Ljósmæðrablaðið - 01.06.2013, Qupperneq 11
11Ljósmæðrablaðið - júní 2013
sóknar eru samhljóma niðurstöðum
annarra rannsókna. Mæðurnar töldu
fræðslu um brjóstagjöf mikilvæga fyrir
framvindu brjóstagjafar og að mikilvægt
væri að fá fræðslu strax á meðgöngu
(Hannula, Kaunonen og Tarkka, 2008;
Hildur Sigurðardóttir, 2010), að inni-
hald fræðslunnar ætti að vera samræmt
(Hildur Sigurðardóttir, 2006; 2004),
óháð fagstétt og skoðunum einstak-
linga, og gefa hagnýtar lausnir á þeim
vanda sem við var að eiga (Hannula,
Kaunonen og Tarkka, 2008). Fræðsla
veitt við samfellda þjónustu ljósmæðra
og heimavitjanir fékk jákvæðari ummæli
mæðra en fræðsla af öðrum vettvangi
(Schmied, Beake, Sheehan, McCourt
og Dykes, 2011; Hannula, Kaunonen
og Tarkka, 2008; McInnes og Cham-
bers, 2008; Waldenström, Rudman og
Hildingsson, 2006; Hildur Sigurðar-
dóttir, 2006, 2004; Helga Gottfreðsdóttir,
2001). Viðmælendur lögðu áherslu á að
móður væri sýnd virðing og mikilvægt
væri að styrkja sjálfsöryggi hennar og
vellíðan við brjóstagjöfina, til dæmis
með jákvæðum staðhæfingum um að
mæðurnar gætu gefið brjóst, þær réðu
ferðinni sjálfar og jafnframt að þeim
væri bent á hvert hægt væri að leita eftir
aðstoð (Hildur Sigurðardóttir, 2011,
2010, 2006, 2004; Hannula, Kaunonen og
Tarkka, 2008; Björk Askelsdottir, Lam-de
Jonge, Edman og Wiklund, 2012; Dykes,
2005; Helga Gottfreðsdóttir, 2001; Wald-
enström, Rudman og Hildingsson, 2006).
Jafningjafræðsla var mikils metin þar
sem hún var óháð stofnunum og mæður
treystu öðrum mæðrum með reynslu
af brjóstagjöf (Hannula, Kaunonen og
Tarkka, 2008; Morrow o.fl., 1999; Hildur
Sigurðardóttir, 2010; McInnes og Cham-
bers, 2008).
Tveir hópar mæðra kvörtuðu undan
vandlætingu í sinn garð af hálfu fagað-
ila, þeim sem hættu að gefa brjóst
snemma og þær sem höfðu börn sín lengi
á brjósti. Konur úr seinni hópnum voru
þó ekki ósáttar með frammistöðu sína,
andstætt þeim fyrrnefnda sem vildi fá
að gefa þurrmjólk án þess að upplifa sig
sem misheppnaðar mæður. Knaak (2006)
varar við því að sniðganga neikvæða
reynslu mæðra af brjóstagjöf í fræðslu
þar sem því fylgi hætta á að goðsögnin
um fyrirmyndarmóðurina verði ríkjandi
og að horft verði framhjá raunveruleika
margra mæðra. Krafa mæðra um ráðgjöf
sem felur í sér lausn á erfiðleikum, viður-
kenningu á að stundum sé rétt að gefa
þurrmjólk og leiðbeiningar um notkun
hennar endurspeglar að fræðslan tekur
ekki mið af aðstæðum. Sumar mæðranna
brugðust við með því að draga í efa áreið-
anleika upplýsinganna, og þá sérstaklega
frá ljósmæðrum. Þær töldu þurrmjólk
jafngóða fæðu fyrir ungbörn og brjósta-
mjólk. Þessar vel menntuðu mæður höfn-
uðu þannig niðurstöðum rannsókna og
ríkjandi orðræðu um brjóstagjöf.
Þó sumar mæðranna hafi varað við of
miklum þrýstingi til að gefa brjóst töldu
þær fræðslu um brjóstagjöf ábótavant, en
það er í samræmi við nýlegar ábendingar
frá Embætti landlæknis (2012: 5) um
ófullnægjandi fræðslu. Niðurstöður rann-
sóknarinnar gefa skýrar vísbendingar um
hvernig bæta megi fræðsluna þannig að
brjóstagjöf verði sem árangursríkust fyrir
móður og barn. Leggja þarf áherslu á val
mæðra, og að það sé upplýst val. Mikil-
vægt er að veita fræðslu og ráðgjöf en
ekki í formi boða og banna. Taka þarf
mið af fjölbreytilegum aðstæðum mæðra
og gera þeim grein fyrir algengum erfið-
leikum svo hægt sé að taka á þeim. Gangi
brjóstagjöfin ekki þarf að finna ásættan-
lega leið til að lifa með þeirri staðreynd
og veita skal þeim mæðrum sem svo
óska ráðgjöf um notkun þurrmjólkur á
fordómalausan hátt. Loks er mikilvægt
að hafa í huga að mæður vilja samræmdar
upplýsingar. Þessi niðurstaða kallar á
frekari rannsóknir á viðhorfum starfandi
heilbrigðisstarfsfólks til brjóstagjafar og
þekkingar þess á henni.
Bent hefur verið á að brjóstagjöf sé
það tímabil í lífi kvenna sem gjarnan
einkennist af óvissu, tvíræðni og óreiðu
(Schmied og Lupton, 2001; Dykes,
2005; Avishai, 2007). Misræmi í veittri
fræðslu olli mæðrum hvað mestu hugar-
angri og vantrú. Þær töldu að ekki væri
bara einstaklingsmunur eftir því hver
veitti fræðsluna heldur væri líka munur
milli faghópa. Embætti landlæknis
og Heilsugæslunnar (2010) hvetja til
samræmdrar ráðgjafar, enda óheppi-
legt að ráðgjöf endurspegli einhliða
persónulegar skoðanir einstaka fagaðila
á brjóstagjöf fremur en faglega þekkingu
(Hussainy og Dermele, 2011). Einnig
fólst mótsögn í trúnni á að fræðsla væri
forsenda vel heppnaðrar brjóstagjafar
og þeirrar hugmyndar að brjóstagjöf
væri í eðli sínu náttúrulegt fyrirbæri og
því hefðu mæður meðfædda þekkingu á
henni. Það er því ekki að undra að mæðr-
unum sem þátt tóku í rannsókninni hafi
gengið misvel að höndla sannleikann um
brjóstagjöfina.
LOKAORÐ
Hér hafa verið skoðuð viðhorf og
reynsla mæðra af fræðslu um brjóstagjöf
á mismunandi stigum heilbrigðisþjón-
ustunnar. Byggt er á viðtölum við 14
íslenskar mæður sem eiga það sameig-
inlegt að vera vel menntaðar og með
reynslu af brjóstagjöf á fyrsta áratug 21.
aldarinnar. Niðurstöðurnar sýna að þeim
finnst fræðslu um brjóstagjöf vera ábóta-
vant, þar sem hún einkennist um of af
misræmi. Eins skorti verulega á fræðslu
um brjóstagjöf á meðgöngunni. Mæður
kunnu að meta fræðslu sem einkenndist
af virðingu og gagnkvæmu trausti,
samræmdum og hagnýtum upplýsingum
og ráðum, sem og opinskáum umræðum
um mögulegar hindranir.
Misræmi einkennir að einhverju leyti
fræðslu til mæðra um brjóstagjöf hér
á landi. Skortur virðist vera á viður-
kenndri samræmdri þekkingu meðal
heilbrigðisstarfsmanna sem varpar ljósi
á hvers vegna brjóstagjöf er jafn umdeilt
og vandasamt verk og raun ber vitni.
Ráðgjafar sem hvað ákafast fræða mæður
um mikilvægi brjóstagjafar, og margar
mæður einnig, halda gjarnan í þær
mótsagnakenndu hugmyndir að fræðsla
sé afgerandi fyrir framvindu brjóstagjafar
og samtímis að brjóstagjöf sé náttúrulegt
fyrirbæri sem sé konum eðlislæg. Það er
afgerandi að fagfólk sem veitir fræðslu
um brjóstagjöf sé meðvitað um og viður-
kenni mikilvægi félags- og menningar-
legra áhrifaþátta á framvindu brjósta-
gjafar.
Niðurstöður greinarinnar varpa ljósi á
áhrifaþætti fyrir fræðslu og ráðgjöf um
brjóstagjöf sem geta nýst til að stuðla að
farsælli brjóstagjöf fyrir móður og barn.
Frekari rannsókna er þörf á samskiptum
fagfólks við verðandi og nýbakaðar
mæður þar sem uppbyggjandi eða niður-
brjótandi samskiptahættir eru skoðaðir
(Sigríður Halldórsdóttir, 2003). Eins
væri gagnlegt að skoða viðhorf einstakra
faghópa heilbrigðisstarfsfólks til mikil-
vægis brjóstagjafar, gæða brjóstamjólkur
og ákjósanlegrar lengdar brjóstagjafar svo
hægt sé að gæta samræmis í fræðslu og
ráðleggingum um brjóstagjöf. Vert er að
hafa í huga að niðurstöður þessarar rann-
sóknar eru byggðar á úrtaki 14 mæðra.
Rannsóknin gefur því ekki upplýsingar um
tíðni þeirra viðhorfa sem fram koma. Hún
gefur þó til kynna að frekari rannsókna sé
þörf á viðhorfum mæðra til gæða brjósta-
mjólkur sem og fræðslu um brjóstagjöf,
og þá ekki síst á hugmyndum þeirra um
áreiðanleika fræðslunnar.
Þakkir
Mæðurnar sem tóku þátt í rannsókn-
inni fá kærar þakkir fyrir þátttökuna.
Rannsóknin var styrkt af Rannsóknar-
námssjóði Rannís og Rannsóknarsjóði
Háskóla Íslands.
Heimildaskrá
Apple, R.D. (1987). Mothers & Medicine: A Social
History of Infant Feeding 1890‒1950. Wisconsin:
The University of Wisconsin Press.
Asa Vala Thorisdottir, Ingibjorg Gunnarsdottir og
Inga Thorsdottir (2013). Revised infant dietary
recommendations: the impact of maternal
education and other parental factors on adherence
rates in Iceland. Acta Pædiatrica, 102, bls.
143‒148.
Avishai, O. (2007). „Managing the Lactating Body: