Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Side 131
B ó k m e n n t i r
TMM 2006 · 3 131
að snúast um stjórnmálaástandið, enda heimstyrjöld að hefjast, og fljótlega
taka að líða átta mánuðir milli þess sem skrifað er í bókina (bls. 24–27). Fyrir
börn sín las Einar Númarímur Sigurðar Breiðfjörð (bls. 374). Eftir því sem Sól-
veig segir létu þau sér það furðuvel líka, en lesendur hlýtur að gruna að les-
efnið hafi verið valið af nokkurri eigingirni, ef ekki sérvisku. En lesendur skilja
líka að maður með pólitískt hlutverk Einars Olgeirssonar gat ekki gefið sér
tíma til að dekra við fjölskyldu sína.
Þetta skrifa ég í fullri einlægni. Frásögn bókarinnar af staðreyndum einum
staðfestir eftirminnilega það sem margir hafa sagt áður og eldra fólk þóttist
vita, að Einar Olgeirsson var sérkennilega heillandi stjórnmálamaður. Barn á
hreinræktuðu Framsóknarheimili í sveit lét það ekki fara framhjá sér þegar
kom að Einari í útvarpsumræðum frá Alþingi. Það var ekki bara makalaus tal-
hraði hans sem heillaði mann, þótt spretthlaup væru þá mikils metin íþrótt. Í
máli hans bjó sérkennilegur kraftur sem dró að sér athygli. Í bók Sólveigar
kemur mat liðsmanna Einars á honum best fram í frásögninni af fimmtugs-
afmæli hans, árið 1952 (bls. 373 o.áfr.). Ekki voru aðeins skrifaðar afmælis-
greinar í Þjóðviljann, það var gefið út sérstakt aukablað. Ekki var aðeins tekið
á móti gestum síðdegis á heimili Einars heldur haldið kvöldverðarboð í Hlé-
garði í Mosfellssveit, sem mun þá hafa verið nýjasta samkomuhús á Stór-
reykjavíkursvæðinu. Og þar var prentuð veisludagskrá. – Persónudýrkun,
mundi einhver segja, dæmigerð fyrir kommúnista Stalínstímans. Það kann að
vera rétt, samt var auðvitað ekki á hvers manns færi að laða að sér aðdáun sam-
herjanna og láta þá lyfta sér upp í öndvegi.
Bók Sólveigar er fyrst og fremst ástarjátning. Að baki hennar liggur samt
býsna mikil og vönduð heimildavinna. Um feril Einars og skoðanir hefur höf-
undur haft gott gagn af tveimur samtalsbókum hans og Jóns Guðnasonar próf-
essors, að mörgu leyti góðum bókum, þótt sjónarmið söguhetjunnar sé næsta
einrátt þar líka. En Sólveig hefur líka kembt skjalasafn föður síns og dregur
fram úr því sitthvað sem kann að geta fyllt upp í sögu tímabilsins. Þá fer hún
til baka í tíma og tekst merkilega vel að finna heimildaefni til að gefa lifandi
hugmyndir um tilveru og manngerð þess fólks sem stóð að Einari. Sólveig
byrjar sögu sína nálægt eigin fæðingu í Reykjavík, 1939, fer síðan til baka og
segir frá öfum og ömmum Einars norðanlands, með viðeigandi ættartölum.
Svo hverfur hún að bernskuheimili sínu aftur, þaðan norður á ný og heldur
áfram að gera grein fyrir ættfólki sínu þar uns Einar kemur til sögu og flyst
með fjölskyldu sinni suður. Upp frá því fer sagan meira í beina tímaröð þótt
höfundur leyfi sér stundum að láta hugrenningatengsl leiða sig svolítið út af
brautinni. Þessi stökk fram og aftur í tíma framan af bókinni orka vel, þau
skapa tilbreytingu og svolítið viðnám fyrir huga lesenda.
Stundum reynir Sólveig að lifa sig inn í og sviðsetja frásögn sína, en út úr því
kemur ekki mikið. „Skelfingin skein úr augum barnsins,“ segir um Einar þegar
hann fylgdi foreldrum sínum út úr brennandi húsi (bls. 91). Ætli lesendur geti
ekki sagt sér það sjálfir? Aftur á móti lætur Sólveigu ágætlega að skrifa frásögn,
segja skýrt og tilgerðarlaust frá hversdagsatburðum. Meðal annars heldur hún