Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Blaðsíða 46
A n n a Þ o r b j ö r g I n g ó l f s d ó t t i r
46 TMM 2006 · 4
(Guðmund Thorsteinsson) sem kom fyrst út 1942 og telst til sígildra
íslenskra barnabóka. Litmyndirnar í Vísnabókinni eru því nokkurt
nýmæli í íslenskri barnabókaútgáfu og lýsa miklum metnaði. Mynd-
irnar, bæði teikningarnar og litmyndirnar, eru dregnar skýrum línum
og eru margar fjörlegar. Halldór Pétursson sýnir þarna strax í upphafi
ferils síns hve auðvelt hann á með að draga upp myndir af dýrum þó
hann ætti eftir að ná enn betri tökum á því síðar. Sterkir litirnir hafa
eflaust fangað athygli barnanna. Myndirnar í bókinni hafa þó ekki
aðeins gildi í sjálfu sér, því þær lyfta vísunum, gefa þeim nýja vídd og
gera þær eftirminnilegri. Er ekki að efa að Vísnabókin á vinsældir sínar
að miklu leyti þeim að þakka, svo samofnar sem þær eru ljóðunum.
Eflaust eiga allir unnendur Vísnabókarinnar sína uppáhaldsmynd í
bókinni. Flestir sem ég hef spurt nefna Grýlumyndina sem eftirminni-
legustu mynd bókarinnar, þó hún sé ekki endilega uppáhaldsmyndin,
enda er hún frægasta mynd sem nokkurn tíma hefur verið gerð af Grýlu.
Margir viðmælendur mínir5 hafa nefnt að þeir hafi verið hálf hræddir
við þessa mynd þegar þeir voru börn og sumir gjarnan flett yfir hana
þegar bókin var skoðuð. Í einstaka tilvikum hvarf þessi síða á dularfull-
an hátt úr bókinni! Það vekur athygli að Grýla er í þessari fyrstu útgáfu
bókarinnar á sauðskinnsskóm, en í þulunni sem fylgir myndinni segir:
„Grýla reið með garði/gekk með henni Varði/hófar voru á henni/…“
Athugul börn gerðu athugasemd við sauðskinnsskóna og í annarri
útgáfu bókarinnar voru komnir hófar á Grýlu. Þessi Grýlumynd Hall-
dórs Péturssonar ásamt Grýlukvæði Jóhannesar úr Kötlum í Jólin koma
(1932) hafa átt stærstan þátt í því að ryðja Grýlu braut inn í íslenskar
barnabækur og barnamenningu, þar sem hún hefur átt öruggt athvarf
til þessa dags (Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir 2004).
Viðtökur og endurútgáfur
Jakob Benediktsson skrifaði umsögn í Tímarit Máls og menningar
(1946) þegar bókin kom út og er ánægður með bókina og telur hana
líklega til mikilla vinsælda. Hann bendir réttilega á að margir kunni
sumar vísurnar á annan veg og sjálfsagt þyki hverjum sín útgáfa best.
Hann getur þess einnig að sumar vísurnar í Vísnabókinni séu birtar í
annarri gerð í bók Einars Ólafs Sveinssonar Fagrar heyrði ég raddirnar
og finnst breytingar í Vísnabókinni sjaldnast til bóta. En Einar Ólafur
sem einnig skrifaði um bókina í Skírni (1946) finnur ekki að þessu.
Hann er ánægður með bókina og efnisvalið og bendir á að það eigi að
gera íslensk börn að þátttakendum í menningararfi þjóðarinnar þegar í