Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Síða 136
B ó k m e n n t i r
136 TMM 2006 · 3
Hann málaði myndina vegna þess að fólk vildi sjá sigurgöngu dauðans í öllum
sínum hryllingi. Hvers vegna? Það er flóknari spurning. Var ekki fólk að hrynja
niður úr hor, farsóttum og holdsveiki? Voru ekki lífslíkurnar sáralitlar og meðalald-
urinn lágur? Svo sannarlega. Kannski vildi fólk einmitt sjá það sem það bjó við, vildi
– líkt og stóuspekingarnir – horfast í augu við það allra versta til að geta sagt sér að
það væri ekki þannig. (173–174)
Að fólk hafi sótt í versta mögulega hrylling til að sætta sig betur við hinn
raunverulega hrylling daglega lífsins? Einmitt sama leik leikur Lína, systir
Guðjóns – afskaplega vænisjúkur einstaklingur. Slíkt hið sama gerir Guðjón
sjálfur við ritun bókar sinnar – samtími hans einkennist af runki í listum,
menningu og fjölmiðlum og hann skapar af honum skopstælda dystópíu þar
sem hverskyns runk er aðal. Og það vill þannig til að bókinni er hnýtt saman
í stuttum lokakafla sem er endurvinnsla á fyrrnefndum upphafskafla í vinnu-
herbergi Guðjóns – eini munurinn er að í lokakaflanum er Lína systir hans
ekki í símanum og atburðarásirnar sem áður hafa komið fram í bókinni deyja
í sjálfri fæðingunni. Merkingarleysi þeirra er undirstrikað og fótum kippt
undan öllu sem á undan hefur gengið:
Síminn hringir. Áður en ég tek upp símtólið ímynda ég mér að ég eigi systur að nafni
Lína og að þetta sé hún og að hún eigi mann sem heiti Jósef og að Helena kona mín
haldi við hann./Ég ímynda mér hver sé versta staða sem upp geti komið. Ég tek upp
símtólið. Skynja að einhver kemur gangandi aftan að mér og ég ímynda mér að það sé
Helena./Það er enginn í símanum en lífið heldur áfram, það er fullt af símtölum. (176)
Stefnuljós er óvenjuleg skáldsaga og hressandi og skemmtileg lesning. Að lestri
loknum herja þó á mann ágengar spurningar í ljósi þeirrar andúðar sem meta-
skáldskapur verður fyrir: Vildi Hermann Stefánsson prófa að skrifa einu sinni
hreina og beina skáldsögu, vísindaskáldsögu um Reykjavík í annarlegri fram-
tíð? Vildi hann það en hreinlega gat það ekki? Var athyglisbresturinn svo mik-
ill að Hermann Stefánsson settist niður til að vinna að vísindaskáldsögunni,
fékk símtal í vinnuherbergi sitt og þeyttist med det samme inn á brautir piss-
maka, framhjáhalds, hassreykinga og spíttsogunar? Inn á brautir þess versta
sem gæti gerst? Það þarf svo sem ekki svör við þessum spurningum, en þær eru
þarna engu að síður.
Tilvísun
1 http://www.hi.is/~mattsam/Kistan/_private/bart.htm – skoðað 17. ágúst 2006.
Greinin birtist einnig í vorhefti Skírnis 1998.