Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Blaðsíða 129
B ó k m e n n t i r
TMM 2006 · 4 129
hverja hlutdeild í þekkingu hinna sem voru það. Ef herramenn líta á það sem
stöðutákn að vera sem fróðastir, er það væntanlega til að geta látið ljós sitt
skína. Og hvað höfðingjarnir hafast að …
Önnur spurning er svo sú, hvernig hægt sé að festa hendur á þeirri heims-
mynd sem birtist nútímamönnum í þessu forna brotaspili. Sverrir Jakobsson
hafnar því sem hann nefnir „módernisma“, en það viðhorf er fólgið í því, eins
og hann segir, að „heimsmynd miðalda er mæld við heimsmynd nútímans.
Eftir því sem miðaldamenn uppgötva meira af þeirri sýn færast þeir nær
ósýnilegu lokatakmarki sem er heimskort eins og þau birtast í landabréfabók-
um nútímans“ (bls. 33). Þetta er markmiðsbundin (teleologísk) sagnfræði, og
fannst mér í fljótu bragði að ekki væri eyðandi miklu púðri á hana, því henni
hefur fyrir löngu verið hafnað. Eigi að síður verða menn jafnan að vera á varð-
bergi gagnvart henni, því hún er áleitnari en margur hyggur, ekki síst í vísinda-
sögu og slíku. Heimsmynd fyrri tíma verður jafnan að skoða eins og hún er í
sjálfu sér, og umfram allt má ekki skipta henni í einhverjar deildir út frá því
hvað menn á seinni tímum telja rétt eða rangt. Einfætingaland og Hvítra-
mannaland voru jafn raunverulegur hluti af hugmyndum Íslendinga um ver-
öldina á miðöldum og t.d. Serkland.
Sú heimsmynd miðalda sem Sverrir Jakobsson bregður upp í riti sínu er
ákaflega athyglisverð. Snar þáttur hennar er sá hvernig Íslendingar, og Norð-
menn líka, fóru að því að tengja landafræði og sögu norðursins við þá heims-
mynd sem þeir fundu í evrópskum latínuritum síns tíma og var upphaflega
miðuð við Miðjarðarhafslöndin. Þetta dregur Sverrir vel fram, en efnið hefði
jafnvel átt skilið enn ítarlegri umfjöllun. T.d. hefði mátt athuga nánar hvernig
fræðimenn á Norðurlöndum beittu alls kyns hljóðlíkingum og upprunaskýring-
um orða, reyndar eftir evrópskum fyrirmyndum, til að tengja fortíð Norður-
landa við hálfur Trójumanna: þannig eru æsir raktir til Ásíá, í sama stíl er
hugmyndin um Svíþjóð hina miklu eða köldu komin af samtímaframburði
latneska nafnsins á landi Skýþa, „Scythia“, og eins er farið með goðanöfn, Þór
tengdur við fornkonunginn Tros, sem átti að hafa gefið Tróju nafn sitt, Sif
tengd við „sibylla“ og Frigg við latneska lýsingarorðið „frigida“, sem lofar engu
góðu. Vísindi af þessu tagi voru jafn mikil sannindi fyrir miðaldamenn og
hagfræði fyrir nútímamenn. Þá hefði einnig mátt á það líta að allar þessar hug-
myndir um uppruna Evrópuþjóða í Tróju og þar í grennd voru byggðar á
bókmenntaverki, sem var einn helsti grundvöllur klassískrar menntunar í Evr-
ópu fyrr og síðar, Eneasarkviðu.
Þessi tengsl norðurslóða við forna heimsmynd manna í Miðjarðarhafslönd-
um birtast einna skýrast í harla merkilegu fráviki frá henni: Norðurlandamenn
litu sem sé ekki svo á að Atlantshafið væri það úthaf, „Oceanus“, sem Grikkir
og Rómverjar töldu að það væri, heldur nýtt og aukið „Miðjarðarhaf“, það væri
landbrú frá Norður-Noregi til Grænlands, sem væri skagi út úr henni, önnur
landbrú frá Afríku til Vínlands og eins konar nýtt Njörvasund á milli þeirra
tveggja. Hið raunverulega úthaf væri svo enn lengra í burtu (sbr. kort á bls. 26).
Þessi hugmynd um landaskipun kemur skýrt fram í Konungsskuggsjá. Höf-