Morgunblaðið - 31.05.2017, Side 12
12 DAGLEGT LÍF
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 31. MAÍ 2017
Ungviði Lúlli unir sér best með systrunum Heklu og Sölku, barnabörnum Guðrúnar. Hann leggur sig oft hjá Heklu.
Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
Hann hét nú fyrst Krílikrútt, af því að hann varagnarsmár, en þegarhann fékk skitu þá köll-
uðum við hann Lúlla lambaskitu.
Núna heitir hann bara Lúlli,“ segir
Guðrún Hálfdánardóttir, bóndi á
Söndum í Miðfirði, en á heimili
hennar er nokkuð óvenjulegt gælu-
dýr, fyrrnefndur Lúlli sem er lamb.
„Lúlli er fyrirburi sem kom í
heiminn afar veikburða og honum
var vart hugað líf, en ég reyni alltaf
að koma lasburða lömbum á legg ef
ég mögulega get, svo
ég tók hann inn í bæ
og hlýjaði honum með
því að leggja hann á
bringuna. Sagði þá í
gamni að ég hefði haft
hann á brjósti,“ segir
Guðrún og hlær og
bætir við að Lúlli sé
mikill gleðigjafi og einstaklega þæg-
ur og meðfærilegur.
„Nema reyndar þegar hann er
að grenja á nóttunni, það er ekki vin-
sælt. En núorðið hef ég hann frammi
yfir nóttina til að koma í veg fyrir að
hann veki litlu barnabörnin okkar
sem eru hjá okkur núna tímabundið
ásamt Silju móður sinni sem er í
fæðingarorlofi. Lúlli má samt eiga
það að hann jarmar ekki nema þegar
hann vill fá mjólkursopann sinn, úr
pelanum. Reyndar grætur hann
ógurlega ef ég set hann út, hann vill
bara vera inni í húsi með okkur
mannfólkinu. Allra best finnst hon-
um að liggja á teppinu hjá Heklu
litlu barnabarni mínu sem er fjög-
urra mánaða, hann vill kúra þar og
sofa. Hann sefur enn mjög mikið,
rétt eins og lítið barn. Hann er ævin-
lega tekinn upp og fær að kúra hjá
öllu heimilisfólkinu, enda er hann
mikið kúrudýr.“
Guðrún segir að lítið líf hafi ver-
ið í Lúlla þegar hann leit fyrst
heimsins ljós.
„Hann er fæddur tvílembingur
en hitt lambið var löngu dautt inni í
móðurinni. Hann var brothættur og
óskaplega smár og er enn mjög lítill.
Hann var lítilfjörlegur og þegar
hann var tveggja vikna varð hann
máttlaus og slappur í fótunum, þá
fór ég með hann til dýralæknis sem
gaf honum væna vítamínsprautu. Þá
hresstist hann við, hann vantaði
púst, en þó hafði ég passað að gefa
honum kraftmikinn brodd og hvað-
eina.“
Lúlli fékk að prófa snuð
Lúlli er orðinn mánaðargamall
og hefur fengið að prófa ýmsa hluti á
stuttri ævi sem önnur lömb sem
ganga undir kindum fá ekki að
reyna. Hann er til dæmis alltaf með
bleyju því ekki gengur að hann pissi
og kúki út um allt hús, en hann losn-
ar við bleyjuna þegar hann er settur
út í garð til að viðra sig. Hann klæð-
ist samfellu, fyrst og fremst til að
bleyjan haldist á sínum stað. Hann
hefur fengið að prófa snuð frá
yngsta fjölskyldumeðlimnum og
kunni því vel, og hann er sérlega
spenntur fyrir pappír og hefur gert
þó nokkuð af því að narta í síma-
skrána. Hann hefur líka gert þó
nokkuð af því að tína saman blöð.
„Lúlli kynntist lambavinkonu
sem varð móðurlaus, henni Móu, en
honum var ekkert um hana gefið,
hún var miklu stærri en hann og
nokkuð aðgangshörð, vildi sjúga á
honum eyrun, sem honum var ekki
að skapi. Hann vill ekki sjá önnur
lömb og hann var ósköp feginn þeg-
ar Móa eignaðist nýja mömmu og
flutti aftur út af heimilinu. En hann
er ágætur vinur hundanna þriggja
hér á bænum þó þeir skipti sér lítið
af honum, þeir snuddast aðeins í
honum. Ég kynnti Lúlla fyrir tveim-
ur hænuungum, en þeir voru greini-
lega hálfbjánalegir að hans mati.“
Guðrún segist vera alvön að
koma lífi í lömb sem eru léleg við
burð, stundum takist það, stundum
ekki, en hún reyni alltaf.
„Ég man sérstaklega eftir
henni Seiglu sem ég kom á legg, það
var lamb sem lenti í því að ofan í það
fór mikið legvatn við burð. Það var
mikil hrygla í Seiglu og ég tók hana
inn í hús í gjörgæslu og gaf henni
sykurvatn. Ég sat með hana á kvöld-
in og lét hana liggja með hausinn
niður og bankaði soldið í hana og
þannig náði ég að losa slímið upp úr
henni, smátt og smátt. Þetta tók
heila viku en hafðist,“ segir Guðrún
og bætir við að hún baði líflítil lömb
upp úr volgu vatni, þurrki þau og
noti jafnvel hárblásara, og þegar þau
fara sjálf að skjálfa þá sé þeim oftast
borgið.
„Mig langaði líka til að halda lífi
í Lúlla fyrir litlu börnin sem eru hér
hjá okkur núna, þau hafa svo gaman
af þessu. En ekki síður fullorðna
fólkið, Gunnlaugur maðurinn minn
komst að því að Lúlli hefur gaman af
því að horfa á sjónvarpið þegar hann
tók hann upp í stól til sín þar sem
hann horfði á Útsvarið. Hingað
komu gestir, litlir krakkar sem voru
að keyra hann í kerru og þar svaf
hann eins og ungbarn. En ég passa
rosalega vel upp á hann, ég skamma
krakkana hiklaust ef þau hnoðast of
harkalega með hann. Hann er ekki
leikfang, hann er lifandi skepna og
enn viðkvæmur, þau þurfa að læra
það.“ Guðrún segir að Lúlli verði
heima við bæ í sumar og muni fá pel-
ann sinn áfram, en hann fer líka út
til að kroppa gras þegar hann
stækkar. Á bænum eru um fjögur
hundruð fjár en Lúlli er eini heim-
alningurinn hjá þeim þetta árið, svo
hann mun fá alla athyglina.
Um tíma hét hann Lúlli lambaskita
Þrátt fyrir smæð sína, eða kannski einmitt vegna
hennar, hefur Lúlli lamb öðlast þó nokkra frægð og á
sína eigin Facebook-síðu. Lúlli býr inni á heimili fjöl-
skyldunnar á Söndum í Miðfirði og vill ekkert með
aðrar kindur hafa. Hann er með bleyju og klæðist
samfellu, sefur mikið eins og fyrirbura er háttur og er
ævinlega tekinn upp og leyft að kúra í hálsakoti heim-
ilisfólksins. Hann hefur eignast vinkonu í Þistilfirði,
Ukulele lambastelpu, sem sendi honum mynd af sér.
Kríli Hér má sjá hversu agnarsmár Lúlli var. Kósí Lúlli horfir á Útsvar með Gulla pabba.
„Hún er undan gemlingi og fæddist
afskaplega lítil og við áttum ekki
von á að hún myndi lifa. En við tók-
um hana heim til að hlúa að henni
og hún varð eldspræk tiltölulega
fljótt. Við höfum mjólkað kindur til
að gefa henni að drekka úr pela,“
segir Karen Rut Konráðsdóttir,
bóndi á Syðra-Álandi í Þistilfirði, en
hún er með á heimili sínu bleyju-
lamb rétt eins og Lúlli er, en litla
gimbrin hennar hefur fengið nafnið
Ukulele lambastelpa. Húsbóndinn á
heimilinu, Ólafur Birgir, gaf henni
nafnið og tengist það ekki á nokk-
urn hátt hljóðfærinu.
„Ukulele lambastelpa er for-
dekruð rétt eins og Lúlli, við sofum
til skiptis með hana á bringunni,
henni líður best ef einhver nennir
að halda á henni, þá þegir hún,“
segir Karen og bætir við að dætur
hennar þrjár séu farnar að dúlla
með lambastelpuna, klæða hana í föt og setja á hana höfuðskart.
„Dóttir mín sem er fimm ára hefur mjög gaman af henni, hún rogast
með hana allan daginn.“
Þegar Karen er spurð að því hvort þau ætli að reyna að koma Ukulele
lambastelpu undir kind eða hafa hana sem heimalning, segir hún framtíð
hennar ekki hafa verið rædda ennþá, enda sé hún aðeins nokkurra daga
gömul.
„Vinkona mín sem þekkir til á heimili Lúlla sagði okkur frá honum og
við fórum að skoða hann á Facebook og skelltum inn mynd af lamba-
stelpunni, til að kynna þau tvö, Lúlla lamb og Ukulele lambastelpu.“
Á Syðra-Álandi eru 500 kindur og aðeins 50 óbornar, og fólk er ánægt
með tíðarfarið. „Ég man ekki eftir að tún hafi verið orðin svo græn sem
raun ber vitni á þessum árstíma, og því getum við sleppt fénu fyrr út.“
Lítil gimbur í Þistilfirði hefur verið kynnt fyrir Lúlla
Fín Ukulele lambastelpa var dubbuð
upp fyrir myndatöku fyrir Lúlla.
Sofa til skiptis með Ukulele
lambastelpu á bringunni
Hjá dýralækni Lúlli lasni var hlustaður.Alveg nýr Lúlli hjá Guðrúnu mömmu sinni.
Ég passa rosalega vel upp á
hann, ég skamma krakkana hik-
laust ef þau hnoðast of harkalega
með hann. Hann er ekki leikfang,
hann er lifandi skepna.