Morgunblaðið - 23.03.2018, Blaðsíða 8
8 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 23. MARS 2018
P
áskasiðir eru mismunandi milli landa.
Sennilega eru þó páskasiðir Ung-
verja óvenjulegri en ýmissa annarra
þjóða. Antonía Hevesi píanóleikari er
fædd og uppalin í Ungverjalandi og
brá heldur betur í brún, þegar hún flutti til Ís-
lands fyrir 26 árum, hvað páskahaldið snerti.
Antonía Hevesi er Íslendingum að góðu
kunn, starfaði lengi hjá Íslensku óperunni, hef-
ur í 14 ár séð um Hádegistónleika í Hafnarborg
og er nú kennari við Söngskóla Sigurðar De-
mentz.
„Það er sannarlega mikill munur á páska-
haldi hér á Íslandi og í Ungverjalandi,“ segir
Antonia Hevesi. Hún gengur um stofuna sína og
sýnir mér smekklegt páskaskraut sem hún hef-
ur útbúið ásamt dóttur sinni Fanneyju Lísu He-
vesi, sem eins og móðir hennar er þátttakandi í
menningarlífi Íslands. Hún er söngnemi og tók
nýlega tekið þátt í frumsýningu á Heathers,
söngleik eftir Laurence O‘Keefe, sem Söngskóli
Sigurðar Dementz setti upp. Antonína getur
þess að haldin verði aukasýning á þessu verki
27. mars í Gamla bíói.
„Fanney Lísa var sem strax sem barn ákveð-
in í að feta listabrautina,“ segir Antonía og
bendir mér á ballettskó dótturinnar sem hanga
uppi á vegg í ramma, ofan við ýmsar viðurkenn-
ingar sem dóttirin hefur fengið á listnámsbraut-
inni.
Antonía hefur málað eggin sem hanga á
litlum greinum í stofunni. Hún hristir þó höf-
uðið þegar ég tala um hve smekkleg þau eru.
„Þetta hefði nú ekki þótt merkilegt þegar ég
krakki heima. Annars fannst mér einkennileg-
ast þegar ég kom til Íslands að hér sendir eng-
inn páskakort. Ég og maðurinn minn, við erum
skilin núna, vorum þá nýgift og með nokkurra
mánaða son, fórum að föndra páskakort til þess
að geta sent ættingjunum og vinum heima í
Ungverjalandi. Þessi kort eru með svipuðum
texta og jólakort.
Tildrög þess ég kom hingað voru þau að vin-
kona mín benti á mig. Konsúll Íslands, sem nú
er, var orgelleikari í Garðabæ. Hann var beðinn
að útvega orgelleikara til Íslands. Ég var búin
með mastergráðu í tónlist og var í orgelnámi í
Austurríki þegar ég hitti vinkonu mína á götu.
Hún var þá að koma frá Íslandi og sagði mér frá
því. Ég var víst svo áhugasöm að hún benti á
mig þegar hún gat ekki þegið starf orgelleikara
á Siglufirði. Ég var þá að undirbúa mig undir
háskólakennslu í tónfræði og hljómfræði í Finn-
landi. Ég var á kafi í finnskunámi þegar þetta
tilboð kom. Okkur hjónunum fannst þetta æv-
intýri sem erfitt væri að hafna og ætluðum bara
að vera á Íslandi í eitt ár – en ég er hér ennþá,“
segir Antonía og býður mér kaffi og ávexti í
skál.
Páskakanína kommúnistanna
Hvað setti mestan svip á páskana þína í Ung-
verjalandi?
„Heima í Komló fórum við á föstunni að
föndra fyrir páskana, búa til hreiður og mála
egg og búa til páskakanínu. Kommúnistarnir
lögðu eiginlega undir sig páskana. Áður var
kaþólsk trú mjög sterk á mínum heimaslóðum
með sínar sterku hefðir. Þegar kommúnistar
komust til valda þá tóku þeir yfir páskasiðina og
þeir bjuggu til sögur um páskakanínuna, við
fengum litabækur, sögubækur og allt mögulegt
annað þar sem páskakanínan var aðalhetjan.
Hún var alltaf að glíma við að reyna að ná í egg-
in í hreiðrinu. Um hana voru gerðar teikni-
myndir og meira að segja ljóðabækur. Í stórum
borgum var maður klæddur upp sem páskakan-
ína og var á ferð í almenningsgörðum, hann
faldi sig og krakkarnir leituðu að honum, sáu
hann en náðu honum aldrei en hann dreifði
súkkulaði sem við borðuðum. Páskarnir voru
hátíð gleði og skemmtunar og við fengum
páskagjafir.
Páskaskraut var mjög áberandi í mínum upp-
vexti. Það var sett páskaskraut á útidyrahurð-
ina, í gluggana, í garðinn og auðvitað var íbúðin
yfirfyllt af skrauti í allskonar litum. Svo voru
handmáluð egg og súkkulaði af allskonar teg-
undum í allskonar myndum var hvarvetna á
boðstólum. Þannig var það alla föstuna. Á
páskadag vorum við krakkarnir, ég og bróðir
minn, beinlínis búin að fá nóg af sætindum. Þá
var gott að fá innbakaða skinku að borða með
miklu grænmeti og lesa um páskakanínuna,
sem lenti svo sannarlega í allskonar ævintýrum
sem við krakkarnir höfðum mikinn áhuga á.
Aðalfjörið á annan í páskum
Á annan í páskum var svo aðalfjörið. Frá gam-
alli tíð var siður Ungverja að konurnar klæddu
sig í þjóðbúninga og fóru út, þar biðu karlarnir í
leyni með vatn í fötu til að hella yfir þær. Þetta
breyttist eftir að kaþólska kirkjan varð fyr-
irferðarminni í lífi fólks en samt hélst þessi sið-
ur að nokkru leyti.
Núna er algengt var að karlar banki uppá hjá
konum sem þeir þekkja, segi fram vísu og kalli
konur þar blóm sem þurfi að vökva og úði svo
ilmvatni yfir hár þeirra. Um hádegi á annan í
páskum eru því flestar konur önnum kafnir í
baðhergjum að þvo spreyið úr hári sínu. Karl-
arnir fá aftur á móti staup hvar sem þeir koma
og kannski nýja og nýja tegund þannig að þeir
eru oft orðnir vel fullir. Af þessu sprettur mikið
fjör hjá öllum. Litlir strákar koma stundum
með, fá klink og súkkulaði og loks magapínu.
Maðurinn minn byrjaði á því hér á Íslandi að
setja vatn á spreyflösku. Þegar ég vaknaði þá
spreyjaði hann á mig. Þegar strákurinn okkar
stækkaði kom hann með vatnsbyssu og spraut-
aði á mig og systur sína þar sem við lágum í
rúminu.
Pabbi minn var innst inni svolítið trúaður á
kaþólska vísu en mamma algjörlega trúlaus Þau
voru bæði læknar, mamma varð yfirlæknir
fjórðungssjúkrahúss en pabbi varð sjúkra-
hússtjóri. Mig langaði að verða læknir líka en
þau töldu að það starf væri ekki fyrir mig, ég
væri of tilfinninganæm.
Í Komló starfaði frægur barnakór sem ég var
í. Stjórnandi hans var vinur Zoltans Kodály og
barnaskólinn sem ég var í bar nafn hans og hann
samdi lag fyrir þennan kór.
Ég var líka sett snemma í píanónám, það varð
minn örlagavaldur og bróður míns líka, hann
býr á Íslandi, í Hauganesi en vinnur á Dalvík
hann kennir á fagott, er organisti og í Sinfón-
íuhljómsveit Norðurlands.
Ekki datt mér í hug þegar ég gerðist org-
anisti í kirkjunni á Siglufirði að ég myndi búa
hérna áfram. Ég man eftir hvað mér fannst ein-
kennilegt þegar ég, fyrstu páskana mína á Ís-
landi, arkaði af stað í miklum snjó í kraftgalla ut-
an yfir sparifötunum upp í kirkju til þess að
leika undir við morgumessu klukkan sjö að
morgni. Það fannst mér einkennilegt og vor-
kenndi söngvurunum. Það er erfitt að syngja
svona snemma. Svo vandist þetta allt. Við fyrr-
verandi maðurinn minn, sem er ungverskur líka,
gerðum bara gott úr þessu, blönduðum saman
íslenskum og ungverskum páskasiðum. Mér
finnst reyndar ósköp lítið gert hér um páskana,
bara eitt, stórt páskaegg. Einn sið hafa þó Ís-
lendingar sem er skemmtilegur en við í Ung-
verjalandi eigum ekki. Það eru málshættirnir.“
Ungverjaland sem ég þekkti er ekki lengur til
Hvernig fannst fólkinu þínu þegar þið fluttuð til
Íslands?
„Það var reyndar dálítið erfitt fyrir foreldra
mína að missa okkur til langdvalar á Íslandi. En
svona fór þetta bara. Nú er það Ungverjaland
sem ég þekkti ekki lengur til eins og það var.
Kommúnisminn var liðinn undir lok. Meðan
hann var sem sterkastur þótti það mjög áhættu-
samt að fara í kirkju. Maður gerði það samt. En
ef slíkt fréttist gat fólk átt á hættu að vera jafn-
vel rekið úr skóla eða starfi. Seinni árin hef ég
orðið svolítið trúuð eins og pabbi.“
Á leiðinni út sýnir Antonía mér gamlar mynd-
ir af fólkinu sínu í Ungverjalandi. Ein myndin er
af dreng sem dó innan við fermingu úr nýrna-
veiki fyrir læknamistök.
„Hann var undrabarn, lærði að lesa tveggja
ára og var farinn að kenna þriggja ára í grunn-
skóla,“ segir Antonía. Á veggnum hjá henni
hangir líka mynd af móðurömmu hennar sem dó
um fertugt. „Ég var einu sinni að leika á sviði í
fötum frá því tímabili þegar hún var ung. Þá var
tekin af mér mynd sem ég sendi mömmu. Hún
og systir hennar fóru að gráta þegar þær sá
myndina. Ég var í þessum búningi með liðað hár
millistríðsáranna, svo lík mömmu þeirra.“
Augljóslega hefur verið meira en að segja það
að flytja frá Ungverjalandi kommúnismans til
Íslands en Antoniu Hevesi hefur tekist að hasla
sér hér völl og fylgir mér til dyra, greinilega full
af krafti og löngun til þess að takast á við verk-
efni dagsins. „Við dóttir mín höfum svo mikið að
gera að við föndrum líklega ekki mikið fyrir
þessa páska,“ segir hún hlæjandi í kveðjuskyni.
gudrunsg@gmail.com
Skreytingar „Það er sannarlega mikill munur á páskahaldi hér á Íslandi og í Ungverjalandi,“ segir Antonia sem handmálar páskaegg af mikilli list og leggur mikið upp úr fallegu páskaskrauti.
Í Ungverjalandi sendir fólk páskakort
Þegar kommúnistar komust til valda þá tóku þeir yfir páskasiðina og þeir bjuggu til sögur um páskakanínuna, við fengum litabækur,
sögubækur og allt mögulegt annað þar sem páskakanínan var aðalhetjan. Hún var alltaf að glíma við að reyna að ná í eggin í hreiðrinu.
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Páskar „Ég man eftir hvað mér fannst einkennilegt þegar ég, fyrstu páskana mína á Íslandi, arkaði af
stað í miklum snjó í kraftgalla utan yfir sparifötunum upp í kirkju til þess að leika undir við morgu-
messu klukkan sjö að morgni. Það fannst mér einkennilegt og vorkenndi söngvurunum.“