Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Blaðsíða 120
B ó k m e n n t i r
120 TMM 2006 · 3
fólki, bundinn móður sinni sterkum böndum, sambandið við eiginkonuna dýr-
mætt og sterkt og hann eignast margar fallegar dætur sem þykir vænt um hann.
Traust hans á sínum nánustu konum hefur, eins og áður var að vikið, vafalaust
átt mikinn þátt í því að hann keyrir í gegn kvenréttindafrumvarpið fræga í sam-
starfi við Bríeti vinkonu sína Bjarnhéðinsdóttur. Reynsla hans á vettvangi
einkalífsins er einfaldlega þannig að honum hlýtur að finnast fáránlegt að
konur hafi ekki sama rétt og karlmenn. Í viðhorfi sínu til kvenréttinda er Hann-
es fylgjandi þeirri stefnu sem framtíðin ber í skauti sínu en það er þannig á fleiri
sviðum. Viðhorfið til kvenréttinda tengist því að sjálfsögðu að Hannes var alla
tíð hlynntur frelsi einstaklingsins, og eins og við vitum hefir aðdáun Vestur-
Evrópubúa á frelsi einstaklingsins stanslaust vaxið fiskur um hrygg síðustu
tvöhundruð árin. Hannes er hlynntur tækniframförum og alþjóðlegum tengsl-
um og allir vita hvernig þróunin hefur verið í þeim málum. Hannes er í stuttu
máli sagt fylgismaður nútímans og þá gætum við ályktað á tvo vegu: Er hann
pólitískur snillingur sem mótar samtímann og framtíðina með skarpskyggni
sinni og dugnaði eða er hann hentistefnumaður og einfaldlega manna fljótastur
að átta sig á því hvaða skoðanir er heppilegt að hafa? Þessar spurningar tengjast
annarri gamalli spurningu sem engum hefur tekist að svara á viðhlítandi hátt:
Móta einstaklingarnir tímann eða býr tíðarandinn snillingana til? Hvað sem
orsökum líður þá verður því varla móti mælt að Hannes er ótvíræður gerandi í
pólitísku lífi þjóðarinnar. Við hliðina á Hannesi eru lengst af ásamt öðrum þeir
Skúli Thoroddsen og Valtýr Guðmundsson sem ætla sér að mörgu leyti það
sama og Hannes en eru alltaf of seinir eða missa á einhvern annan hátt af lest-
inni; stundum fyrir bolabrögð Hannesar eða annarra. Samkvæmt bók Guðjóns
verður Hannes fyrsti Íslandsráðherrann vegna mikilla hæfileika, óvenju víð-
tækra tengsla og vensla við yfirstétt landsins, vegna heppni og vegna þess að
eiginkona hans og móðir eru honum ótrúlega traustir bakhjarlar. Enginn hinna
hefur allt þetta. Ég elska þig stormur leiðir það skýrt í ljós og er þannig séð mjög
góð ævisaga. Í henni er heilleg og vel hugsuð frásögn sem útskýrir fyrir okkur á
röklegan hátt hvers vegna stjórnmálamaðurinn og skáldið Hannes Hafstein á
þessa þykku ævisögu skilda. Ekki eru hins vegar allir jafn trúaðir á aðferð ævi-
sögunnar við uppstokkun á lífi manneskjunnar.
Blekking ævisögunnar
Sá merki fransmaður Pierre Bourdieu skrifaði í einni af bókum sínum að hug-
myndin um ævisögu væri mótuð af almennri eða hversdagslegri skynsemi en
hefði læðst inn í vísindalega orðræðu.2 Hugtakið ævisaga er byggt á þeirri for-
sendu að lífið sé saga og að mannsævin sé sett saman úr mörgum atburðum
sem raðist í sögu þegar þeir tengjast einstaklingi. Þeirri sögu er síðan að mati
almennings hægt að trúa. Við trúum því þá að ævi okkar sé eins konar vegur
eða leið þar sem nokkrum sinnum er komið að krossgötum. Margir eru hins
vegar þeirrar skoðunar að þegar sannleikurinn er fundinn á þann hátt sé jafn-
framt verið að búa til glænýjan sannleika. Það er gaman að íhuga slík mál yfir