Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Blaðsíða 74
G í s l i S i g u r ð s s o n
74 TMM 2006 · 3
að hinn eða þessi „vinni á Morgunblaðinu“ en ekki „hjá Morgunblaðinu“?
Einnig er undarlegt þegar sagt er að tónleikar verði „á sal Menntaskólans
við Hamrahlíð“ í stað „í sal skólans“. Stundum ber það við að menn leita
rökfestu í forsetninganotkun tungumálsins og reyna þá að komast að nið-
urstöðu sem fellur að einhvers konar skynsemi. Til dæmis er hægt að
fullyrða að ekki sé mjög rökvíst að vinna á Morgunblaðinu og syngja á sal
MH. Gallinn er sá að hér tekur málvenjan völdin af rökvísinni. Blaða-
menn hafa unnið á blöðunum lengi og skólameistarar hafa jafnan kallað
nemendur á sal þegar mikið liggur við. Hafi menn efasemdir um að ekki
sé hægt að finna röklegt samhengi milli merkingar og forsetninga í fast-
mótuðum orðasamböndum er hægast að minnast þess hvernig við notum
í og á með bæjaheitum, eins og þeir hafa skrifað um Sverrir Tómasson og
Lúðvík Geirsson. Við eigum heima í víkum frá Vík í Mýrdal og vestur í
Bolungarvík en á víkum þegar komið er á Hólmavík og áfram austurum.
Svo er munur á því hvort við erum á Ólafsfirði eða í Ólafsfirði eftir því
hvort við erum í bænum eða sjálfum firðinum, og hvort við förum út á
Húsavík eða suður til Reykjavíkur. Hitt er líka til að forsetningin á sé
almennt á undanhaldi því áður fyrr var ekkert athugavert við að Gunna
væri á nýjum kjól þó að nútímakonur séu yfirleitt í kjólum.
Á hverju hausti verður mikið kynjarugl í fréttum af afréttum bænda.
Bændur sunnan heiða tala um afréttinn en fyrir norðan smala menn fé
heim af afréttinni. Orðið er með öðrum orðum tvíkynja, ýmist afréttur
í karlkyni eða afrétt í kvenkyni.
Orðið afréttur er ágætt dæmi um að málsagan getur komið til hjálpar
við að skýra furðufyrirbæri málsins. Að fornu var þetta nefnilega afréttur
í kvenkyni. Kvenkynsorð sem tóku þessari beygingu höfðu þá sérstöðu
að enda á erri í nefnifalli, sem er eins og kunnugt er einkennandi fyrir
karlkynsorð. Þetta err hefur haldist í örfáum orðum, til dæmis ber okkur
að tala um ána Saxelfi í kvenkyni, Saxelfur í nefnifalli, og í allmörgum
kvenmannsnöfnum á borð við Auði, Gerði og Hildi hefur err haldist í
nefnifalli. Íslenskum málhöfum hefur þó greinilega fundist óþægilegt að
láta algeng kvenkynsorð enda á erri í nefnifalli. Orðið afréttur missti err-
endinguna í nefnifalli fyrir norðan en hélt kyni sínu. Fyrir sunnan hefur
bændum verið meira umhugað um sjálfa orðmyndina. Þeir segja því
ennþá afréttur en hafa breytt um kyn á orðinu til samræmis við áhrifa-
mikil karkynsorð sem enda á ur. Samkvæmt ströngustu málfarsviðmið-
unum með fyrirmyndir í fornmálinu væri hvort tveggja rangt. En þeir
málvöndunarmenn eru þó ekki til sem myndu halda slíku fram um svo
algeng máleinkenni á vörum íslenskra bænda.
(Síðari hluti greinarinnar birtist í næsta hefti.)