Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Blaðsíða 140
140 TMM 2006 · 3
Um r æðu r
Stefán Steinsson
Kiljan með nútímastafsetningu
Það var eitt sinn mánudaginn í áttundu viku vetrar, að laufabrauð var skorið hjá
Kristínu systur minni á Flókagötunni. Í Reykjavík var tungl í suðri um hálf sjö að
morgni, svo vísir menn geta reiknað hvaða ár þetta var. Ég var með kattadrullu-
veiki sem þá gekk í borginni og gat ekki skorið. Því tók ég tók bók af hillu og lagð-
ist fyrir. Þetta var Dagleið á fjöllum, úr dánarbúi Jóhanns Skaptasonar sýslu-
manns, en mágur minn átti erfðahlut eftir hann. Þegar ég hafði legið á dívan og
lesið um stund tók ég eftir því, að mér fannst bókin ekki svo slæm. Það var öfugt
við það þegar ég las hana í fyrra sinnið upp úr gullstrandlengju minni, keyptri
1984. Gullstrandlengju, sem ég hafði fengið í fangið aftur, eftir að ég reyndi að gefa
elliheimili hana. Það eru alls 47 bækur, fallegar í hillu, sumir segja of fallegar. Hvað
um það, ég fór að hyggja að textanum. Hverju sætti að bókin var læsilegri núna?
Mér virtist þessi bók eldri en gullstrandlengjan, hugsanlega frumútgáfa.
Gæti verið að Menningarsjóður sálugi hafi gefið hana út. Ég tók fljótlega eftir
því, að bókin var ekki með hinni sérstöku stafsetningu Kiljans. Var sama hve
ég leitaði, ekki fann ég breiða sérhljóða á undan ng og nk né önnur skriffæri
hans. Ég sá að þetta var það atriði sem skildi á milli og gerði textann læsilegan.
Sögurnar voru orðnar eins og venjuleg íslenska, ekki færeysk mállýska. Jafnvel
sagan sú, sem verstur spjátrungsháttur hefur verið talin, þar sem höfundur
gerir grín að gestgjöfum sínum í Jökuldalsheiði fyrir kleinu sem þeir gáfu
honum, leit út eins og venjuleg saga.
Þegar ég kom í landspróf 1973 þótti okkur strákunum kiljanska stafsetn-
ingin á Íslandsklukkunni afar fyndin. Hún var ekki síðri en ýmis orðatiltæki,
sem höfundur er þekktur fyrir. Þannig hentaði stafsetningin vel unglingum og
gerir kannski enn.
Þegar ég er búinn að opna þessar bækur með jöfnu millibili í 33 ár, verður
hin fyndna stafsetning leiðinleg. Hún minnir á brandara sem krakki tyggur of
oft. Hún verður tilgerðarleg og hefur kannski allt af verið. Mér finnst hún
merki um eitthvert yfirlæti. Maðurinn sem reifst mest út af vimmeriseringu
Fornritafélagsins þurfti að hafa sína eigin vimmeriseringu.
Ég vil koma þeirri ábendingu til útgefandans, að helstu skáldsögur, þættir og
leikrit Kiljans verði gefin út með nútímastafsetningu. Það er ekki meira guðlast
en Njála Helgafells 1945. Verk hans verða læsilegri ef þessi brandari er ekki allt
af framan í lesendum. Kannski batna jafnvel leikritin.