Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Blaðsíða 126
B ó k m e n n t i r
126 TMM 2006 · 4
Meira meira! kliðar blóð okkar ævafornt. Murkum
líftóruna úr meðbræðrum af gáskafullri grimmd og
hárbeittu hugviti. Sjúkir vindar gnauða.
Grætur þú guð? (eða ertu bara?)
Skapandi verur eyjarskeggjar. Dagfarsprúðir á
tíðindalitlum tímum.
Gróðursetjum grátskóga á ökrum fallinna líkama.
Smíðum gervilimi og sjúkrahús.
(47)
Hið „fjarvíddarlausa nú“ sem einkenndi lærdómsbrölt barnsins á gólfinu er
hér víðs fjarri. Barnið „starfar án strits“ (bls. 40), það framkvæmir án þess að
hugsa eða greina tilgang eða markmið. Það bara lifir. Hinn fullorðni eyjar-
skeggi framkvæmir til að ná markmiði sínu í markmiðsmiðuðum heimi: „Allt
frekar en iðjuleysi.“ Og í endalausri leit að verkefni til að leysa býr hann til
sjúkar samfélagsreglur sem vilja murka og meiða, reifa fætur og skera kynfæri.
Það er hægt að lifa á annan og einfaldari hátt, allt eins og blómstrið eina:
III
Staðfastur er túnfífill á vori, haldinn undarlegri þrá.
Við vöxum upp í vissu. Mjúk og hrein úr eðjunni.
Þú reikar ekki um garðana í kvöldsvalanum guð.
Þín kristalsvitund flæðir. Kunn eða ókunn sjálfri sér.
Bergmálar í daufdumbum kletti, kvikri haföldu,
skjálfandi lífveru. Þína vegu þekkjum við ekki. Hvorki
þekkjum né getum gleymt.1
(46)
Halldóra fæst því við dýpstu og flóknustu spurningar sem hægt er að fást við,
eðli mannlegrar tilveru og spurninguna um tilvist Guðs, og ef hann er til, í
hvaða formi hann birtist. Hún fangar í orð, aftur og aftur í þessum hluta bók-
arinnar, eitthvað sem hægt væri að kalla sannleika um eðli vestrænna samfé-
laga og hvað það er sem drífur þau áfram. Í ofangreindum ljóðlínum kemur
fram, á sama tíma, mikil auðmýkt og sterkur lífstilgangur – ef Guð er til sem
alltumlykjandi kærleikur og tilvera í núinu getum við hvorki skilið hann, né
getum við gleymt honum, því sannleikurinn er okkur innbyggður og hefur
alltaf verið á sínum stað. Hið sífellda ið og glaumur heimsins viðtækja koma
hinsvegar í veg fyrir að við heyrum sannleikann. Hann er ofar öllum mann-
legum skilningi og djúpt innra með okkur á hverri stundu sem við lifum – í
núinu.
1 Leturbreyting mín.