Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Blaðsíða 96
M e n n i n g a r v e t t va n g u r i n n
96 TMM 2006 · 3
Ég hélt að Grímsey væri klettur í hafi en hún er iðjagræn, enda borið á hana
gúanó endalaust af milljónum fugla sem búa í björgunum allt í kring. Undir
grasinu er svo álnarþykkur mosi þannig að það er góð þjálfun fyrir mjaðmir og
læri að ganga um eyjuna. Þarna mætti stríðala miklu fleira sauðfé en nú er gert.
Grímseyjarlamb er lostæti sem ætti að selja sérpakkað í verslunum, merkt
vandlega þessari undraeyju við norðurheimskautsbaug.
En einu má ekki gleyma á gönguferðum: kríuprikum. Á Grímsey dvelja
milljón kríur yfir sumarið og eru gríðarlega árásargjarnar, bæði yfir varptím-
ann og meðan þær eru að koma ungunum sínum á legg. Við sáum einu sinni
nokkrar kríumömmur reka unga út af götunni fyrir framan okkur, það var
sjón að sjá. En lætin í þeim eru leiðinleg. „Krííííaaa,“ segja þær og steypa sér
niður að manni: „Kríííííía!“ Og svo skella þær í góm svo minnir á byssuskot
áður en þær gera árás. Kringum þykkan mökkinn af þeim flögra stakir stelkar
og þykjast líka vera í varnarliðinu – „dsjíp, dsjíííp.“ Handverkskonurnar elsku-
legu sem reka gistiheimilið Gullsól lánuðu okkur prik úr áli sem virkuðu!
Kríurnar hafa engan áhuga á að meiða vængina sína. Einn daginn ætluðum við
bara stutt og skildum prikin eftir heima. Þegar við komum suður á móts við
kirkjuna voru kríurnar orðnar svo óvægnar að ég ávarpaði konu sem var að
snyrta kringum kirkjugarðinn og bað hana ásjár. Hún reyndist vera Jórunn
Magnúsdóttir, Grímseyingur í marga ættliði, og var fljót að koma okkur til
aðstoðar. „Ég hef séð veslings útlendingana sem koma með ferjunni skríða eftir
götunni, skælandi undan kríunum,“ sagði Jórunn, og sjálf sagðist hún varla
fara út með ruslið á vissum tímum árs án priks.
Jórunn er góður fulltrúi fólksins á eynni. Það er ekki aðeins einstaklega vel-
viljað og hjálpsamt heldur vel máli farið, frótt og skemmtilegt. Jafnvel börnin
eru ófeimin og hýr við gesti. Manni leiðist ekki þar á helstu samkomustöð-
unum, Grímskjöri (versluninni í bænum) eða Kríunni (veitingahúsi staðarins).
Fróðleiksfús aðkomumaður er undir eins kominn í fjörugar samræður við þá
sem þar eru staddir. Ekki sakar að lesa sér til í stóru Grímseyjarbókinni, sem
áður var getið, til að átta sig á öllum aðstæðum og vera viðræðuhæfur um eyna
og sögu hennar. Minni bók er til, Grímsey, bæði á íslensku og ensku (Akra-
fjallsútgáfan 2004).
Þó að eyjarskeggjar hafi verið hressir í máli, enda fiskiríið gott meðan við
stóðum við, þá fundum við glöggt ugginn undir hressileikanum. Því nú er
hálfur kvótinn í eynni boðinn til sölu, og enginn veit hvaða áhrif það hefur á
afkomu byggðarlagsins. Ég er ein þeirra mörgu sem alls ekki skilja hvernig
yfirvöld geta stuðlað að því meðvitað að drepa sprelllifandi byggðarlög. En ég
vona að Grímseyingar leggi ekki á flótta frá eynni sinni heldur finni sér fleira
til að lifa á. Til dæmis gætu bátar sem ekki mega róa til fiskjar boðið ferða-
mönnum að sigla með þá kringum eyna. Það gæti orðið minnisstæðara en að
setjast bara á heimskautsbauginn hjá Básum, og lafhægt að gera hvort tveggja
meðan ferjan stendur við. Ef fólk er lengur mætti til dæmis leyfa því að veiða
sér í soðið og matbúa yfir eldi í fjörunni þegar vel viðrar, háfa kannski fugl og
fugl. Af nógu er að taka!