Morgunblaðið - 23.03.2018, Síða 4

Morgunblaðið - 23.03.2018, Síða 4
4 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 23. MARS 2018 P áskahátíðin er að flestu leyti hefð- bundin frá ári til árs en sitthvað hefur þó breyst hjá Erlu síðan hún tók víglsu sem prestur, þó ekki endilega páskarnir sjálfir, eins og hún segir frá þegar við tökum tal saman. „Það er frekar aðdragandi páskahátíð- arinnar sem ég horfi til og nýti með öðrum hætti en áður en ég fór að þjóna,“ segir hún. „Föstutíminn, dagarnir 40 fyrir páska, sem kalla á innri íhugun, lestur og hlustun, fær mig til að spyrja hvernig ég ætli að verja þessum tíma mér til uppbyggingar. Sem dæmi hlusta ég alltaf á lestur passíusálmanna eftir kvöldfréttir á Rás 1. Og annað hefur breyst eftir að ég fékk vígslu. Ég fer varla í páskafrí!“ bætir hún við kímin. Páskahefðirnar fyrr og nú Aðspurð segist Erla eiga sér ljóslifandi páska- minningar úr æsku, og þær geymir hún vel með sjálfri sér. „Þessir dagar frá bernskuárum eru í mínu minni sem ein stór samvera heimafyrir því fjölskyldan fór varla lengra en í næstu götu til ömmu og afa. Páskalambið þiðnaði í þögninni fyrir hátíðardaginn og fastur punktur föstu- dagsins langa var áhorf á píslarsöguna er sýnd var í sjónvarpinu. Þessi magnaða átaka- saga sem rúmar allar tilfinningar mannlífs og mennsku. Saga lyga, svika og dauða en ekki síður saga kærleika, ástar og vonar. Ég man að ég horfði heilluð en hrædd og hvorki spurði né kallaði eftir útskýringum foreldra minna.“ Erla hugsar sig um stutta stund og heldur svo áfram: „Mamma snerti ekki prjónana þennan dag og pabbi hleypti hrossunum út og gaf þeim en fór aldrei á bak. Á 3ja degi var páskalambið lagt á borð og annar blær færð- ist yfir fjölskyldulífið. Ég minnist einnig að páskaeggið dugði frameftir viku en kláraðist ekki á einu augabragði eins og mínu heimili í dag.“ Blaðamaður brosir út í annað og tengir ljós- lega við þetta sjálfur. Talið berst í framhaldinu að páskasiðum á heimili þeirra hjóna í dag, og hvort einhverjir eru. „Hver dagur á sinn sjarma í helgihaldi í dymbilviku og á páskadegi. Ýmist þjóna ég við messur eða sæki þær í öðrum kirkjum með karlinum mínum. Þá eigum við hjónin alltaf göngutúr í þögn á föstudaginn langa. Það er svo magnað að geta dvalið saman í þögninni. Við gengum í hjónaband fyrir 15 ár- um á laugardegi fyrir páska og gerum þeim degi alltaf góð skil en þessi laugardagur er sterkari hjá okkur en raunverulega brúð- kaupsdagsetningin. Laugardagurinn er líka mikilvægur í samhengi þessara daga, hugleiða að Jesús dvaldi í dauðaríkinu uns hann reis upp með morgunsól. Síðan elsta dóttir okkar fór að hafa vit á páskaeggjaleit hef ég gert Biblíuratleik sem leiðir til fundar súkku- laðieggja. Nú eru börnin þrjú og erfiðleikastig spurninga fer eftir aldri þeirra,“ útskýrir Erla. „Leitin hefst síðar en hjá öðrum börnum því mamma þarf að klára vinnudaginn. Hent- ugt að páskadagsguðsþjónustan er kl. 9 og því hægt að hefja keppni fyrir hádegi. Það verður nú að segjast að ég er spenntust fyrir rat- leiknum og hvort fjölskyldumeðlimir svara spurningum eftir minni eftirvæntingu og kröf- um.“ Erla brosir við tilhusunina. „Þau litlu eru kappsöm, unglingurinn gefur þessu þol- inmæði og þátttaka eiginmannsins er af ein- skærri ást til konu sinnar. Þá hef ég haldið í þá hefð frá mínu æskuheimili að málshætt- irnir fá rými í lestri og vangaveltum yfir merkingu. Páskalambið tilheyrir borð- samfélagi fjölskyldunnar sem og páskaskreyt- ingar sem fá að prýða heimilið viku frá páska- degi sem er hin eiginlega páskavika þó Íslandingar hafa fært orðið yfir á dymbilvik- una.“ Boðskapur páskanna um lotningu fyrir lífinu Erla er fljót til svars þegar ég spyr hana um hvað það sé sem ljái páskunum sína sérstöðu sem hátíð. „Lífið ljær hátíðinni sérstöðu,“ segir hún. „Páskaeggið er eitt elsta tákn páskanna og ber mikilvægan boðskap sem vert er að gefa gaum. Eggið hefur í þúsundir ára verið tákn um líf því það geymir framtíð. Það er brot- hætt og viðkvæmt, rétt eins og mannslífið. Eggið brestur og brotnar og þannig kemur hið nýja fram sem dylst undir harðri skurn- inni. Því færa páskarnir boðskap um lotningu fyrir lífinu og minna okkur á að við sköpum ekki líf. Við tölum nú stundum þannig, að við erum máttug og æðri, þó við getum ekki skap- að eitt einasta fuglsegg. Við eigum hins vegar auðvelt með að brjóta það. Heilinn og rök- hugsunin ræður ekki við að eitthvað er stærra og meira en manneskjan, eitthvað sem skapar og gefur líf. En hjartað, brjóstvitið, skynjar það. Páskaeggið minnir okkur á að umgang- ast lífið af varfærni og virðingu. Einmitt eggið fær okkur til að staldra við og hugleiða að í gegnum rauf brýst lífið úr viðjum heljar og allt verður nýtt, ekkert eins og áður, alveg eins og Jesús.“ Gefum, deilum og þjónum Fyrir ekki svo mörgum árum stöldruðum við Íslendingar gjarnan við á trúartengdum tylli- dögum og hugsuðum til þeirra sem minna máttu sín vegna vegna kreppunnar í kjölfar hrunsins, og rifjuðum upp um leið hvað það er sem raunverulega skiptir máli í lífinu. Nú þegar flestallir hafa það heldur skár og betur árar almennt, hvað finnst prestinum að við ættum að hugleiða þegar við setjumst niður um páskana? „Sonur minn 7 ára sagði á dögunum eftir umræðu í skólanum um páskana: „Mamma, ef allir myndu trúa þér, þá myndu allir trúa á Jesú.“ Svo einfalt í hans huga og hversu mátt- ug væri þá mamma hans. En hvort sem fólk trúir á Jes- úm sem Krist eða þekkir orð og verk meistarans frá Nasaret þá hefur hann við okkur að segja að lífið er gjöf og okkur ber að þiggja gjafir gleði og lífsgæða. Og með fordæmi sínu er hann okkur hvatning að gefa, deila með okkur og þjóna náunganum í kærleika. Manneskjan á að nýta afl og auð, gáfur og gæsku til góðs í þessu lífi. Þá vissulega gefa kristilegar trúarhátíðir okkur tilefni til að staldra við og beina sjónum að minnsta bróður. Margprófuð lífsviska kynslóðanna er að þeim líður betur sem gefa. Sjálfur Jesús sagði: „Sælla er að gefa en þiggja.“ Náunganum getum við gefið margt, s.s. tíma, þolinmæði, nærveru, aura, bros eða einfaldlega gefið honum gaum. Kirkjan og Hjálparstarf kirkjunnar mætir manneskjum árið um kring með hjálparhönd og hjarta en samfélagið kallar þessa hugsun sterkar fram á tyllidögum er við sjálf gerum betur við okkur,“ bætir Erla við. „Þau er ófá sem koma í kirkjur landsins án þess að vilja láta nafns síns getið og biðja okkur að finna náunga sem þarf á aðstoð að halda til að gera dagana bærilegri. Við ættum því að hugleiða að gefa gaum, gefa kærleika, á tyllidögum sem og öðrum tilverudögum.“ Á páskunum er gott að vera prestur Margir nota hina löngu páskahelgi til að kasta mæðinni og hvílast – er það munaður sem gefst prestum? „Fyrir nokkrum misserum átti ég samræð- ur með fermingardrengjum um sorg og missi, en allmörg áföll höfðu orðið í þeirra skóla- samfélagi. Í miðjum samræðum spurði einn af einlægni: „Erla, hvernig getur þú verið í öllu þessu stöffi?“ Sorg og dauði stóð á bakvið stöffið í spurningunni. Ég játaði fyrir þeim að það hafa komið upp stundir að ég vildi að ég gæti farið í gegnum dyr er bæru að ofan merkið „UT EXIT“ með mynd af hlaupandi manneskju. Í aðstæðum er ég upplifi mig vanmáttuga, á hvorki orð né annað, og langar að hlaupa í burtu er ég finn til smæðar minnar, einmitt þegar ég á að standa sterk með fólki, hugga og styðja. Og þá kemur vonarbirta páskanna, páskaeggið, sem minnir á lífið sem brotnar og brestur en svo rís nýtt af því, líf í fullri gnægð og gleði. Á páskunum er gott að vera prestur og ákveðin hvíld fylgir að þjóna í helgihaldi. Við prestarnir ferðumst kannski ekki mikið þessa vinnudaga. En við ferðumst frá föstudegi, frá ofbeldi, niðurlægingu, valdníðslu, dauða og sigri mannlegs valds, alla leið til sunnudags, til friðar, birtu, vonar, kærleika og til ei- lífðar. Þá langar okkur alls ekki að taka til fótanna. Því einmitt páskarnir gefa okkur prestum það sem við þurfum á að halda til að þjóna, vera, fylgja, hugga og hughreysta, biðja með og boða. En bernska barna minna verður örugglega í líkingu við mína. Ekki farið mikið lengra en í næstu götu til ömmu og afa, því mamma þarf að vinna.“ Lífinu á að lifa í gleði og þakklæti Nú þegar jafndægur á vori eru nýliðin og dagurinn orðinn lengri en skammdegið og grænir sprotar farnir að gægjast og hátíð upprisunnar rétt handan við hornið – hvernig leggst sumarið framundan í Erlu? „Svo vel. Þegar allir verða fjarri á ferð og flugi um miðjan júlí verða lífárin mín 40 og því ætla ég að fagna með fjölskyldunni á okkar fögru eldfjallaeyju,“ segir Erla. „Hver árstíð hefur sína töfra og hver þeirra kallar fram tilhlökkun hjá mér hvort sem henni fylgir marrið í snjónum eða grasilmur í lofti. Við Íslendingar fögnum sumarkomu þegar allra veðra er von, það er fjarri að sól og blíða fylgi sumrinu. Sumarið er kannske fyrst og fremst ákveðið hugarfar. Að eiga sumar í hjarta hjálpar að halda sínu striki þótt vindar blási og éljadrífur næði. Sumarið er afstaða, að lífinu eigi að lifa í gleði og þakk- læti og kallar fram göfugustu köllun okkar allra; að skapa betri heim og betra samfélag. Við gróðursetjum lauk að hausti og bíðum eft- ir litum að vori, við gróðursetjum vonir okkar í moldina og þar vonumst við til þess að þær skjóti rótum er við veitum þeim næringu og birtu sem gerir þeim kleift að auðga umhverf- ið og samfélagið. Svo sumarið leggst vel í mig – það er tíminn sama hver árstíðin er!“ jonagnar@mbl.is Lífið ljær páskahátíðinni sérstöðu Erla Guðmundsdóttir er sóknarprestur í Keflavíkurkirkju og páskarnir eiga sérstakan sess hjá henni og fjölskyldunni. Hér ræðir hún hátíðina og að hennar mati á hver dagur sinn sjarma í helgihaldi í dymbilviku og á páskadegi. Ljósmynd/Jón Óskar Hauksson Keflavíkurkirkja „Þau er ófá sem koma í kirkjur landsins án þess að vilja láta nafns síns getið og biðja okkur að finna náunga sem þarf á aðstoð að halda til að gera dagana bærilegri. Við ættum því að hug- leiða að gefa gaum, gefa kærleika, á tylli- dögum sem og öðrum tilverudögum.“ Presturinn „Páskarnir gefa okkur prestum það sem við þurfum á að halda til að þjóna, vera, fylgja, hugga og hughreysta, biðja með og boða.“ Manneskjan á að nýta afl og auð, gáfur og gæsku til góðs í þessu lífi.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.