Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Side 126
B ó k m e n n t i r
126 TMM 2006 · 3
hyggjan áberandi sem slík birtingarmynd. Andlit hennar eru Ómar og vinur
hans Þór, ungir og róttækir efnishyggjumenn, ákafir málsvarar sinnar ein-
staklingsmiðuðu hugmyndafræði. Faðir Ómars, gamli rokkarinn, er svo sýnd-
ur sem uppspretta þessara sjónarmiða, eldheitur talsmaður þess að boð og
bönn verði að víkja svo einstaklingurinn geti notið sín. En þegar öll kurl eru
komin til grafar virðist þessi hugsjón ekki rista dýpra en svo að hann sjálfur sé
það eina sem skipti máli. Hann er fullkomlega sjálfmiðaður, alls ófær um að
koma til móts við þarfir annarra, og þetta er það sem lífsspeki hans þýðir í raun.
Nýfrjálshyggjunni er þannig stillt upp sem rökréttu afsprengi hippatímans.
Mótvægið við einstaklingshyggjumennina er svo Agnar, nýi maðurinn í lífi
kvenhetjunnar. Hann er doktorsnemi í húmanískum fræðum og málpípa sjón-
armiða sem mætti kalla félagshyggju. Bókin gefur ótvírætt í skyn að hann muni
reynast betri sambýlismaður en Ómar, einfaldlega vegna þess að hann er ekki
jafn rosalega sjálfmiðaður. Fyrir margar af persónum bókarinnar er það stað-
reynd að einstaklingshyggjan hefur gert þær tilfinningalega fatlaðar, ómögulegar
í nánum samskiptum við aðra, því þeim finnst þær einar skipta öllu máli.
Milli þessara öndverðu póla hefur Kristján Þórður svo spjallþáttastýruna, og
notar hana sem afar glúrið tæki til að bera saman sjónarmiðin tvö. Þetta er
atvinna hennar. Hún fer ósjálfrátt í spjallþáttastellingarnar, ýmist í samræðum
við aðrar persónur eða í hugskoti sínu; hún er sí-leitandi að því sem máli skiptir,
skiljandi kjarnann frá hisminu, teflandi fram mótrökum. Töluverðar vangaveltur
liggja að baki þessum rökræðum, og höfundur reiðir fram ýmsar frjóar bollalegg-
ingar um þær hugmyndastefnur sem móta íslenskt samfélag nútímans. Ef hægt er
að tala um að skáldsaga komist að niðurstöðu, þá er hún að félagshyggjan, eða
réttara sagt samhyggjan, sé betri kosturinn af þessum tveimur. Í lífi fólks getur
margt bjátað á, og þegar það gerist þá sannast yfirleitt þörfin fyrir að eiga einhvern
að sem getur stutt mann og átt hlutdeild í reynslu manns, og hve það er óendan-
lega miklu betra en að standa einn frammi fyrir harmleiknum vegna þess að
maður vildi ekki fórna neinu af sjálfum sér fyrir aðra. Þegar áföllin dynja yfir
getur komið á óvart hverjir það eru sem raunverulega teljast meðal hinna sterku.
Hér að ofan var þess getið að flakkað er fram og aftur í tíma í hugskoti spjall-
þáttastýrunnar og þess vegna er frásögnin oft eins og endursögn:
Þeir höfðu hamrað á því að frjálshyggjan tryði á skynsemi einstaklingsins, að ein-
staklingnum væri treystandi, fólk vissi hvað því sjálfu væri fyrir bestu (bls. 120).
Þetta er sérkennilegt í ljósi þess að Kristján Þórður er líka leikritaskáld og leikrit
skrifa menn ekki í lýsingarhætti þátíðar. Þetta þýðir líka að tíminn verður oft
frekar óljós í texta bókarinnar. Því meira sem flakkað er í tíma, því óræðari verð-
ur tíminn og vægi hans minnkar. Hið sama má segja um persónuleika þáttastýr-
unnar: á einum spretti aftarlega í bókinni verður hún eiginlega ósýnileg, hún
verður hreint tæki sem miðlar andstæðu sjónarmiðunum tveimur. Skyndilega er
lesandinn kominn í hennar spor og þarf að gjöra svo vel að sinna hennar verki,
fara að hugsa gagnrýnið, skilja kjarnann frá hisminu og taka afstöðu.