Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Blaðsíða 27
Væ n g i r h u g a n s
TMM 2006 · 4 27
Myndabókin býður einnig uppá að vinna með mismunandi lög sem
ætluð eru ólíkum lesendahópum. Þá er t.d. eitt lag ætlað yngri börnum
og annað eldri börnum eða fullorðnum. Myndabækur eru oft lesnar af
fullorðnum fyrir börn og því er oft tekið mið af báðum viðtakendahóp-
um við gerð þeirra. Skilaboðin ætluð fullorðnum eru stundum írónísk
eða tvíræð og þau geta flutt áróður eða samfélagsgagnrýni. Hin írónísku
boð fela í sér andstæðu þess sem sýnt er. Börnin skynja táknin bókstaf-
lega en hinir fullorðnu átta sig á því að verið er að skírskota til ákveðinna
atriða í menningarheimi þeirra, jafnvel á gagnrýninn hátt.
Vegna margræðni myndabókaformsins hefur oft verið brugðið á leik
í þeim og þær orðið vettvangur skemmtilegra tilrauna. Bókarformið
hefur verið brotið upp og bókin sjálf gerð að upplifun fyrir lesandann.
Hann handfjatlar hana, snertir, opnar umslög, les sendibréf, hreyfir
flipa, potar í göt, finnur lykt og heyrir jafnvel hljóð. Gerðar hafa verið
tilraunir með sjálfsögur (metafiction) þar sem sköpunarferlið er gert
sýnilegt og höfundurinn dreginn fram í dagsljósið. Einnig má oft finna
textatengsl þar sem einn texti kallast á við annan og er gjarnan vísað í
þekkt ævintýri sem gert er ráð fyrir að börn þekki. Textatengsl eru
notuð á margvíslegan hátt í myndabókum því í þeim er hægt að vísa í
önnur verk ýmist á sviði myndarinnar eða á sviði textans eða hvoru
tveggja í senn.
Myndlyklar
William Moebius styðst við kenningar Barthes úr verkinu S/Z og flokk-
ar myndmál niður í ákveðna lykla í grein sinni „Introduction to Picture-
book Codes“.5 Hann talar um lykil staðsetningar, stærðar, endurtekn-
ingar, sjónarhorns, ramma, línu og litar. Með þessu er hann að búa til
tæki er nýtist til greiningar á táknkerfi myndabóka.6
Lykill staðsetningar snýst um það hvar persónur eru staddar, ofarlega,
neðarlega til vinstri eða til hægri á myndinni eða opnunni. Það gefur
vísbendingu um valdastöðu hennar og sjálfsmynd. Standi aðalpersónan
neðarlega á vinstri síðu gefur það önnur skilaboð en ef hún stendur
ofarlega á mynd á hægri síðu. Persóna ofarlega til hægri stendur líklega
betur að vígi en persóna neðarlega á síðunni.
Lykill stærðar tengist þessu einnig því ef aðalpersónan er lítil, en
stækkar er á líður, getur það t.d. sagt lesandanum að hún hafi þroskast
eða sjálfsmynd hennar eflst. En birtist persóna risastór á mynd getur það
einnig táknað ofvaxið egó. Þannig er aldrei hægt að skoða myndirnar
öðruvísi en í samhengi hverja við aðra.