Morgunblaðið - 31.05.2017, Side 64
64
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 31. MAÍ 2017
FERÐALÖG
„Sólvangur Icelandic Horse Center
býður fyrstu ferðamennina velkomna
í byrjun júlímánaðar, en þá opnum
við hesthúsið okkar fyrir gestum,
Hestakaffihúsið og Litlu hestabúðina
og tökum í gagnið notaleg ný gisti-
hús,“ segir Sigríður Pjetursdóttir,
hestakona og frumkvöðull. Hún hefur
ásamt foreldrum sínum, Elsu
Magnúsdóttur og Pjetri N. Pjet-
urssyni, og eiginmanni, Grétari L.
Matthíassyni, rekið hestabúgarðinn
Sólvang í nágrenni við Eyrarbakka
frá árinu 2001, þar sem höfuðáhersla
hefur verið lögð á hrossarækt. Fjöl-
skyldan sá ný tækifæri í hestatengdri
ferðaþjónustu og hefur síðustu miss-
eri unnið hörðum höndum að upp-
byggingu Sólvangur Icelandic Horse
Center, með það að leiðarljósi að
„færa fólk nær íslenska hestinum og
bjóða upp á einstaka upplifun á sönn-
um íslenskum hestabúgarði,“ eins og
Sigríður kemst að orði.
„Gestir geta dvalið með okkur á
Sólvangi í lengri eða skemmri tíma,
heimsótt hesthúsið og fræðst um ís-
lenska hestinn, farið í reiðtúra og not-
ið umhverfisins. Hér fer fram reið-
kennsla allan ársins hring fyrir knapa
á öllum stigum og mögulegt er að
upplifa og sjá hvernig unnið er með
íslenska hestinn í upprunalandi hans.
Á Hestakaffihúsinu er boðið upp á
ljúffengar veitingar, heimalagað
bakkelsi og heilsusamlegan mat úr
hráefni úr nærumhverfi, og í Litlu
hestabúðinni er mikið úrval fallegrar
gjafavöru og minjagripa sem skír-
skota til hestsins á einn eða annan
hátt.“
Brennandi áhugi
Sigríður bendir á að íslenski
hesturinn gegni æ mikilvægara hlut-
verki í ferðaþjónustu, en samhliða
vexti í heildarfjölda ferðamanna á Ís-
landi hafi eftirspurn eftir hesta-
tengdri afþreyingu aukist verulega á
síðustu árum. Flestir ferðamenn njóti
á einn eða annan hátt samvista við ís-
lenska hestinn og margir komi gagn-
gert til Íslands í því skyni. „Algeng-
ast er að ferðamenn fari á bak hjá
hestaleigum, taki þátt í skipulögðum
hestaferðum, sæki hestasýningar eða
keppni. Ljóst er að mikil eftirspurn
er eftir annars konar hestatengdri
ferðaþjónustu sem byggir á meiri
fræðslu og nýrri upplifun, og við vild-
um mæta þeirri þörf. Okkur fannst
vanta spennandi áfangastað þar sem
fólk gæti stoppað stutt, eða gist og
dvalið lengur, og kynnst vel hestalíf-
inu á Íslandi,“ segir hún.
„Á starfsferli mínum hérlendis og á
ferðum mínum erlendis við kennslu
og dómgæslu hef ég kynnst ótal-
mörgum sem eiga íslenska hesta.
Einkennandi fyrir eigendur íslenskra
hesta á erlendri grundu er mikil að-
dáun á Íslandi og löngun til að fræð-
ast um land og þjóð. Margir vilja læra
íslensku, borða íslenskan mat, skyr
og lambakjöt, og íslenskt sælgæti,
súkkulaði og lakkrís. Þetta fólk vill
ferðast til Íslands, upplifa náttúruna
og menninguna sem hesturinn þess
er sprottinn úr.“
Sigríður bætir við að Sólvangur
Icelandic Horse Center sé kjörinn
áfangastaður fyrir þennan sístækk-
andi hóp unnenda íslenska hestsins
erlendis. „Enn fremur viljum við
höfða til íslenskra fjölskyldna og líka
þeirra fjölmörgu erlendu ferðamanna
sem sækja í afþreyingu eða annað
sem tengist dvöl á sveitabæjum.
Þessir ferðalangar kjósa friðsælt
sveitaumhverfi, dvöl í nálægð við
náttúruna og dýrin og við erum ekki í
nokkrum vafa um að íslenskur hesta-
búgarður hittir beint í mark.“
Svartar strendur
Aðspurð segir Sigríður hugmyndina
að bjóða upp á einstaklingsmiðaða
reiðkennslu og fræðsluheimsóknir og
einnig geti gestir tekið þátt í daglegu
amstri á búgarðinum.
„Í styttri heimsóknum gætu hópar
til dæmis fengið leiðsögn um hest-
húsið. Leik-, grunn- og framhalds-
skólar yrðu einnig velkomnir. Jafn-
framt bjóðum við upp á sérsniðin
hestatengd frí þar sem mögulegt er að
blanda saman reiðkennslu, reiðtúrum
og annarri afþreyingu, svo sem skoð-
unarferðum um Suðurland, veiði í Ölf-
usá, fuglaskoðun og fleiru.
Í nágrenninu eru frábærar útreið-
arleiðir og einstök náttúra, þar ber
helst að nefna svörtu strendurnar og
Friðland í Flóa. Reiðtúrarnir eru þó
aðeins fyrir þá sem hafa kunnáttu í
reiðmennsku eða hafa náð færni í
hestaíþróttinni eftir reiðkennslu á Sól-
vangi.“
Hestakaffihúsið og Litla hestabúð-
in eru í anddyri hesthússins á Sól-
vangi og þar geta gestir virt fyrir sér
dýrin á meðan þeir gæða sér á léttum
veitingum. „Mikil vinna liggur að baki
hönnun rýmisins, en innréttingar eru
sérhannaðar og skírskota með ýms-
um hætti til íslenska hestsins,“ út-
skýrir Sigríður. „Á Hestakaffihúsinu
geta ferðamenn tyllt sér niður og
fylgst með hrossunum í gegnum
glugga; horft inn í hesthús þar sem
hestar eru í hvíld, inn í reiðskemm-
una þar sem kennsla fer fram og loks
út í stórt reiðgerði þar sem alltaf er
mikið líf og fjör. Á efri hæð eru síðan
stórar svalir með frábæru útsýni yfir
suðurströndina og Eyrarbakka og
þar er ekki amalegt að vera þegar
norðurljósin láta sjá sig.
Í Litlu hestabúðinni leggjum við
áherslu á gott úrval af hestaminja-
gripum og gjafavöru sem tengist
hestum á einn eða annan hátt. Vör-
urnar verða að stærstum hluta list-
munir þar sem íslenski hesturinn er í
forgrunni, bæði eftir íslenska lista-
menn og erlenda, en til er ótrúlegt úr-
val af slíku handverki víðs vegar um
heiminn. Litla hestabúðin skapar frá-
bæran vettvang fyrir þessa aðila til að
koma vörum sínum á framfæri, en
auk minjagripaverslunarinnar ætlum
við að byggja upp öfluga og skemmti-
lega vefverslun.“
beggo@mbl.is
www.icelandichorsecenter.is
Á býlinu Sólvangur Ice-
landic Horse Center
skammt frá Eyrarbakka
geta ferðamenn dvalið í
lengri eða skemmri tíma og
kynnst lífinu á íslenskum
hestabúgarði. Boðið er upp
á fræðslu, hestaferðir og
reiðkennslu og í hesthúsinu,
sem er opið gestum, er
bæði veitingasala og minja-
gripaverslun.
Snyrting Hestar á vaski og vegg.
Upplifunin Sigríður Pjetursdóttir, hestakona og frumkvöðull: Hugmyndin er að bjóða upp á einstaklingsmiðaða reiðkennslu og fræðsluheimsóknir.
Hestakaffihúsið Forvitinn klár gægist inn um gluggann.
Heillandi hestalíf