Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Page 124
B ó k m e n n t i r
124 TMM 2006 · 3
er nóg að standa í röðinni við kassann í Bónus og heyra fólk ræða saman meðan
það blaðar í Séð og Heyrt. Þá er ekki óalgengt að heyra fólk tala um þjóðþekkta
aðila allt að því sem heimilisvini. Það er vitanlega mikil bjögun á veruleikanum
en þykir ekki verulega athugavert. Þarna er þó mjög stutt yfir í geðveikina.
Jay Martin rekur raunveruleg dæmi um menn sem fóru þá braut á enda sem
Tómas Jónsson fetar í bókinni Frægasti maður í heimi. Eitt þeirra er af Mark
David Chapman sem leit á sig sem skáldsagnapersónuna Holden Caulfield úr
bók J. D. Salinger, The Catcher in the Rye. Mark David Chapman er best þekkt-
ur fyrir að hafa myrt John Lennon.
Tómas Jónsson lítur á sig sem frjálsan, góðan, vel tengdan, frægan jafnvel, en er
félagslega algerlega út úr kortinu. Hann gagnrýnir líka af mikilli sannfæringu firr-
ingu „upplýsingasamfélagsins“ en er á sama tíma versta fórnarlamb þess sem hefur
sést í íslenskum bókmenntum. Þetta er vitanlega point höfundar um okkur.
Rannsókn rithöfunda á upplausn sjálfsins og tilkomu skáldskapar í sálinni í
staðinn fyrir raunverulegan karakter hefur átt sér stað lengi og hafa höfundar
eins og Cervantes og Dostojevskí lagt þar hönd á plóginn. Það sem er forvitnileg
viðbót hjá Kristjóni er hvernig aðgangur lesandans að sjálfi höfundarins er
opinn, hvernig brot af höfundinum þróast mikið til fyrir opnum tjöldum út í að
verða skáldsagnapersóna og hvernig raunverulegt fólk stígur inn í verkið að
hluta til nákvæmlega „eins og það er“, en að hluta til eins og hin skáldaða per-
sóna sér það. Ég fæ á tilfinninguna eftir að hafa kynnt mér verkið og umhverfi
þess til nokkurrar hlítar að það byrji ekki nokkursstaðar, það sé hvergi neitt eitt
upphaf, neitt ákveðið sjálf sem heldur utan um það. Hvort sem það er rétt eða
ekki er gott að þau áhrif hafi náðst, það stuðlar ekki bara að hugleiðingum um
hina eilíft gildu spurningu um tengsl sjálfsins og veruleikans, heldur veitir
ákveðna upplifun á þessu sviði sem er sterkari en ég hef fengið úr íslenskum
skáldverkum hin síðari ár. Það kostar töluverða fyrirhöfn og umhugsun að fá
þetta og meira út úr Frægasta manni í heimi, en mér þótti það vel þess virði.
Kári Páll Óskarsson
Styrkurinn felst í fjöldanum
Kristján Þórður Hrafnsson: Hinir sterku. Mál og menning, 2005.
Íslenskt bókmenntalíf er háð tískusveiflum eins og allt annað. Á tíunda áratug-
inum og fram yfir aldamót var ákveðin kaldhæðni áberandi í verkum margra
vinsælla skáldsagnahöfunda. Dagskipunin var sú að hinir tilfinningaríku
listamenn þyrftu að verða harðari og svalari; hugsjónirnar hefðu beðið skip-
brot og höfundar þyrftu að laga sig betur að því kapítalíska neyslusamfélagi
sem þeir byggju í með því að kasta kreddunum og vera með í hringekjunni,