Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Page 86
S t e fá n S n æ va r r
86 TMM 2006 · 3
Frjálshyggjumenn þrástagast á því að kjör þriðjaheimsbúa myndu batna all-
verulega ef ríku þjóðirnar hættu að vernda landbúnað sinn með innflutnings-
höftum og niðurgreiðslum. Svo einfalt er málið ekki. Fræðimenn á borð við
Dani Roderik og samstarfsmenn hans segja að bætt markaðsaðgengi og brott-
fall niðurgreiðslna sé ekki endilega töfraformúla. Fátæk lönd sem flytja meira
inn af landbúnaðarvörum en þau flytja út munu tapa vegna þess að matvara
verður dýrari. Aftur á móti myndu slíkar aðgerðir vera góðar fyrir meðalþróuð
lönd eins og Tæland og Brasilíu.49 Svo er sagt að stórbændur í Brasilíu myndu
hagnast á bættu markaðsaðgengi, kjör fátækra bænda og landbúnaðarverka-
manna myndu lítið batna.50 Ég hef líka heyrt að hættan við frjáls markaðsvið-
skipti með landbúnaðarvörur sé sú að þriðjaheimslönd með frekar þróaðan
landbúnað eins Brasilía og Argentína myndu sigra í samkeppni við síður þróuð
lönd eins og Senegal. Af þessu má sjá að ekki er gefið hvort frjáls verlsun með
landbúnaðarvörur efli hag fátækra þjóða.
Menn deila nú hart um hvort fátækum jarðarbúum hafi fjölgað eða fækkað
á skeiði hnattvæðingarinnar. Salomonsdómurinn kann að vera sá að enginn
sannleikur sé til á þessu sviði! Staðreyndin er nefnilega sú að mjög erfitt er að
mæla fátækt. Sú regla að telja þá persónu fátæka sem lifir á minna en einum
bandaríkjadal á dag hefur sætt gagnrýni, af hverju ekki einum og hálfum doll-
ara á dag? Enn sjáum við hve erfitt er að finna algildar, pottþéttar reglur. Í
ofanálag er miklum vandkvæðum bundið að safna gögnum í fátækum löndum
sem eru erfið yfirferðar og engin þjóðskrá er til. Þegar menn voru sendir út af
örkinni í ýmsum þróunarríkjum til að kanna hagi manna voru brögð að því að
fólk skildi ekki spurningarnar eða neitaði að svara þeim. Enda voru fátækling-
arnir spurðir hve mikið þeir notuðu í flugferðir á ári og hve mörg kíló af hrís-
grjónum þeir ætu mánaðarlega (eiga þeir vigt?). Auk þess hafði þetta fólk enga
reynslu af svona athugunum og spyrjendur oft illa þjálfaðir.51 Sannleikurinn
um þessi mál liggur ekki á lausu og því erfitt að meta hve vel eða illa hinar
ýmsu efnahagsstefnur hafa reynst í þessum ríkjum.
Við höfum séð að landbúnaðarstefna sem eflir efnahagslífið í einu þriðja heims
landi kann að skaða annað land af sömu gerð. Að breyttu breytanda má vera að
það sem eykur þjóðarframleiðsluna í Bandaríkjunum kunni að skaða þýskt
efnahagslíf. Alla vega segir þýski hagsagnfræðingurinn Werner Abelhauser að
Þjóðverjum hæfi ekki bandarísk efnahagsskipan. Sú skipan einkennist af veldi
hlutabréfaeigenda sem vilja gróða strax í gær. Þetta hæfi ágætlega efnahagskerfi
sem stundar fjöldaframleiðslu og skapar framúrstefnutækni. En þýska hagkerfið
hefur sérhæft sig í gæðaframleiðslu sem krefst langtímasjónarmiða.52 Kerfi
skjótfengins gróða á ekki við í slíku kerfi og engar líkur á því að Þjóðverjir geti
skipt um gír, farið að framleiða það sama og Kanarnir.53 Munið að sú fæða sem
hæfir kraftidjót getur verið skaðvænleg heimspekingi, munið að ég boða henti-
stefnu og Abelhauser virðist á sömu línu. Ekki virðist vera til nein formúla fyrir
góðum efnahagsárangri og varla tilviljun að hagfræðingum gengur illa að finna
góðar lögmálsskýringar. Það gefur augaleið að væri kostur á verulega góðum lög-
málsskýringum þá gætu þær fært okkur formúlur fyrir efnahagslegri velgengni.