Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Side 123
B ó k m e n n t i r
TMM 2006 · 3 123
aði hana með aðstoð gömlu hugmyndarinnar sem aldrei var kláruð. Þannig
hefur hann gert þá framlengingu skáldsagna sem annars á sér stað í bók-
menntaumfjöllun og kynningu þegar bækur koma út að hluta af verkinu.
Verkið minnir á Pompidousafnið í París að því leyti að það sem áður taldist inn-
yfli bókar snýr út. Engu er leynt. Eða öllu heldur, það er reynt að leyna engu.
Jafnvel þegar kemur að gerð persóna í bókinni gengur höfundurinn óvenju vægðar-
laust um eigið líf, persónurnar eru hver af annarri beint úr nánasta umhverfi
hans, jafnvel í hlutverkum sem þær gegna þar, til dæmis móðir og tengdafaðir.
Tómas Jónsson sjálfur stendur líka mjög nálægt Kristjóni Kormáki hvað smæstu
æviatriði varðar. Báðir unnu til dæmis hjá Íslenskri erfðagreiningu um tíma, eiga
svipaða tengdafeður og eru feður að tvíburadætrum. Þessi jarðtenging, bæði við
eigið líf höfundar, fólk í hans nánasta umhverfi sem gengur nokkuð fyrirhafnar-
laust inn í bókina, og við aðila sem hann á samskipti við í gegnum netið, vinnur
vel með geðveikinni sem annars er verið að kanna í bókinni.
Að kanna geðveiki í ákveðnu samfélagi er leið sem oft er farin til að skoða
hvernig fólki líður í því og hversu traustar stoðirnar eru undir veruleikanum
svokallaða. Geðveiki er nokkuð sem menn líta oft einföldum augum en er í raun
dyrnar að almennri óreiðu mannssálarinnar; þess vegna er geðveiki í skáldsögum
yfirleitt lítils virði, því í reynd afhjúpar hún best takmörk höfundarins – nema í
höndum meistara eins og Dostojevskís þar sem geðveikin opnar dyr að sálardjúp-
unum að því marki sem þau eru yfirleitt til. Ástæða þess að Kristjón kemst
ágætlega frá því að kanna geðveiki aðalsöguhetjunnar, burtséð frá þeirri sjálf-
gefnu forsendu að hann hefur hæfileika, er kannski að hann hefur upplifað óör-
yggið við að lifa á götunni sem einskonar dropát, án formlega viðurkenndrar
þekkingar, án þess að eiga neitt, án sterkrar tengingar við hefðbundna fjölskyldu.
Einnig hefur hann nána reynslu af fólki sem á við geðræn vandamál að stríða. Allt
þetta samanlagt gerir að hann er nokkuð trúverðugur þegar hann er að kanna
geðveikina. En hann kemst líka vel frá því vegna þess að það afbrigði geðveiki sem
hann er að kanna er býsna nálægt meginþorra fólks í nútíma samfélagi.
Að því leyti sem geðveiki snýst um tengsl eða tengslaleysi við raunveruleik-
ann þá er áleitin spurningin um hversu geðveik við erum í nútíma fjölmiðla-
samfélagi, enda viðurkennt spursmál meðal sumra sálgreinenda. Til dæmis þá
fæst bandaríski sálgreinandinn Jay Martin við áhrif mikils sjónvarpsgláps á
sjálfsmynd og geðrænt jafnvægi fólks í bókinni Who am I this time frá 1988.
Hann segir meðal annars að samfélag okkar sé byggt á þeirri trú að sjálfið sé
skáldskapur, samfélagið leiksvið og atburðir hafi enga þýðingu utan sýning-
arinnar. Eins segir hann að tengsl fólks við veruleikann hafi í gegnum tíðina
fengist í gegnum þrjá „hópa“: 1. Þá sem við sjáum og þekkjum. 2. Þá sem við
sjáum ekki en eru þekktir í gegnum hefðbundin trúarkerfi. Þarna má finna
bæði guði og forfeður. 3. Þá sem aldrei sjást en fréttir fást af í gegnum fólk í hópi
eitt. Jay Martin heldur fram að þessir flokkar hafi raskast þannig að nú séu mjög
fáir í hópi eitt, hefðin sé mjög á reiki í hópi tvö, en það hafi hlaupið ofvöxtur í
hóp þrjú sem gerir að fjöldi fólks úr fjölmiðlum og kvikmyndum sé orðinn svo
að segja vinir okkar. Til að sjá þetta þurfa menn ekki að lesa lærðar greinar. Það