Dagblaðið Vísir - DV - 07.04.2017, Síða 46

Dagblaðið Vísir - DV - 07.04.2017, Síða 46
Helgarblað 7.–10. apríl 201742 Fólk S tefán Pálsson sagnfræðingur hefur að undanförnu stað- ið fyrir nokkuð óvenjulegri keppni á Twitter-síðu sinni. Þar fer nú fram kosning um bestu Lukku-Láka bókina sem út hef- ur komið á íslensku. Framkvæmd keppninnar er með miklum atvinnu- mennskubrag, farið var af stað með 32 bækur í átta riðlum þar sem tvær bæk- ur fóru áfram úr hverjum riðli. Í sextán liða úrslitum mættu síðan bækurnar í efstu sætunum bókunum sem lentu í öðru sæti og dregið var milli sigurlið- anna í átta liða úrslitum. Keppninni lýkur nú um helgina og þá verður besta Lukku-Láka bókin krýnd. Alls komu 33 Lukku-Láka bækur út á Íslandi á árunum 1977 til 1983, gefn- ar út af Fjölva. Froskur útgáfa gaf síðan í fyrra út þá 34. í tilefni af 70 ára afmæli Lukku-Láka. Stefán tók tvær bækur út fyrir, annars vegar Á léttum fótum sem var safnrit með styttri sögum og hins vegar Allt um Lukku-Láka sem er einnig safnrit með sögulegu yfirliti. Foreldrunum þóttu teiknimynda- sögur ekki fínn pappír Stefán er þekktur teiknimyndasögu- áhugamaður en áhugi hans einskorð- ast nokkuð við þær teiknimyndasög- ur sem oft hafa verið, og voru, kallaðar skrípó og áttu sitt gullaldarskeið á átt- unda og níunda áratug síðustu aldar. Það eru bókaflokkar eins og Ævintýri Tinna, Svalur og Valur, Viggó viðutan, Ástríks-bækurnar og fjöldinn allur af öðrum bókaflokkum. Stefán segist eiga allar þær bækur sem hafa komið út á íslensku en megnið af þeim eignaðist hann ekki fyrr en á fullorðinsaldri. „Ég átti frekar lítið af þessu sjálfur sem strákur. Þetta var ekki vel séð af foreldrum mínum, það þótti ekki fínt að liggja í teiknimyndasögum. Þau höfðu lesið í Þjóðviljanum að það myndi allt saman gera börn ólæs og heimsk.“ Stefán fer ekki með fleipur þegar hann lýsir þessum skoðunum sem bornar voru á borð um teiknimynda- sögur á sínum tíma. Þannig má lesa í Þjóðviljanum í desember 1979 opnuumfjöllun um útgáfu Iðunn- ar á bókum um Strumpana, þar sem þær Guðríður Þórhallsdóttir og Jón- ína Friðfinnsdóttir halda á penna. Þær stöllu fara hreinlega hamförum í gagnrýni sinni á teiknimyndasögurn- ar sem sagðar eru „óhroði“, „lágkúru- legasta dæmi fjölþjóðaiðnaðarins sem enn hefur sést hér á landi“ og að hlægilegt sé að þær skuli vera gefnar út á ári barnsins. Setið um góð eintök Myndasögurnar sem Stefán eignaðist fékk hann því allar að gjöf frá velvilj- uðum ættingjum og segir að mögu- lega hafi það brotist fram þegar hann fór að sanka að sér bókunum þegar hann var orðinn fullorðinn og fór að ráða sínum málum sjálfur. Stefán sat þá um skrípóbækurnar hjá forn- bókasölum og ekki síst í Góða hirðin- um. „Ég byrjaði nú sem betur fer að sanka þessu að mér áður en stóra bylgjan kom. Þá fékk ég þetta bara á hundraðkall í Góða hirðinum. Núna þyrfti maður að búa í Góða hirðinum til að komast í eftirsóknarverðari titl- ana. Það er orðinn virkur markaður með myndasögur á netinu og menn hika ekki við að setja jafnvel 5.000 króna verðmiða á vel með farin ein- tök af eftirsóknarverðari sögum. Ég er því afar feginn að hafa nálega náð að klára íslenska myndasögusafnið áður en það hoppuðu svona margir á vagn- inn. Það skal hins vegar viðurkennt að þá fór þetta dálítið að færast út í að kaupa útlenskt hjá mér, bækur sem ekki komu út á íslensku á sínum tíma. Ég kaupi mikið af bókum á dönsku. Þessi bransi er svona eins og var með dvd-útgáfuna, það eru alltaf að koma nýjar og nýjar útgáfur með aukaefni, betri prentun, sögulegir yfirlitskafl- ar og myndir af öllum forsíðum og svona. Þessi markaðssetning höfðar til mín, ég er algjörlega í markhópn- um sem svona útgáfa beinist að. Það er verið að selja fólki nostalgíuna með þessu. Það eru engir krakkar að kaupa innbundnar bækur með þremur gömlum Lukku-Láka eða Svals og Vals sögum. Það er algjör- lega fyrir foreldrana.“ Á allt frá gullaldarárunum Stefán segist þó ekki vera svo for- fallinn að hann þurfi að eiga sömu sögurnar í mörgum eintökum. Þannig losaði hann sig á dögun- um við allar stöku Goðheima- bækurnar sínar eftir að hafa keypt þær í innbundnum stórbókum með aukaefni. „Ég sef alveg rólegur yfir því að eiga ekki allar útgáfurnar af Tinna á íslensku. Það eru hins vegar margir sem eru mjög nákvæmir á því að þeir þurfi að eiga bæði ’76 útgáfuna og ’85 útgáfuna svo dæmi séu tekin.“ Sem fyrr segir á Stefán allar þær teiknimyndasögur sem komu út á ís- lensku á gullaldarárum skrípósins. „Ég er hins vegar ekki búinn að eignast allt sem gefið hefur verið út af Lukku- Láka bókunum og ekki er komið út á íslensku. Þetta er það mikið og það er enn verið að gefa bækurnar út. Á gull- aldarárunum voru þetta þeir Morr- is að teikna og Goscinny að semja sögurnar. Það eru langsamlega bestu sögurnar, meðal annars vegna þess að þær eru svo fullar af raunverulegum sagnfræðilegum vísunum. Goscinny drakk í sig bandaríska sögu og það er verið að fjalla um alveg „obskjúr“ smáatriði, það er fullt af vísunum í raunveruleg skrýtin atriði í sögu Bandaríkjanna. Þegar Goscinny síð- an dó og Morris tók við að semja, sem og þeir sem hann fékk til þess fyrir sig, þá dapraðist þetta talsvert. Þá er bara verið að semja enn eina Daltón- bræðrasöguna sem er alltaf meira og minna sama sagan. Þeir sleppa úr fangelsi og Lukku-Láki snýr síðan á þá og stingur þeim inn, yfirleitt vegna þess að sá matgráðugi, Ibbi, kemur upp um þá. Þetta eru svona formúlu- bókmenntir.“ Hrifnari af Sval og Val Stefán er þekktur aðdáandi Svals og Vals og hélt meðal annars lengsta fyrirlestur sem sögur fara af hér á landi um þær teiknimyndasögur árið 2013, alls í þrettán og hálfa klukkustund án þess að taka sér nokkurt hlé. Stefán segir að fyrir utan þá Sval og Val, sem séu öruggir á toppnum, þá taki hann bæði Viggó viðutan og Ástrík fram yfir Lukku-Láka. „Mér þykir hins vegar vænt um Lukku-Láka, ég hef gaman af þessum sögum. Þær eru hins vegar ekki eins heillandi og hinar að því leytinu að það er svo lítil framþróun í þeim á meðan Svalur og Valur til að mynda breytast í tímans rás, tískan breytist og tæknin breytist og ýmis- legt slíkt. Sögusviðið í Lukku-Láka er alltaf hið sama og menn keppast við að teikna sögurnar alveg eins. Þær eru leiðigjarnari og maður sér ekki í þeim sömu þróunina. Það sem hins vegar hefur aðeins vakið áhuga minn á Lukku-Láka aftur er að þar eru menn aðeins að fikra sig í sömu átt og gert var með Sval og Val. Þar var búin til hliðarsería við hefðbundnu sögurnar þar sem ýmsir myndasögulistamenn hafa fengið að gera eina sögu um persónurnar í sínum teiknimynda- stíl, í hliðarveröld sem hefur ekki áhrif á stóra sagnabálkinn. Þær sögur geta verið blóðugri eða blautlegri og svo framvegis. Þetta eru menn farnir að gera með Lukku-Láka líka, það hafa komið út tvær bækur núna full- ar af póstmódernískum tilvísunum í sögurnar sem eru mjög skemmtilegar.“ Flippið liðið undir lok Það eru á bilinu 70 til 100 manns sem tekið hafa þátt í hverri atkvæða- greiðslu á Twitter-síðu Stefáns. Stefán segist ekki vita hvaða fólk það sé en reiknar með að það séu fyrst og fremst fylgjendur hans á síðunni. „Mig grun- ar að hluti þeirra sem kjósa geri það meðal annars út frá því hversu skemmtileg nöfnin á bókunum eru. Ég myndi segja að sérlega mikil vel- gengni bókarinnar Meðal róna og dóna í Arizona bendi til að mynda til þess. Það er mjög íslensk skrípó- þýðing, bókin heitir á frummálinu bara Arizona. Íslenskir þýðendur hik- uðu ekki við að bæta inn bröndurum og orðaleikjum frá eigin brjósti, þætti þeim ekki nóg fjör í textanum. Útgáfu- félögin sem eiga þessi verk tækju það ekki í mál, en í þá tíð var öllum sama um þessa smá Íslandsútgáfu. Í dag þarf hins vegar að samþykkja allar þýðingar í útlandinu og þar líða menn ekkert flipp. Arizona-sagan er ein af elstu bókunum og ekkert sér- staklega eftirminnileg eða djúp þannig að ég hef grun um að það veiti í það minnsta forskot í keppninni að hafa fyndinn titil,“ segir Stefán og bendir á að Rex og Pex í Mexíkó gæti fallið í þann flokk einnig. „Svo eru aðrir sem eru heit- ari í þessu, sumir eiga sér mjög eindregnar uppáhaldsbækur. Ég raunar hef þá kenningu að það skipti líka máli hvenær fólk eignaðist bækurnar. Fyrsta Lukku-Láka bókin sem ég eignaðist er líka sú fyrsta sem kom út á íslensku, Kalli keisari. Hún er svona engin þungavigtarbók en þetta drakk ég þannig í mig að ég kunni söguna spjaldanna á milli. Eflaust spilar þetta því inn í þegar harðir aðdáendur greiða atkvæði og að fólk hvetji aðra til að greiða sínum uppáhaldssögum atkvæði. Við, þjóðin sem vakti heilu næturnar til að svindla á netinu til að kjósa Magna okkar Ásgeirsson, við hljótum nú að geta sprengt internetið í einni Lukku-Láka kosningu.“ Kosningu í keppni Stefáns lýkur nú um helgina, að öllu óbreyttu. Kalli keisari féll úr leik strax og segir Stefán að því hafi fylgt pínulítið svekkelsi. „Maður verður samt að vera óvil- hallur dómari. Ég fæ ekki einu sinni að kjósa sjálfur, Twitter býður ekki upp á það þegar maður stofnar sjálf- ur könnun sem þessa.“ Taka má þátt í kosningunni á Twitter-síðu Stefáns, undir notendanafninu Stebbip. n Kosið um bestu Lukku-Láka bókina n Heitir aðdáendur greiða atkvæði n Skrípó átti að gera börn „ólæs og heimsk“ Freyr Rögnvaldsson freyr@dv.is „Ég fæ ekki einu sinni að kjósa sjálfur Uppáhaldið úr leik Uppáhaldsbók Stefáns Pálssonar í Lukku-Láka bókaflokknum komst ekki áfram í atkvæðagreiðslunni sem hann stendur nú fyrir á Twitter um bestu Lukku- Láka bókina. Mynd SigtRyggUR ARi Skaparar Lukku-Láka Belginn Morris og Frakkinn Goscinny eiga heiðurinn af miklum vinsældum Lukku-Láka. Morris skapaði persónuna árið 1946 en Goscinny gædda hana lífi með sögum sínum frá 1955 og þar til hann féll frá árið 1977. Útgáfa á ný Froskur útgáfa gaf út 34. Lukku-Láka bókina á íslensku á síðasta ári, í tilefni af 70 afmæli söguhetjunnar. Þá voru 33 ár liðin frá því að gefin hafði verið út Lukku-Láka bók á íslensku síðast. Skjótari en skugginn Lukku-Láki er, eins og sjá má, skjótari en skugginn að skjóta.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.