Tímarit Máls og menningar - 01.05.2007, Blaðsíða 141
U m r æ ð u r
TMM 2007 · 2 141
ingu Aðalheiðar er sögð vera eftir Óttar G. Kristinsson, er eftir Óttar Martin
Norðfjörð, eins og stendur skýrum stöfum framan á bókinni, þó Gegnir virðist
skola nafninu til. En Aðalheiður hefur kannski ekki séð bókina, heldur látið sér
duga að slá henni upp? Og hefur því engu við orð Kristrúnar Heiðu að bæta,
ólesin í prófi.
Að loknu yfirliti yfir frumútgáfur ljóða telur Aðalheiður upp ljóðaþýðingar
á árinu, bæði útgefnar bækur og þau sem birtust í tímaritum. Þar lætur Aðal
heiður vera að nefna þýðingar þær sem birtust í bókinni Af ljóðum, en þar voru
prentaðar einar 24 þýðingar á ljóðum 12 erlendra skálda. Enn virðist Aðalheið
ur hafa mætt ólesin í prófið.
IV
Á einum stað gerir Aðalheiður nokkra hríð að mér fyrir að bölva orðinu „ung
skáld“ í grein í TMM. Þar segir Aðalheiður: „[Honum er] sérlega í nöp við orðið
„ungskáld“ og telur að það feli í sér lítilsvirðingu og að ungskáld séu ekki „fylli
lega með“, þau séu „hálfskáld“. Ég leyfi mér að efast um þetta enda hef ég alltaf
haft það á tilfinningunni að ljóðaunnendum þyki ungskáldin sérstaklega spenn
andi; það býr kraftur að baki orðinu ungskáld, og ekki má gleyma því að mörg
skáld eru aldrei neitt annað en ungskáld; þau vaxa svo frá ljóðinu þegar brauð
stritið hefst fyrir alvöru, húsnæðiskaup barnauppeldi, starfsframi og því um líkt.
[…] Verið getur að mörg ungskáld eigi eftir að ná listrænum þroska, einkum
hvað varðar framsetninguna, en það er ekki það sama og að vera hálfskáld.“
Þetta er gríðarlega áhugaverður kafli í ljósi þess að þó Aðalheiði sé ekki í nöp
við orðið „ungskáld“ virðist hún litla sem enga virðingu bera fyrir þessum
„sérstaklega spennandi“ skáldum sem bera heitið.
Eina skáldið undir þrítugu sem fjallað er um í grein Aðalheiðar, að undan
skilinni umfjöllun hennar um að því er virðist ólesnar bækur Nýhils, er Sölvi
Björn Sigurðsson, sem árið 2005 gaf út bókina Gleðileikurinn djöfullegi hjá
Máli og menningu. Segir hún að bók Sölva sé „vel skrifuð bók sem nær þó ekki
að göfga lífið á nokkurn hátt. Hún nær engan veginn að skerpa sýn mína á lífið
enda vantar hana tilfinningu og það er eins og höfundinn vanti – þrátt fyrir
frásagnargáfu – þörf fyrir að vilja gefa af sér“.
Lítilsvirðing Aðalheiðar gagnvart ungu kynslóðinni nær ekki bara til höf
undanna heldur atyrðir hún líka unga lesendur, sem hún gerir ráð fyrir að séu
„markhópur“ Sölva, af því bókin fjallar um „heim yngri kynslóðarinnar“.
(Vítisljóð Dantes, sem Gleðileikur Sölva er byggður á, er þá væntanlega bara
fyrir þá sem brenna í helvíti, akkúrat þá stundina). Segir hún að kannski hefði
betur farið á því að segja söguna í skáldsöguformi. Um ætlaðan markhóp Sölva
segir hún: „Kannski eru það bara fordómar en mig grunar að þennan markhóp
vanti ef til vill þá þolinmæði sem formið krefst af lesanda sínum.“
Þessi orð eru kannski sérstaklega áhugaverð í ljósi þess hvað Aðalheiður
hefur sjálf litla þolinmæði gagnvart skáldskap þeirra sem ekki hafa fengið
bókmenntaverðlaun og fálkaorður. Kynslóðabil! æpi ég og glenni upp augun
eins og ég sé að missa vitið.