Dagblaðið Vísir - DV - 28.04.2017, Blaðsíða 18
18 Helgarblað 28. apríl 2017fréttir - erlent
Losnar ekki úr fangelsi fyrr
en hann segir hvar gullið er
n Tommy Thompson fann gullfarm árið 1988 n Fjárfestar telja sig svikna n Lagði á æsilegan flótta
E
itt sinn var Tommy G.
Thompson einn dáðasti fjár-
sjóðsleitarmaður Bandaríkj-
anna. Tommy þessi komst
í heimsfréttirnar árið 1988
þegar hann fann skipsflak S.S.
Central America á botni Atlantshafs-
ins, ekki ýkja langt undan ströndum
Suður-Karólínu. Skipið fórst í fellibyl
dag einn árið 1857 en um borð voru
425 manns og fleiri tonn af gulli.
Nú, tæpum 30 árum síðar, er
Tommy í tómu klandri enda hefur
hann verið á bak við lás og slá í 500
daga. Ástæðan er sú að hann neitar
að segja frá því hvað varð um hluta
gullsins sem hann hirti úr skips-
flakinu.
Sakaður um svik
Á föstudag í síðustu viku féll úr-
skurður fyrir dómstólum í Ohio
á þann veg að Tommy yrði áfram
í fangelsi þar til upplýsingar um
gullið kæmu fram í dagsljósið. Um
er að ræða 500 gullpeninga sem
metnir eru á fjórar milljónir Banda-
ríkjadala, rúmar 430 milljónir króna
á núverandi gengi.
Eins og gefur að skilja þurfti
Tommy á dyggri aðstoð fjölmargra
að halda þegar hann fann skipið og
gullið á hafsbotni á sínum tíma. Fjár-
festar sem komu að verkefninu – og
starfslið Tommys – sakaði hann um
svik þar sem þeir fengu enga hlut-
deild í því gulli sem fannst og raunar
lítið sem ekkert borgað fyrir vinnuna
sem þeir inntu af hendi.
Ógnarstórar gullstangir
Allt hófst þetta árið 1983 þegar
Tommy, sem er verkfræðingur frá
Ohio, setti saman leitarlið til að finna
skipsflakið. Margir höfðu reynt að
finna skipið en ekki haft erindi sem
erfiði. Á þessum tíma var Tommy rétt
rúmlega þrítugur og hafði hann sam-
band við fjölmarga fjárfesta, eða alls
um 160 talsins, sem lýstu yfir áhuga
á verkefninu. Hann lofaði þeim sem
komu að verkefninu ríkri ávöxtun
ef leitin myndi bera árangur. Það
var svo fimm árum síðar, þann 11.
september 1988, að Tommy tilkynnti
að leitarhópur hans, Columbus-
America Discovery Group, hefði
fundið skipsflakið. Hann smíðaði lít-
inn kafbát, sem hann kallaði Nemo,
en með honum tókst honum að finna
nákvæma staðsetningu á skipinu.
Meðal þess sem leitar hópurinn dró
upp af hafsbotni var skipsklukkan og
gullstangir sem sagðar voru allt að
fimmtán sinnum stærri en þær sem
áður höfðu fundist.
Ævintýralegur flótti
Eftir fundinn liðu dagar, vikur og
ár en aldrei fengu fjárfestar borgað
fyrir verkefnið. Enn þann dag í
dag er á huldu hversu miklu gulli
Tommy og leitarlið hans náðu úr
flakinu, en því hefur þó verið haldið
fram að Tommy hafi persónulega
þénað 52 milljónir Bandaríkjadala
á því að selja gullstangir og gullpen-
inga sem grunur leikur á að hann
hafi náð úr skipinu.
Í mörg ár hafa meðlimir
Columbus- America Discovery
Group, alls níu talsins, staðið í
málaferlum og stappi þar sem
þeir segja að Tommy skuldi þeim
tvær milljónir dala. Svo fór að árið
2012 var gefin út handtökuskipun
á hendur Tommy vegna meintra
svika. Þegar þarna var komið sögu
hafði Tommy raunar ekki sést opin-
berlega í mörg ár og enginn virtist
vita hvar hann var niðurkominn.
Það var svo árið 2015 að bandarísk
löggæsluyfirvöld höfðu loks hendur
í hári Tommys eftir æsilegan flótta
hans. Hann hafði ferðast vítt og breitt
um Bandaríkin þar sem hann dvaldi í
lúxushúsum, hótelum og gistiheimil-
um undir fölsku nafni. Lengi vel hélt
hann til í glæsihýsi í Flórída en þegar
laganna verðir komu þangað mætti
þeim tóm glæsihöllin. Tommy var
á bak og burt en hafði skilið eftir sig
fjölda farsíma. Þá fundust umbúðir
utan af peningabúntum með áletr-
uninni 10 þúsund dalir og leiðarvís-
ir um hvernig ætti að hverfa af yfir-
borði jarðar, ef svo má segja. Yfirskrift
leiðarvísisins var: How to be Invisi-
ble, eða Hvernig á að vera ósýnilegur.
Ber við minnisleysi
Í kjölfar handtökunnar kom upp í
ljós að Tommy hafði haldið eftir 500
gullpeningum sem hann kom fyrir
í fjárvörslu í Belís í Mið-Ameríku.
Gullpeningarnir, sem metnir voru
á rúmar 400 milljónir króna, áttu
að vera arfur fyrir börn hans. Eftir
handtökuna sagðist Tommy ætla að
skila umræddum gullpeningum og
upplýsa hvar þeir væru niðurkomnir.
En eitthvað varð til þess að Tommy
hætti við.
Í umfjöllun Washington Post fyrir
skemmstu sagði verjandi hans, Avonte
Campinha-Bacote, að ástæða þess að
Tommy hefði ekki enn sagt hvar gullið
væri niðurkomið, væri sú að hann
væri búinn að gleyma því. Dómari mat
það svo að Tommy væri að gera sér
upp minnisleysi og af þeirri ástæðu
yrði hann í fangelsi þar til eitthvað nýtt
kæmi fram. Dómari lagði einnig dag-
sektir á Tommy sem nema þúsund
Bandaríkjadölum, rúmum hundrað
þúsund krónum, dag hvern. n
Einar Þór Sigurðsson
einar@dv.is
Gullgrafari Tommy G. Thompson verður
að líkindum bak við lás og slá þar til hann
segir hvar gullpeningarnir eru.
Ungur og efnilegur Tommy setti saman leitarhóp og fékk fjölmarga fjárfesta til að taka þátt í verkefninu.