Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Page 108
Tó n l i s t
108 TMM 2006 · 3
samvinnunnar sem þau byggjast á er margfalt meiri en máttur venjulegs ein-
staklings. Þetta félagslega auðmagn getur því auðveldlega haft töluverð áhrif á
opinbera menningarstefnu, fjárveitingar o.s.frv. Sumartónleikarnir í Skálholti
hafa einmitt notið ríkulegra styrkja í gegnum tíðina og hafa verið mikil hvatn-
ing fyrir íslensk tónskáld. Þeir hafa komið á aukinni, gefandi samvinnu á milli
tónskálda, flytjenda og forráðamanna kirkjunnar.
Hinsvegar hefur tónlistararfurinn styrkt sjálfsmynd Íslendinga, þ.e. vitn-
eskju þjóðarinnar allrar um menningarlega stöðu hennar á sviði tónlistar. Hér
er mikilvægt að hafa í huga að menningararfur samanstendur ekki bara af
hlutum; hugtakið vísar líka til siða, viðhorfa o.s.frv. Tónlistararfur okkar er því
ekki aðeins handritin, heldur sú tónlistariðkun sem þau veita vitneskju um. Að
vita það nú að tónlistariðkun hérlendis var mun víðtækari en áður var talið
hefur breytt sjálfsmynd okkar. Við VORUM ekki menningaróvitar á sviði
tónlistar fyrr á öldum!
Erlend staðartónskáld
Ég sagði hér að ofan að ég hefði orðið var við þessa bættu sjálfsmynd í Skálholti
undanfarið, en staðartónskáldin þar hafa alltaf verið íslensk þar til fyrir tveim-
ur árum þegar John Tavener samdi verk fyrir Kammerkór Suðurlands. Því
miður missti ég af tónleikunum með tónlist Taveners, en flutningnum á tónlist
Rotarus í sumar mun ég aldrei gleyma. Tónlistin var fyrir mismunandi hljóð-
færaskipan og snilldarlega samansett. Verkin voru greinilega innblásin af
ýmiskonar „eþnískri“ tónlist, sérstaklega japanskri. Gamla andatrúin í Japan
heitir Shinto og miðar að því að koma á sambandi við ósýnilega heiminn (eins
og flest trúarbrögð á einn eða annan hátt) og gegnir tónlist þar mikilvægu
hlutverki. Svipuð hugsun virtist liggja að baki tónsmíðum Rotaru.
Framvindan í tónlistinni fór ekki svo mjög eftir þeim formúlum sem gestir
á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands eiga að venjast, heldur var áferðin
sjálf aðalatriðið og hún var meistaralega útfærð á tónleikunum. Allskonar
áhrifshljóð komu stöðugt á óvart og sköpuðu annarsheimslega stemningu sem
maður finnur varla annars staðar. Stemningin var svo mergjuð að einstakt
hlýtur að teljast.
Eitt lítið dæmi er verk sem hét Japanese Garden. Í japönskum görðum er
oft byggt á aldagömlum reglum sem eiga að skapa sérstök hughrif. Stundum er
talað um Zen-garða og er þá vísað til áhrifa frá görðum í japönskum Zen-
klaustrum sem eiga að hafa róandi áhrif á hugann. Garðurinn sem tónlist
Rotarus fjallaði um virðist hafa verið slíkur garður; þar spilaði Kolbeinn
Bjarnason á bassaflautu en umhverfis hann var garður af óljósum blásturs-
hljóðum af tónbandi. Andrúmsloftið var hugleiðslukennt og var tónlistin svo
undursamlega sérstæð og leikur Kolbeins svo blæbrigðaríkur og tilfinninga-
þrunginn að hann var ekki af þessum heimi. Þannig tónlist skapar mögu-
leikann á að gera hið fjarstæðukennda raunverulegt; hún er þess umkomin að
gera tilvist andans áþreifanlega. Einmitt það átti sér stað á tónleikunum.