Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Page 111
B ó k m e n n t i r
TMM 2006 · 3 111
Valdimar Haraldsson býr í Kaupmannahöfn, orðinn aldurhniginn. Hann fær
boð frá skipakónginum Jung-Olsen um að fá far með skipinu Elízabetu í eigu
hans og Krónos-útgerðarfélagsins. Förinni er heitið til Tyrklands og þaðan til
Sovétríkjanna. Elízabetu er annars ætlað að flytja norskt pappamauk og fer
Valdimar með skipinu til Noregs. Síðan situr hann fastur á því í norskum firði
í viku. Hann er vissulega í sjóferð (undirkaflarnir bera íróníska titla, „ég sigli
minn sjó“ og „enn sigli ég sjóinn“ og eru þeir sóttir í endurminningar Hrafns
Valdimarssonar sem lesandi þarf að fletta upp í Gegni til að fullvissa sig um að
séu í raun og veru til). En skipið fer ekki neitt og ferðasögunni lýkur þannig að
Valdimar hverfur af skipinu í Noregi og telur sig þá hafa reynt meira en þó að
af þessu ferðalagi hefði orðið. Í raun hefur hann farið í annað ferðalag og
goðsagnakenndara og kemur heim allur annar en hann fór.
Argóarflísin er hluti af ritröð skoska bókaforlagsins Canongate sem kallast
Goðsagnir. Nú þegar eru komnar út bækur í þeirri ritröð eftir ýmsa heimsfræga
höfunda, þar á meðal Margaret Atwood (um Penelópu), Jeanette Winterston (um
Atlas), David Grossman (um Samson hinn hárprúða) og hinn rússneska Victor
Pelevin (um Þeseus og mínótárinn). Að sögn mun Chinua Achebe brátt bætast í
hópinn. Er þessi ritröð alþjóðleg, samstarfsverkefni margra forlaga og á að spanna
hundrað bækur á næsta aldarþriðjungi. Ekki fann ég aukatekið orð um Sjón og
Argóarflísina á heimasíðu forlagsins og veit ekki heldur hvort Bjartur hyggst gefa
út alla titlana á íslensku. Hitt fæ ég ráðið af heimasíðunni að flokkurinn sé ekki
bundinn við grísk-rómverskar goðsagnir, þó að þær séu áberandi nú í fyrstu.
Það er engum vafa undirorpið að Sjón hefur góðan skilning á goðsögnum og
það sést í einni slíkri sem finna má framan við söguna, um stjörnumerkið
Argó (eða Argo Navis). Þar er vísað til rits sem líklega er aðeins til inni í Argóar-
flísinni en höfundur þess er Alfredson skipstjóri sem stýrir einmitt skipinu í
sögunni (og ber raunar nafn ferjumannsins Karons). Þar segir hann frá því
hvernig Argó sé ekki lengur á himninum. Á 18. öld hafi menn endurskilgreint
himininn og í stað Argóar séu komin þrjú ný stjörnumerki: kjölurinn, skut-
urinn og seglið. Þetta má skilja sem eins konar táknsögu um túlkunarfræði,
þ.e. hvernig goðsaga og vísindi reynast tvær ólíkar leiðir til skilnings – vísind-
in hluta fyrirbærin niður í parta á meðan goðsagnirnar beinast að heildinni.
Kannski er þá munurinn á goðsögunni og vísindunum einmitt sá að goðsagan
sér skip þar sem vísindin sjá skipshluta. Átökin í sögunni snúast annars vegar
um hinn nútímalega hugsunarhátt sem Valdimar Haraldsson er fulltrúi fyrir
og hins vegar hugsunarhátt goðsögunnar sem virðist svífa yfir vötnunum á
skipi Krónosarfélagsins. Helsti fulltrúi hans er þó annar stýrimaður skipsins,
Keneifur. Það er hann sem á sjálfa Argóarflísina og hefur upp úr henni sögur
frá ferðalagi Jasons og Argóarfaranna.
Aðalsögumaður verksins, Valdimar Haraldsson, er sannfærður um yfirburði
norræna kynstofnsins sem hann rekur til fiskneyslu. Hefur hann árum saman
gefið út tímaritið Fisk og Kultur, undarlegt sambland af vísindariti og almennu
riti, þar sem hann flytur þennan boðskap sinn. Innan um erlendar vísindagreinar
eru kímnisögur á íslensku og ungverskur mágur Valdimars hefur auk heldur