Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Blaðsíða 85
Í s l e n s k m á l p ó l i t í k
TMM 2006 · 4 85
þeirrar málbreytingar sem stundum hefur verið kölluð hin nýja þolmynd
eða hin nýja ópersónulega germynd. Átt er við setningar á borð við „það
var beðið mig að vaska upp í gær“ og „það var hrint mér fyrir framan
blokkina.“ Merkilegt er að rannsókn þeirra gengur þvert gegn þeirri
algengu hugmynd að Reykjavíkurlýðurinn spilli málinu og sé upp-
spretta alls ills í málfarsefnum. Rannsóknin leiðir nefnilega í ljós að um
2/3 unglinga á landsbyggðinni töldu þessar setningar í lagi, einungis
liðlega helmingur unglinga á Norðurlandi og Austurlandi og unglinga í
úthverfum Reykjavíkur, en í sollinum miðjum, í sjálfri Reykjavík vestan
Elliðaáa, töldu einungis um 1/3 unglinga að rétt væri að tala svona. Full-
orðnir um allt land voru nær einhuga í því að hafna þessum setningum.
Til viðbótar leiddi rannsóknin í ljós að börn foreldra með háskólapróf
voru líklegri til að hafna þessari málbreytingu – þótt munur á menntun
foreldra dygði ekki til að skýra sérstöðu Reykjavíkur vestan Elliðaáa.
Elsta dæmi greinarhöfunda um þessa setningargerð er frá Akranesi um
1968 en þar varð kona skelfingu lostin þegar hún heyrði dóttur sína
segja „það var gefið mér nammi“ – og fluttist skömmu síðar til Reykja-
víkur. Ekki er hægt að kenna enskunni um og sams konar breytingar
urðu í írsku og pólsku fyrir nokkur hundruð árum, sem sýnir að þetta
muni vera náttúruleg breyting sem getur átt sér stað í mannlegu máli.
Enginn skilji orð mín svo að í skrifum þessum sé boðuð sérstök frjáls-
lyndisstefna í málfarsefnum, að allt sé leyfilegt svo fremi sem einhverj-
um detti í hug að segja það og einhver annar sé tiltækur til að skilja
nokkurn veginn hvað við sé átt. Þvert á móti er hér boðað strangasta
aðhald í málfari með ofuráherslu á málvöndun og að menn velji orð af
kostgæfni til að nýta alla möguleika miðilsins – sem er tungumálið. Það
sem gæti ruglað lesendur í ríminu er að markalínan milli góðs máls og
vonds er ekki endilega dregin nákvæmlega á sama stað og tíðkast hefur.
En slík endurskoðunarstefna í málpólitíkinni dregur alls ekki úr mik-
ilvægi málvöndunar. Þvert á móti er henni ætlað að vekja athygli á því
að við höfum ef til vill verið að berjast á úreltum vígstöðvum, hamra á
atriðum sem skipta engu máli um gott mál og vont – og eru meira að
segja þegar verst lætur reist á hugmyndafræðilegum forsendum sem
þykja ótækar á vorum dögum. Það er því brýnt að halda pólitískri vöku
sinni í baráttunni fyrir betra máli þannig að umhugsun um gott mál og
vont sé jafnan ofarlega í huga allra málnotenda.
Dæmi um nýlegt orðalag er: „þetta var bara ekki að ganga …, hann er
ekki að standa sig …, hún er að vinna mjög gott starf …, fyrirtækið
hefur verið að leggja áherslu á góða þjónustu …“ í stað þess að hlutirnir
gangi ekki, menn standi sig ekki, vinni gott starf, leggi áherslu á góða