Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Qupperneq 129
B ó k m e n n t i r
TMM 2006 · 3 129
urnum, og er andstæða við sifjaspellin sem eru gefin í skyn strax eftir að
óflekkaðar æskuminningarnar eru rifjaðar upp. Vandinn við að segja ,forn-
sögu‘ af þessu efni kemur fram strax í fyrstu upprifjuninni þegar ‘Faðir hennar
lítur niður og svipur hans mildast í hlýju brosi. „Þú ert mér ástkærust allra,“
segir hann og hlær við. „Asavakit.“ ,Ég elska þig.‘ – Ekkert að því að amrískur
pabbi á okkar dögum segi slíkt við dóttur sína, en á hið sama við grænlenskan
föður á 15. öld? Það er ekki ýkja sennilegt. Eru íslenskir nútímafeður komnir á
þetta tilfinningaról? Ég hnaut um þetta, en lýsingin á barningi Naaju við að lifa
af þurrkaði þennan, í mínum huga, falska tón fljótt út.
Lýsingarnar á samdrætti Naaju og Mikjáls, þegar hann sér hana nakta og
hún dregur af honum blaut fötin, eru fallegar og sannfærandi, þau sjá og skynja
án dýpri tilfinningalegra útlegginga. Kemur líka sniðuglega út að það er séð í
hug þeirra til skiptis, þannig að sami atburður er séður með augum beggja og
menningarmunurinn verður ljóslifandi. Þegar þau hins vegar kynnast betur og
hún lærir íslensku koma fyrir ósannfærandi lýsingar og orðaskipti, til dæmis
þegar Mikjáll segir við Naaju: ‘Þú ert ótrúleg.’ Það er líka drjúgur munur á
persónusköpun Naaju og Mikjáls – kannski vegna þess að Naaja er svo sterkur
persónuleiki að Mikjáll bliknar við hlið hennar. En kannski er Mikjáll einfald-
lega ekki jafnvel hugsuð og mótuð persóna frá höfundarins hendi og Naaja.
Saga Mikjáls rennur heldur ekki eins vel og áreynslulaust og saga Naaju.
Upprifjunarkafli upp á sex blaðsíður þegar Mikjáll liggur og hugsar er fremur
klúðursleg leið til að segja forsögu hans. Misjöfn áferð á textanum kemur einn-
ig fram í frásögninni af dauða Andrésar sem girnist Naaju, reynir að nauðga
henni, eltir hana út á ísinn þegar hún flýr undan honum en drukknar og hún
kemst undan. Allt í einu er séð í hug Andrési: lesandinn fylgir honum bók-
staflega inn um dauðans dyr því hugsanir hans þegar hann drukknar eru
raktar. Ég verð að játa að mér finnst skjóta skökku við að Andrés, sem kemur
lítið við sögu, skuli allt í einu verða svo viðamikil persóna að við fylgjum hugs-
unum hans. Kaflinn er vel skrifaður en samt stílbrot.
Það er ekkert auðvelt að skrifa jafn nákvæman og tálgaðan texta og fyrstu
fimmtíu blaðsíðurnar eru: það besta í bókinni er skýrt, vel og fallega skrifað.
Af einhverjum ástæðum er svo eins og höfundur missi þessa nákvæmni, sagan
fer líka að ganga hraðar, áferðin verður ójafnari – mér þótti upphaflegu sterku
áhrifin gufa upp þó sjálfur efnisþráðurinn reki krassandi sögu. Ýmsar per-
sónur virðast nokkuð klisjukenndar, til dæmis ofsatrúarpresturinn síra Páll.
Mér stóð þó öldungis ekki á sama um örlög Naaju og létti þegar vonda fólkið
varð enskum sjóræningjum að bráð.
Erlendis eru sögulegar skáldsögur stöðugt á metsölulistum þó framgangur
slíkra bóka blikni yfirleitt við hliðina á spennusögum. Vilborg hefur sýnt að
hún á tvímælalaust erindi á þennan vettvang og verður áhugavert að sjá hvar
og hvernig hún ber niður næst.