðum getum við aflað okkur fylgismanna og jafnvel breytt
heiminum til góðs eða ills eftir atvikum. Það er enn í fullu gildi að „orð
séu til alls fyrst“. En til þess að þau hafi áhrif verður að vanda til þeirra.
Það er fráleitt sama hvernig við orðum hugsanir okkar, bara að þær skilj-
ist. Þess vegna kappkostar fólk úti um allan heim að ná sem mestu og
bestu valdi á tungumáli sínu. Það er eina leiðin til að geta fært sér tungu-
málið í nyt – eins og menn gera við liðsmuninn í íþróttakappleikjum.
Umburðarlyndi andskotans
Nú þekkist sú skoðun og þykir fín að íslensk hreintungustefna sé eitt helsta
kúgunartæki íslenskrar málvaldastéttar, tengist með sérstökum hætti
Íslandi og íslenskri þjóðernisstefnu og beinist ekki aðeins gegn málhöltum
Íslendingum heldur líka þeim innflytjendum sem hingað koma og eiga
önnur mál en íslensku að móðurmáli. Helsti málsvari þessa heimsósóma
er mannfræðingurinn Hallfríður Þórarinsdóttir sem hefur ritað doktors-
ritgerð um efnið, haldið um það erindi og skrifað í blöð hér á landi.
Að sjálfsögðu er það rétt að tungumálið er eitt af máttugustu valda-
tækjum mannlegs samfélags, það er bara alveg óháð íslenskri málpólitík
og íslenskri þjóðernisstefnu. Það á jafnt við um öll samfélög að fólk sem
á í erfiðleikum með að nota tungumálið á jafnframt í erfiðleikum með
að láta í sér heyra. Sú íslenska málstefna að búa til nýyrði um erlend
hugtök og fyrirbæri er heldur ekki til þess ætluð að kúga alþýðu manna
og hefta aðgengi hennar að opinberri umræðu. Þvert á móti er þessi við-
leitni okkar sprottin úr þeim jarðvegi þegar alþýða manna mátti þola
mikla málkúgun Dana í félagi við íslenska embættis- og lærdómsmenn
sem gerðu sér leik að því að þvæla tungutak sitt og íklæða það slettum