Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Blaðsíða 112
B ó k m e n n t i r
112 TMM 2006 · 4
ljósara letri en aðrir hlutar bókarinnar og má velta fyrir sér tilgangi þess; sögu-
mannsröddin er þannig sjónrænt aðgreind frá meginfrásögninni um leið og
hún leitast við að vera partur af þeim heimi sem lýst er.
Bygging þessarar skáldsögu (eða smásagnasveigs) vekur hugrenningatengsl
við ljóðabálk Jóns úr Vör Þorpið (1946) þar sem ort var um líf í litlu sjávarþorpi
úti á landi með áherslu á harða lífsbaráttu þeirra fátæku. Í Sumarljós og svo
kemur nóttin er áherslan að vísu önnur enda tímarnir aðrir og baráttan breytt.
Án þess að ég vilji gera of mikið úr samanburði þessara tveggja verka þá eiga
þau það sameiginlegt að hafa lítið þorp sem sögusvið og sækja til íbúa þess
margvísleg yrkisefni sem spunnið er úr, hvort sem spuninn er framreiddur í
prósakenndum ljóðum eða ljóðrænum sögum. Og fleiri tengingar má gera til
gamans: Í fínni úttekt á höfundarverki Jóns Kalmans eftir Sölva Björn Sigurðs-
son er fyrri skáldsögum Jóns (og þá sérstaklega þríleiknum Skurðir í rigningu
(1996), Sumarið bakvið brekkuna (1997) og Birtan á fjöllum (1999)) lýst sem
rómantískum minnisvörðum liðinna tíma þar sem írónían búi þó ætíð undir
og áhersla á hina spaugilegu hlið tilverunnar.1 Sölvi Björn tengir þessa tegund
frásagnar réttilega við Þórberg Þórðarson en verk hans leika reyndar stórt hlut-
verk í sagnaheimi bókanna. Sumarljós og svo kemur nóttin hefur að mörgu
leyti yfir sér svipaðan andblæ og þessar fyrrnefndu sögur: rómantíkin, íronían
og spaugið er til staðar og einnig fortíðarþráin þó ekki sé hér um fortíðarlýs-
ingu að ræða því bókin gerist í samtímanum eins og sést á þessari tilvitnun:
„[…] konurnar fimm horfa saman á Innlit/útlit, framhaldsþætti, matreiðslu-
þætti, spjallþætti, það er í rauninni fullt starf að fylgjast bæði með sjónvarps-
dagskránni og lífi þorpsins, síðustu árin hefur þó orðið erfiðara að greina
þarna á milli.“ (20) Fortíðarþráin kemur glögglega fram víða í frásögninni, það
„hríslast um okkur notaleg tilfinning, svipað og þegar við rifjum upp hvernig
það var að drekka kók með lakkrísröri, svipað og þegar við förum á Þjóðminja-
safnið eða heimsækjum gamla frænku; við höfum sýnt liðinni tíð hollustu.“
(23) Einnig má nefna að víða gætir heimsósómalýsinga á nútímanum þar sem
sögumaður talar beint til lesenda: „Þú veist hvernig tímarnir eru, kemur varla
út tímarit öðruvísi en að það fjalli um kynlíf; framhjáhöld, kynlífskannanir,
úttekt á stærð typpa, umfjöllun um hjálpartæki kynlífsins. Einhversstaðar
lásum við að svallveislur og hömlulítið kynlíf hafi haldist í hendur við úrkynj-
un Rómaveldis, en er maðurinn eitthvað annað en hold og bein og svo sem ein
skrúfa úr títani?“ Síðasta setningin sýnir þó umburðarlyndi sögumanns gagn-
vart breyskleika manneskjunnar og kannski er einmitt skilningur á mannlegu
eðli í öllum sínum myndum eitt af aðalsmerkjum bókarinnar.
Annar meistari, William Heinesen hinn færeyski, kemur einnig sterklega
upp í hugann við lestur Sumarljós og svo kemur nóttin, bæði hvað varðar stíl
og hlutverk sögumanns en kannski einna helst vegna litskrúðugra þorpsbúa
sem hver á fætur öðrum „reikar ráðþrota um villugjörn öngstræti hjartans“,
eins og segir á bókarkápu. Líkt og Heinesen tekst Jóni Kalman listilega að
stækka þröngan þorpsheiminn með því að magna upp einstaklingana í goð-
sagnakenndar stærðir þar sem þeir kljást við ólæknandi ástríður af margvís-