Morgunblaðið - Sunnudagur - 08.07.2018, Page 19

Morgunblaðið - Sunnudagur - 08.07.2018, Page 19
8.7. 2018 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 19 klukkutíma ofan í ánni að berja klaka frá bílnum svo hann komist yfir ána. Þetta tekur mig alveg á taugum. Í nokkur skipti hefur hann kíkt í kaffi eða mat til okkar með kúlu á höfðinu eftir að hafa dottið á ísnum á leið sinni að bílnum. Það er heldur ekki nokkur mann- eskja sem leggur í heimsókn til pabba á veturna, sem gerir einangrunina enn meiri. Þetta er ástand sem getur ekki varað áfram. Það þarf að fá veg þarna yfir. Þetta eru um 300 metrar með árvaðinu sem þarf að lagfæra svo vegurinn verði tekinn inn á vegaskrá aftur og þjónustaður.“ Umsóknin týndist Þegar Kolbrún gekk af alvöru í það mál að reyna að fá veginn að Þverár- koti lagaðan árið 2015 var henni ráð- lagt að fá bæinn fyrst skráðan sem lögbýli. Það væri rétta leiðin til að fá veginn tekinn að nýju inn á vegaskrá sem héraðsveg. Skráning á Þverár- koti sem lögbýli gekk í gegn með sam- þykkt umhverfis- og skipulagsráðs hinn 6. apríl 2016 eftir mörg símtöl og tölvupóstssendingar. Þegar lögbýlisskráningin var komin í hús gekk hún í að sækja um það til Vegagerðarinnar að vegurinn að Þverárkoti yrði gerður að héraðsvegi. Gerð vega að lögbýlum er á forræði Vegagerðarinnar og stofnunin segir að þær framkvæmdir sem fara þyrfti í við Þverárkot til að vegurinn verði skráður héraðsvegur muni kosta 12,5 milljónir króna hið minnsta, mögulega meira. Framkvæmdirnar fela í sér að tvö ræsi verði sett í Þverá og vegur yfir þau. Vegagerðin segist geta tekið að sér verkið en Sveinn í Þverárkoti og Kol- brún dóttir hans, sem er meðeigandi að staðnum, þurfi að greiða helming kostnaðarins. Það skal tekið fram að um er að ræða lagfæringu á gömlum vegi sem áður var á vegaskrá, ekki er verið að óska eftir heimreið að húsinu, slíkt er alltaf á kostnað eiganda. Sveinn hafði reyndar áður sótt um að Þverárkot yrði gert að lögbýli, árið 2007. Sveinn, sem er af gamla skól- anum að því leyti að hann er ekki tölvuvæddur, skilaði umsókn ásamt gögnum á pappír. Málið fór af stað, í það minnsta það langt að Búnaðar- samband Vesturlands gerði úttekt á staðnum, sem er forsenda lögbýlis- skráningar. Einhverra hluta vegna fór málið aldrei lengra, pappírar týndust, umsóknin fannst ekki og ekkert varð úr að bærinn yrði skráður á ný sem lögbýli fyrr en Kolbrún setti þá vinnu af stað að nýju fyrir rúmum þremur árum. Afgangsmalbik og vegrið „Það er svo margt furðulegt hérna. Þeir settu malbik hérna upp að bú- stöðunum fyrir ofan en skilja veginn hérna niður að húsinu eftir,“ segir Sveinn. Þar vísar hann í framkvæmdir borgarinnar á veginum frá Hrafnhól- um og upp eftir Svínaskarðsleið að þeim stað þar sem gönguleið að Mósk- arðshnjúkum hefst, en borgin sinnir nú þriðja sumarið í röð viðhaldi á þessum vegi með því að keyra í hann afgangsmalbik eða svokallað malbiks- fræs. Vegkafli inn að bænum hjá Sveini er þó ekki hluti af þeirri vinnu. Þau feðgin eru ekki sátt við þau svör Vegagerðarinnar að þeim sé gert að greiða helming kostnaðar við gerð vegarins enda hafi það ekki verið venjan í framkvæmdum í nágrenninu. Máli sínu til stuðnings benda þau á að árið 2016 hafi brúarvinnuflokkur verið sendur að brúnni yfir Leirvogsá við Hrafnhóla til að vinna að lagfæringum á brúnni og setja upp nýtt og margfalt lengra brúarvegrið beggja vegna brú- arinnar. Sá vegur er ekki héraðs- vegur frekar en vegurinn að Þverár- koti. Þó greiddi Vegagerðin þá við- gerð að fullu og enginn annar var krafinn um þátttöku í kostnaði. Einnig benda þau á áðurnefnda framkvæmd Reykjavíkurborgar við lagningu á afgangsmalbiki á hluta vegarins milli Hrafnhóla og Þverár- kots og upp að nı́u sumarbústöðum eftir Svínaskarðsleið. Geti varla talist jafnræði Bendir Kolbrún á að bæði Vega- gerðin og Reykjavíkurborg hafi þannig kostað peningum til í vega- framkvæmdir í næsta nágrenni við Þverárkot án þess að íbúar eða sumarhúsaeigendur hafi verið krafðir um þátttöku í kostnaði. „Þetta getur varla talist jafnræði,“ segir Kolbrún. Blaðamaður fékk þau svör á skrif- stofu framkvæmda og viðhalds hjá borginni að slóðanum sem kallaður er Svínaskarðsleið sé haldið við á grunni samkomulags við Kjalarnes frá því sveitarfélögin sameinuðust. Það sé skylda borgarinnar að halda slóða þarna uppeftir við. Ekki væri um dýra framkvæmd að ræða og ekki þyrfti sérstaka samþykkt fyrir henni. Þarna væri sett niður afgangsmalbik sem til félli og kostnaður við það að keyra það þangað uppeftir frekar en eitthvað annað væri óverulegur. Leitaði blaðamaður einnig svara hjá Vegagerðinni um vegriðið sem sett var upp og að fullu greitt af Vegagerðinni, þrátt fyrir að vera við óskráðan veg. „Fyrir misskilning taldi sá aðili sem heldur utan um við- hald brúa hjá Vegagerðinni að vegur- inn að Hrafnhólum væri enn á vega- skrá og lét hann því lagfæra þetta án þess að við á svæðinu vissum af því,“ segir í tölvupósti frá svæðisstjóra hjá Vegagerðinni. Aki 16 kílómetra með rusl Margt hangir á þessum vegafram- kvæmdum, því meðan vegurinn ligg- ur yfir ána á vaði eins og nú er fæst Reykjavíkurborg ekki til að senda ruslabíl að sækja rusl að bænum. Sveinn fær því sorp sitt ekki hirt líkt og aðrir borgarbúar. Hjá skrifstofu umhverfisgæða hjá Reykjavíkurborg fást þau svör að ruslabílar komist ein- faldlega ekki yfir ána Þverá, til þess séu þeir of þungir. Kolbrún bendir á að faðir hennar greiði útsvar, fasteignagjöld og aðra skatta til borgarinnar og taki því þátt í rekstri þjónustunnar líkt og aðrir borgarbúar. Hún sendi formlegt erindi til borgarinnar í fyrrasumar, eftir nokkrar bréfaskriftir og símtöl á undan, og óskaði eftir ákvörðun um staðsetningu sorpíláta við bæinn. Á fundi heilbrigðisnefndar Reykja- víkur hinn 4. maí sl. kom svar, tæpu ári eftir að fyrirspurnin barst. Niður- staða nefndarinnar er sú að Sveinn skuli sjálfur flytja sorp sitt að næstu grenndarstöð Reykjavíkur, við Barðastaði í Grafarvogi. Leiðin milli Þverárkots og grenndarstöðvarinnar er 16,3 kílómetrar. Nefndin segir að vilji íbúi það frekar sé hægt að stað- setja tunnurnar á Esjumelum, en það er algjörlega úr leið. Sveinn segir ljóst að þessi niðurstaða nýtist ekki, hann muni hvorki aka í Grafarvog né upp á Esjumela til að henda rusli. Undanfarin ár hafa Kolbrún og aðrir ættingjar haft þann hátt á að kippa með sér ruslapokum þegar þau fara í Þverárkot og taka með sér heim og henda í sínar tunnur. Þau eiga von á að svo verði áfram. Unnið að svari borgarstjóra Kolbrún brá á það ráð hinn 24. mars sl. að senda bréf beint til borgarstjóra í von um að vekja at- hygli á óviðunandi aðstæðum föður síns og óska eftir aðkomu borgar- innar að því að koma samgöngum við bæinn í lag svo hægt sé að fá þjónustu að bænum á borð við sorphirðu. Í bréfinu fer hún ítarlega yfir öll sam- skipti við borgina og óskar eftir því að borgarstjóri beiti sér í málinu. Ekkert svar hefur borist við bréf- inu ennþá. Þegar blaðamaður leitaði til skrifstofu borgarstjóra fengust þau svör að málið hefði einfaldlega lent „neðst í bunkanum“ vegna þess að mikið hefði verið að gera í aðdrag- anda sveitarstjórnarkosninga. Blaða- maður óskaði viðbragða við því sem fram kemur í bréfi Kolbrúnar en í tölvupósti frá aðstoðarmanni borg- arstjóra segir: „Við erum að vinna svar við erindi Kolbrúnar og höfum kallað eftir upplýsingum innan úr kerfinu vegna þess. Þangað til getum við í raun ekki tekið afstöðu til erindis hennar eða veitt viðtöl vegna þess.“ Ekki liggur því fyrir hvort borgin muni koma að framkvæmdum við veginn að Þverárkoti. Gísli á Uppsölum í borginni „Vegurinn er auðvitað stóra málið í þessu öllu. Á meðan vegurinn kemur ekki er ég einangraður,“ segir Sveinn. „Þá er bara Gísli á Uppsölum kominn hingað til Reykjavíkurborgar, nema hvað Gísli gamli hafði bæði brú og ruslatunnu,“ bætir Kolbrún við. „Ég er borgarbúi, ég er útvörður hérna hjá borginni. Ég er búinn að vera hér mestmegnis síðustu þrjátíu árin nema ég flutti í borgina í tæp þrjú ár en kom svo aftur. Hér áður þurfti ég stundum að ganga alveg frá þjóðveginum til að komast heim. En það gerist nú sem betur fer ekki leng- ur. Maður hefur samt ekki verið að æsa sig mjög mikið yfir þessu,“ segir Sveinn rólega. „Pabbi hefur ekkert verið að láta þetta trufla sig, en við erum alltaf hrædd um hann þegar hann þarf að fara hérna yfir. Þetta er bara óboð- legt ástand,“ segir Kolbrún. Í fyrra kom hún uppeftir til pabba síns til að fara á hestbak og þá sat hann heima fótbrotinn frá því daginn áður. „Ég brotnaði í ánni, festist ein- hvern veginn á milli steina. En ég labbaði nú bara heim,“ segir Sveinn. Bjargað úr ánni eftir fall gegnum ísinn Jón Bergsson er einn eigenda ferðaþjónustufyrirtækisins Buggy Adventures sem fer með fólk á buggy-bílum, nokkurs konar yfir- byggðum fjórhjólum, í ferðir undir rótum Esju. Jón fær að nota slóðana á landi Sveins og er honum í staðinn innan handar með ýmis viðvik. Hann hefur miklar áhyggjur af aðstæðum Sveins. „Ég keyri þarna inn í dal nánast daglega, bæði yfir sumar- og vetrar- tíma. Þetta er búið að vera ófremdar- ástand, sérstaklega á veturna. Áin er þá ísilögð og svo er bara spurning hvort ísinn heldur eða ekki. Ég kom að honum í fyrra þar sem hann var að vaða yfir og datt niður í gegnum ísinn. Ég kom bara að tveim- ur, þremur mínútum síðar þar sem hann er hálffastur ofan í ánni. Við fór- um og hjálpuðum honum upp, við er- um alltaf tveir saman með hópana ef eitthvað kemur upp á. Hann hefði kannski bjargað sér einhvern veginn. En þetta er auðvitað bara hræðilegt, maður veit aldrei hvenær maður kem- ur að honum dauðum í ánni.“ Jón telur skammarlegt að ekki skuli hafa verið gert neitt til að bæta aðstæður við bæinn. „Það ætti ekki að taka nema augnablik fyrir Vegagerð- ina að henda niður tveimur ræsum. Þarna rétt hjá honum er fínn vegur, sem liggur upp að sumarbústöðum. Manni finnst þetta hálfkæruleysislegt að hafa þetta svona. Borgin gæti sett í þetta smá pening og Vegagerðin smá pening og þá er þetta leyst. Ég er reyndar búinn að tala við borgar- stjóra og aðra sem voru í framboði núna út af þessu en það fást engin svör enn. Ef þetta væri afi þeirra sem væri þarna að vaða yfir ána þá væri búið að gera þetta fyrir löngu,“ segir Jón. Vegriðið á brúnni yfir Leirvogsá við Hrafnhóla var sett niður 2016 að fullu á kostnað Vegagerðarinnar. Vegurinn er óskráður, líkt og vegurinn að Þverárkoti. Morgunblaðið/RAX Svínaskarðsleið liggur frá afleggjaranum að Þverárkoti og að þeim stað þar sem gönguleið að Móskarðshnjúkum hefst og nokkrir sumarbústaðir standa. Sú leið og hluti vegar frá Hrafnhólum áleiðis að Þverárkoti er með afgangs- malbiki frá borginni. Í fjarska sést í Þverárkot en til að komast þangað þarf að fara yfir Þverá á vaði. Á mynd að neðan sést sá hluti vegarins sem liggur frá Hrafnhólum áleiðis að Þverárkoti, en malbik var sett þar niður til að trukkar gætu komist upp Svínaskarðsleið, því vegurinn var svo illa farinn áður. Til að komast að Þverárkoti þarf að aka veginn niður fyrir Hrafnhóla (bæinn í bakgrunni), meðfram Leirvogsá. Í leysingum í vor gróf áin sig inn í veginn og hreinsaði jarðveg frá háspennustreng sem liggur að Þverárkoti. Veitur settu hlíf á strenginn til að koma í veg fyrir slys. Borgin heldur áfram í sumar að keyra af- gangsmalbik eftir veginum, framhjá skarðinu og upp eftir Svínaskarðsleið. Þessi vegur er ekki mokaður á veturna og oft ófær, enda óskráður vegur. Óljóst var því hver ætti að lagfæra skarðið, en þær upplýsingar fengust frá borginni að skarðið verði lagað í samráði við Vegagerðina í næstu viku.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.