Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Page 132
B ó k m e n n t i r
132 TMM 2006 · 3
til haga smásögum af því tagi sem ganga gjarnan í fjölskyldum og styrkja
böndin innan þeirra. Þar má nefna söguna af hundraðkallinum sem gekk í
hring (bls. 145). Olgeir og Solveig sendu Hildigunni dóttur sinni hundrað
króna seðil til Kaupmannahafnar þar sem hún var við nám í útsaumi og knipli.
Hún sendi Einari bróður sínum seðilinn til Berlínar þar sem hann var við
háskólanám, því henni fannst að hann hlyti að hafa meiri þörf fyrir hjálp. En
Einar vissi að foreldrar hans höfðu ekki úr miklu að moða og sendi þeim seð-
ilinn. Stundum tekst Sólveigu líka ágætlega að gera það sem nú þykir fínast
meðal fræðimanna í húmanískum fræðum, en er í meira lagi vandmeðfarið, að
blanda eigin reynslu af rannsókninni inn í frásögn sína (bls. 112 og víðar).
Þegar líður á söguna ryður Sólveig sjálf sér æ meira til rúms í henni. Þó
stígur hún aldrei fyllilega fram sem aðalpersóna og skýrir lesendum skýrt og
eftirminnilega frá reynslu sinni. Hún tæpir þannig margsinnis á því að það
hafi verið erfitt að lifa í Reykjavík kaldastríðsáranna sem dóttir landsþekkts
kommúnista. 16. kafli bókarinnar heitir „Dóttir Rússagrýlunnar býr á Hrefnu-
götunni“ og þessi dóttir er Sólveig. En frásögnin af þessu er einkennilega
atburðasnauð (bls. 339): „Við börnin urðum oft fyrir aðkasti vegna stjórnmál-
anna. Slapp bróðir minn heldur skár en ég enda fjórum árum yngri.“ Síðar er
vitnað til ævibókarinnar þar sem Einar tæpir á því að börnin séu skömmuð
fyrir skoðanir hans (bls. 347). Enn (bls. 356) fagnar Sólveig því að hafa verið
laus við stríðni þegar hún var í sumardvöl norður á Akureyri, því „Enginn vissi
að dóttir Rússagrýlunnar var flutt norður.“
Ekki er heldur fjallað verulega um hvenær og hvernig Sólveig tók samt sem
áður upp skoðanir föður síns og gekk inn í stjórnmálahreyfingu hans, eða
hvort það gerðist átakalaust af sjálfu sér. Á bls. 419 er bara sagt frá því að „við
Æskulýðsfylkingarmenn stóðum með rauðar fötur og söfnuðum peningum í
fundarlok.“ Sólveig segir líka glöð frá boðsferðum með foreldrum sínum til
stórveldanna austantjalds og er stolt af því að hafa náð að dansa tangó við
kínverska stjórnmálaleiðtogann Sjú En Lai (bls. 424). Um leið taka önnur
dansævintýri meira og meira yfir í sögunni. Það er eins og höfundur hverfi
svolítið til baka inn í sjálfhverfu unglingsáranna, þar sem ungir heillandi karl-
menn skipta meira máli en annað. Sá vandasami pólitíski dans sem Einar
Olgeirsson hlaut að stíga á árum kalda stríðsins hverfur sífellt meira í baksvið.
Ekki hefði ég neitt á móti því að lesa persónulegar endurminningar jafnöldru
minnar úr Reykjavík, en þá hefði hún þurft að taka á sig ábyrgð aðalpersónu
sögunnar.