Læknablaðið - 01.10.2017, Side 17
LÆKNAblaðið 2017/103 417
á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum en nú er algengi hennar
svipað eða jafnvel hærra en þar. Algengi sykursýki af tegund 2
meðal 25-94 ára karla á Íslandi 2010 var 7% (vikmörk 6%-8%) og
meðal 25-94 ára kvenna var algengið 4% (vikmörk 3%-5%) (mynd
7). Að jafnaði hefur algengi í þessum hópi hækkað um 3% á ári hjá
körlum en um 2% á ári hjá konum. Áætlaður fjöldi með sykursýki
af tegund 2 á Íslandi er um 14000 manns þar sem um 63% eru
karlar.
Ef litið er til árabilsins 1968-2012 hjá körlum 50-69 ára, má sjá
að algengi sykursýki 2 hefur rúmlega tvöfaldast, úr því að vera
tæplega 6% í 12%, eða um 105%. Á sama tímabili virðist algengi
sykursýki meðal 50-69 ára kvenna hafa aukist hægar, úr 2,6% í
4,1%, eða um 54%. Þegar horft er tímabilsins eftir 2006 sést að al-
gengi sykursýki meðal karlmanna hefur aukist hratt en stendur í
stað meðal kvenna (mynd 4f). Þessar breytingar haldast í hendur
við þá þyngdaraukningu sem fram kemur í mynd 4e) án þess að
fullyrt verði að um beint orsakasamband sé að ræða.
Algengi sykursýki 2 virðist hækka línulega eftir miðjan ald-
ur, bæði hjá konum og körlum, og helst sú aukning fram á elstu
aldurshópa að minnsta kosti meðal karla (mynd 7). Búast má við
því að þessi aukning í ofþyngd og sykursýki 2 eigi eftir að leiða
til aukningar í langvinnri hjartabilun og um leið skertra lífsgæða
og aukinnar sjúkdómsbyrði aldraðra.48Áhrif lífsstíls á erfðaupp-
lag kemur því óvíða skýrar fram en í þróun sykursýki 2. Önnur
rannsókn Hjartaverndar hefur þó bent til verulega minni áhættu
á kransæðasjúkdómum meðal aldraðra í þessum hópi ef þeir taka
kólesteróllækkandi lyf (statín). Þessi rannsókn sýndi fram á að
einstaklingar eldri en 70 ára sem höfðu sykursýki 2 og voru ekki
á statínlyfjum voru 3,5 sinnum líklegri til að deyja úr hjartaáfalli
en þeir sem fengu blóðfitulækkandi lyfjameðferð með statínum.49
Áhrif mataræðis á þróun hjarta- og æðasjúkdóma
Í þessari yfirlitsgrein er notast við lýsandi faraldsfræði á áhættu-
þáttum og nýgengi kransæðasjúkdóma með stöðluðum vísinda-
legum aðferðum. Breytingar á einstökum áhættuþáttum eru skoð-
aðar í ljósi mældra breytinga sem orðið hafa á lífsstíl, mataræði og
hreyfingu. Ekki er gerð tilraun til þess að álykta að beint orsaka-
samband sé á milli vissra fæðutegunda og þróunar hjarta- og
æðasjúkdóma enda er slík umfjöllun handan við tilgang þessarar
yfirlitsgeinar. Hins vegar liggur ljóst fyrir að hátt gildi LDL-kól-
esteróls í blóði tengist með öðru þróun æðakölkunarsjúkdóma.
Samspil mataræðis, kólesteróls og nýgengis kransæðasjúkdóma er
flókið og tekur breytingum yfir tíma. Mismunandi aðstæður eiga
við í mismunandi löndum. Erfitt er að framkvæma slembiraðaðar
klínískar rannsóknir á áhrifum mataræðis yfir löng tímabil. Þannig
eru ekki öll kurl komin til grafar varðandi beint orsakasamband
milli hlutfalls fitu og kolvetna í fæðu og þróun kransæðasjúkdóma.
Nýlega birt faraldsfræðileg rannsókn sem gerð var í 18 löndum
og tók til rúmlega 135 þúsund einstaklinga, 35-70 ára, hefur ver-
ið túlkuð á þann veg að nýgengi hjarta- og æðasjúkdóma tengist
ekki aukinni fituneyslu heldur mikilli neyslu kolvetna. 50 Þegar
betur að gáð styðja niðurstöður PURE rannsóknarinnar þó við
manneldismarkmið okkar um að draga úr neyslu mettaðrar fitu
undir 10%E enda er nýgengi kransæðastíflu lægst í þeim hópi en
við erum nú með um 15,2%E í mettaðri fitu. Hvað varðar kolvetni
er Norræna neysluviðmiðið að neysla á kolvetnum sé 45-60%E. Í
Norrænu mataræði er prósentan 43-52%E sem samsvarar 2 neðstu
fimmtungum (quintiles) í PURE rannsókninni, sem er langt und-
ir þeim mörkum sem sýndi aukna tíðni heilablóðfalla (66-77%E).
Þessi rannsókn gefur því ekki tilefni til að breyta núgildandi ráð-
leggingum eða hvetja almennt til svonefnd lágkolvetnamataræð-
is í því augnamiði að draga úr nýgengi hjarta- og æðasjúkdóma.
Áhrif þessara fæðuflokka á nýgengi sykursýki og offitu voru ekki
metin í PURE-rannsókninni.
Framtíðarspá
Breytingar í helstu áhættuþáttum kransæðasjúkdóma á árabilinu
1980-2006 skýrðu um þrjá fjórðu hluta þeirrar lækkunar sem sást
í dánartíðni af völdum kransæðasjúkdóma á tímabilinu.1 Aðeins
tveir áhættuþættir, offita og sykursýki, þróuðust í gagnstæða átt
og drógu talsvert úr þessari lækkun á dánartíðni. Þegar rýnt er í
þróun helstu áhættuþátta á síðustu sex árum má sjá að verulega
dregur úr þeirri jákvæðu þróun sem sást síðustu þrjá áratugina
eða hún hverfur jafnvel alveg.2
Þannig hefur meðaltal kólesterólgilda hjá miðaldra Íslending-
um hætt að lækka á nýliðnum árum, bæði meðal kvenna og karla.
Hlutfall þeirra sem reykja daglega í hópi miðaldra Íslendinga
heldur áfram að lækka. Meðaltal slagbilsþrýstings heldur áfram
að lækka hjá báðum kynjum á aldursbilinu 50-69 ára með svip-
uðum hætti og undanfarna áratugi. Aukning á reglubundinni
hreyfingu heldur áfram hjá báðum kynjum en þó hefur talsverð
þyngdaraukning orðið meðal miðaldra karla. Þetta endurspeglast
í því að algengi sykursýki 2 fer hratt vaxandi meðal miðaldra karla
en eykst hægar hjá konum og stendur jafnvel í stað á allra síð-
ustu árum. Búast má við því að þessar breytingar á stöðu helstu
áhættuþátta, vaxandi offita og nýgengi sykursýki 2, muni leiða til
verulegrar aukningar á nýgengi kransæðasjúkdóma og dauðsfalla
af þeirra völdum á komandi áratugum.2
Í rannsókn Rósu Bjarkar Þórólfsdóttur og samstarfsfólks
hennar í Hjartavernd var rýnt í þessar breytingar á þróun helstu
áhættuþátta og reynt að spá fyrir um áhrif breytinganna á dauðs-
föll af völdum kransæðasjúkdóma á Íslandi fram til 2040.2 Í þeirri
vinnu var byggt á sömu sex áhættuþáttum og stuðst var við í
rannsókninni 1981-2006 og aðferðafræði IMPACT-reiknilíkansins
Mynd 7. Algengi sykursýki 2 á Íslandi 2010 eftir aldursflokkum.
Y F I R L I T S G R E I N