Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Side 107
Tó n l i s t
TMM 2006 · 3 107
Almennt var talið að séra Bjarni Þorsteinsson hefði rannsakað þau tónlistar-
handrit sem til voru þegar hann tók saman ritið Íslensk þjóðlög er kom út á
árunum 1906–1909 og inniheldur upp undir 500 lög. Af þessum ástæðum
virðast margir Íslendingar hafa haldið að við ættum ekki neinn tónlistararf á
borð við þann sem sumar Evrópuþjóðir geta stært sig af.
Þar á meðal var Hildigunnur Rúnarsdóttir tónskáld; í Morgunblaðinu 21.
desember 2003 var tekið viðtal við hana í tilefni af uppgötvun íslenska tónlist-
ararfsins í gömlum handritum, þar eð hún var ein þeirra sem hafði verið feng-
in til að semja tónlist út frá stefjum í handritunum. Hildigunnur sagði: „Lögin
[í handritunum] eru mjög misjöfn að gæðum, en margt af þeim er mjög gott og
kom mér verulega á óvart enda hélt ég eins og sjálfsagt flestir að það væri ekki
til neinn íslenskur tónlistararfur, manni var kennt það. Mér finnst líka merki-
legt að þetta voru ekki bara fræðimenn að skrifa niður tónlist heldur var fólk
úti um allt land að skrifa niður nótur, þó oft hafi það verið sömu lögin, lög sem
höfðu geymst í munnlegri geymd.“
Viðhorfið breyttist sem betur fer eftir að tónlistararfurinn uppgötvaðist.
Það gerðist tiltölulega nýlega þegar í ljós kom að séra Bjarni hafði aðeins farið
yfir lítinn hluta þeirra handrita sem innihéldu nótur. Upp úr því hófust rann-
sóknir Collegium Musicum, Samtaka um tónlistarstarf í Skálholti, á handrit-
unum og var arfurinn svo kynntur á hátíðartónleikum í Skálholti fyrir sex
árum. Á vefsetrinu Ísmús er nú að finna gnægð mynda af þessum handritum,
bæði með kaþólskum kirkjusöng þar sem elstu handritin eru frá upphafi 12.
aldar, og einnig pappírshandrit frá 16.–19. öld, en þau innihalda fyrst og fremst
lúterskan kirkjusöng. Fjölmargar hljóðritanir eru líka á setrinu, þ.á m. elstu
hljóðupptökur sem hafa varðveist á Íslandi.
Vissulega er þessi tónlist miklu einfaldari en kantötur Bachs og annað í svip-
uðum dúr. Engu að síður er hún oft falleg, enda hefur hún verið áberandi á
hverju ári í Skálholti um nokkurt skeið. Sumartónleikarnir, sem standa yfir í
fimm til sex vikur í hvert sinn, voru stofnaðir af Helgu Ingólfsdóttur og hafa
verið árlegur viðburður síðan 1975. Hátíðin hefur einkennst af tveimur megin-
þáttum, flutningi barokktónlistar og flutningi á íslenskum tónsmíðum, og er
það í nýju íslensku verkunum sem tónlistin í handritunum hefur fengið að
njóta sín. Valin innlend tónskáld hafa verið ráðin til að semja verk sem eru inn-
blásin af stefjum úr gömlu handritunum, en þannig má segja að tónlistararf-
urinn hafi gengið í endurnýjun lífdaga, endurfæðst; fengið annan tilgang en
bara þann að kveða niður goðsögnina um að íslenskt tónlistarlíf hafi ekki orðið
til fyrr en um þarsíðustu aldamót. Sumt af því sem er frumflutt er leikið eða
sungið aftur í messu daginn eftir, og þannig hefur gamla tónlistin orðið hluti
af samtímamenningunni, í þessu tilviki helgihaldi kirkjunnar.
Þessi uppgötvun á fortíð Íslendinga á tónlistarlífinu virðist hafa haft tvennt
í för með sér. Annarsvegar hefur hún skapað félagslegt auðmagn, þ.e. ákveðið
samfélag sem hefur gefið lífi fjölda fólks tiltekna merkingu er ætla má að því
sé talsvert mikilvæg. Slík samfélög, hvort sem um er að ræða foreldrafélög,
íþróttafélög eða AA samtökin, geta verið kröftug í pólitísku samhengi. Máttur