Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Blaðsíða 118
B ó k m e n n t i r
118 TMM 2006 · 4
Steinunn Inga Óttarsdóttir
„Annars verð ég víst alltaf einn“
Gyrðir Elíasson: Steintré. Mál og menning 2005.
Í smásagnasafninu Steintré eftir Gyrði Elíasson eru 24 smásögur. Þær fjalla um
börn og fullorðna, um einsemd og aðskilnað, drauma og svefn, um bækur og
samband fólks við þær. Innan um litla drengi og skrýtna stjörnuskoðara eru
bókaþýðendur, bókasafnarar, bókbindarar og rithöfundar. Bækur eins og
ævisaga Houdinis og Saga hugsunar minnar eftir Brynjúlf frá Minna-Núpi, Hið
undarlega mál Jekylls og Hyde og myndabók um Harley Davidson mótorhjól
koma við sögu, bækur eru geymdar í ísskáp og ofnskúffu en í smásögunni
„Heimurinn er einn“ blasir tortíming bóka við. Skáldið Benedikt Gröndal
blaðar í bókum sínum fullur kvíða (68) en fuglamálarinn frá Boston ákveður
skyndilega að hætta að skrifa bækur og fara heim til konu sinnar (75) og það er
eins og það verði honum til bjargar enda eru bækur óvættir sem voka yfir
manni:
Hann lokaði augunum og reyndi að hugsa ekki neitt. En í huga hans svifu bækur
einsog skuggalegir fuglar, blökuðu svörtum spjöldum. Hvítar síður ýfðust líkt og
bringufiður (20).
Persónur sagnanna eru yfirleitt nafnlausar nema bóksalinn Guðbjörn í „Berja-
saftinni“, rithöfundurinn John Sears í „Sumarbókinni“ og frænkurnar Hilda
og Katrín í „Bílhræinu“ en það er eina sagan þar sem kvenrödd heyrist. Konur
í verkum Gyrðis hafa ekki verið sérlega áberandi og jafnan fámálar og dular-
fullar. Í „Flugleiðinni til Halmstad“ sem er lúmskt fyndin saga og „Vatnaskil-
um“ hafa konurnar fengið nóg og yfirgefa karl sinn án frekari skýringa. Þeir
halda sínu striki hvor á sinn hátt, hjá öðrum þeirra renna efi og doði saman við
eftirsjá og sjálfsásökun, hinn finnur bæði fyrir ró og létti – en ekki lengur til
lofthræðslunnar sem hafði áður hrjáð hann. Eiginkona ameríska rithöfund-
arins í „Sumarbókinni“ segist ætla að koma í heimsókn til hans á Íslandi en
kemur svo ekki, á símsvaranum segir dóttir hans að þær mæðgur séu farnar til
Vermont. Þegar hann loksins heyrir í konunni er hún flóttaleg í röddinni. Eftir
fimmtán ára hjónaband hafa þau fjarlægst hvort annað, valið hvort sína leið. Í
sögulok snýr rithöfundurinn heim þar sem hans bíður uppgjör við konuna og
þá „vissi hann varla af hverju hann hafði verið hérna svona lengi, alla þessa
vegalengd að heiman“ (128). Kannski er Gyrðir að gefa í skyn að rithöfundar
þurfi að velja milli fjölskyldulífs og ritstarfa eða hugleiða hvort fórna eigi
hjónabandi fyrir það að geta skrifað. Eða sýnir tímabundinn aðskilnaðurinn
svo augljóslega að hjónabandið var úr sér gengið? Konurnar eru þöglar, skyldi
það vera vegna þess að þær þora ekki að horfast í augu við karlana og ljúga því