Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Qupperneq 71
Í s l e n s k m á l p ó l i t í k
TMM 2006 · 3 71
máli okkar eftir því hvort við erum með fjölskyldunni, eldra eða yngra
fólki, vinum eða ókunnugum, körlum eða konum, heima eða að heiman
og svo framvegis. Þetta heita ólík málsnið í okkar daglega talmáli.
Merking orða er ekki nærri alltaf einföld og blátt áfram eins og ætla
mætti ef menn tækju orðabækur bókstaflega. Mjög oft ræðst merkingin
af samhenginu, bæði samhengi orðanna, í hvaða ytra samhengi orðin eru
sögð, hver segir þau, og ekki síst, við hvern þau eru sögð svo að nokkur
dæmi séu nefnd um það sem getur haft áhrif á merkingu einstakra orða.
Þannig er nú komið fyrir því ágæta orði vinur að það getur reynst
áhættusamt að nota það í vitlausu samhengi. Að vísu er ennþá óhætt
fyrir vini að nota það sín á milli en hættusvæðið hefst um leið og komið
er út fyrir vinahópinn og fólk fer að vina ókunnuga, eins og það heitir
þegar menn nota orðið vinur sem ávarp í síma eða í verslun þar sem
engra vina er von. Til er saga af manni sem kom í sjoppu og var nokkuð
gustmikill, gekk að afgreiðslumanni og fór að biðja um súkkulaði og
sígarettur með því að bæta alltaf orðinu vinur aftan við: „Láttu mig svo
líka fá einn eldstokk, vinur.“ Þegar afgreiðslumaðurinn komst loksins að
til upplýsa viðskiptavininn um verðið á þessu öllu gat hann því ekki
stillt sig um að hnýta sama orði aftan við: „Þetta verða 870 krónur,
vinur.“ En þá brást vinurinn heldur illa við og spurði með þjósti:
„Hvernig dettur þér í hug að ávarpa mig svona, þú litli sjoppukarl?“ Af
þessu getum við séð að það þarf að umgangast orð og merkingu þeirra
af varkárni. Undir yfirborði orðanna leynist heill merkingarheimur,
leikvöllur orðlistarinnar.
Ritmálið er kapítuli útaf fyrir sig. Í bókmenntum bregður fólk oft
fyrir sig málsniði sem er bundið við tiltekna bókmenntagrein. Gunnar
hét maður, sonur Sigurðar hins svarta segir okkur að við séum að lesa
Íslendingasögu. Og byrjunin Einu sinni var leiðir okkur inn í ævintýri.
Höfundar geta leikið sér með þessi stíleinkenni og þannig náð fram
óvæntum áhrifum eins og þegar Gunnar Harðarson og fleiri notuðu
þjóðsagnastílinn til að segja frá atburðum í nútímaþjóðfélagi. Þá varð
Tröllið í Fellahelli í Breiðholtinu til – og þótti fyndið. Hættan er sú að
bókmenntir lokist inni í ritmálinu. Og þá er tvennt til: Ritmálið getur
fjarlægst talmálið svo mjög að um það gildi allt aðrar reglur en talmálið,
eða að fólk sé svo gæfusamt að eiga skáld og stílsnillinga sem hafa gáfur
til að endurnýja ritmálið með því að sækja sér styrk og hugmyndir í tal-
málið. Þetta gerði Jónas Hallgrímsson og það er ekki síst vegna þessa
sem hann er okkar ástsælasta skáld. Hann bjargaði skáldskapnum frá
því að lokast inni í formföstum og tilbúnum ritmálsheimi með því að
yrkja á talmálinu. Þetta mættu fleiri athuga.