Ljósmæðrablaðið - 01.06.2013, Side 35
35Ljósmæðrablaðið - júní 2013
Ofarlega í huga mér ...
H U G L E I Ð I N G A R L J Ó S M Ó Ð U R
Á hverju ári heyrum við fréttir af
fæðingum í bílum á leið á fæðingarstað.
En það sem við heyrum ekki eins mikið af
eru konurnar sem „rétt sluppu“ á fæðingar-
stað, þær sem festu sig í skafli á leiðinni,
klesstu bílinn eða sátu við hlið óttaslegins
maka sem keyrði á 150 km/klst. Þrátt fyrir
að hafa aðeins starfað í eitt ár á Sauðár-
króki þá heyrði ég nokkrar svoleiðis sögur
frá konunum sem voru hjá mér í mæðra-
vernd. Þessar sögur gerðu það að verkum
að ég fór að velta því meira og meira fyrir
mér hvert við stefnum þegar kemur að vali
kvenna á fæðingarstað.
Undanfarið hefur orðið þó nokkur umræða
um þessi mál sem er vel. Góð umfjöllun var
til að mynda í Landanum á RÚV þann 21.
apríl síðastliðinn þar sem aðbúnaður þeirra
kvenna sem þurfa um langan veg að fara var
ræddur. Ljóst er í mínum huga að betur þarf
að búa að þeim konum sem þurfa að flytjast
búferlum á meðan beðið er eftir barni. Þær
konur sem hafa áhættuþætti sem gera það að
verkum að mælt er með hátæknisjúkrahúsi
sem fæðingarstað en búa fjarri slíkum stað
þurfa óneitanlega mikinn stuðning og greini-
legt að betur þarf að standa með þeim. Bæði
varðandi húsnæðismál á meðan þær dvelja
fjarri heimili sínu auk þess sem eðlilegt væri
að fá lengingu á fæðingarorlofi í slíkum
tilfellum. Þó má ekki gleyma því að það eru
ekki allar konur með slíka áhættuþætti og vel
væri hægt að bjóða fleiri konum upp á það að
fæða í sinni heimabyggð ef vilji er til. Eins og
með flest er einfalt að skrifa niður hvað væri
gott að gera en margar hliðar eru á málinu
sem þarf að velta upp.
Það er von mín að ekki verði frekari
samdráttur í ljósmæðraþjónustu á lands-
byggðinni og að hún verði aukin frá því
sem nú er, en það er þó að miklu leyti
undir okkur sjálfum komið. Við þurfum
að vera talsmenn þess að slík þjónusta sé
nauðsynleg, tala fyrir því að konur hafi
val. Það verður seint hægt að bjóða þeim,
sem eru með áhættuþætti sem kalla á að
fæðing fari fram þar sem sólarhringsþjón-
usta er á skurðstofu, upp á fæðingu í sinni
heimabyggð ef sú byggð er strjál. Við
gætum þó boðið mun fleiri konum upp á
heimafæðingu, fæðingu á heilsugæslustöð
eða öðrum minni sjúkrastofnunum, ef sátt
næðist um það. Auðvitað er það þó alltaf
val konunnar, sumar myndu án efa velja að
fara lengra og ber það að virða.
Ef við tækjum þá ákvörðun sem stétt að
við vildum bjóða upp á slíka þjónustu þá er
samt ýmislegt sem við þyrftum að huga að í
okkar eigin umræðu. Hver er okkar skoðun,
hvernig setjum við hana fram og af hverju?
Ég tel gott fyrir allar ljósmæður að hugsa
aðeins um það. Erum við að sjúkdómsvæða
barneignarferlið? Ef við treystum því ekki
hverjir gera það þá? Við getum ekki reiknað
með því að almenningur geri það ef við erum
ekki alveg vissar sjálfar. Undanfarið hafa
nýútskrifaðar ljósmæður ekki getað valið úr
störfum en samt sem áður hafa minni staðir
á landsbyggðinni ekkert endilega fengið
ofgnótt umsókna þegar þeir auglýsa eftir
afleysingu eða hafa lausa stöðu. Auðvitað
eru ekki allir í þeim sporum að hafa getu til
að flytjast búferlum með fjölskyldu sína. En
gæti verið að það hafi líka áhrif hvernig við
tölum okkar á milli?
Sjálf hef ég heyrt setningar eins og:
„Hvernig dettur henni í hug að fara beint
út á land, nýútskrifuð — myndir þú nokkuð
gera það? Já það er náttúrulega ekki
hægt að fara strax í heimafæðingar það
þarf reynslu í það fyrst. Þessi kona ætlaði
að fæða heima og svo kemur hún bara í
keisara... Best er að byrja á fæðingargangi
eftir útskrift til að vita hvernig á að bregð-
ast við... Það verða að vera tvær ljósmæður
í heimafæðingu.“ Listinn er endalaus, alls
konar fullyrðingar hafa verið settar fram
sem sá óvissu og ótta, bæði okkar á meðal
og meðal almennings. Á hvaða hugmynda-
fræði byggjum við?
Það er þó margt til í fyrrnefndum setn-
ingum og margar hliðar á þeim en ég velti
því fyrir mér hvort að eitthvað sé mögu-
lega að ef ljósmóðir á aðeins að treysta
sér í sum störf eftir útskrift — kannski er
þá eitthvað sem vantar í námið eða félags-
mótunina! Kenningin um að byrja á því að
öðlast reynslu í að bregðast við öllu sem
getur farið úrskeiðis hefur sín rök. En getur
ekki líka verið að með því að vera mikið
í erfiðum fæðingum til að byrja með fái
ljósmóðir þau skilaboð að náttúrunni sé
erfitt að treysta. Best sé að fæðing fari fram
innan veggja hátæknisjúkrahúss með alla
mögulega sérfræðinga í kallfæri?
Amma (Ása Marinósdóttir) sagði mér
eitt sinn frá því þegar hún fór suður á
Landspítala á námskeið eftir að hafa verið
umdæmisljósmóðir í nokkuð mörg ár og
allt gengið vel. Þegar hún var þar stödd
hugsaði hún með sér að hún yrði að hætta
þessum sveitafæðingum, þetta væri allt
saman stórhættulegt, það gæti svo margt
farið úrskeiðis. Þegar hún kom svo heim
aftur fann hún að það væri allt í lagi og
ákvað að leggja þessar hugsanir til hliðar
og halda áfram að sinna konum heima,
þetta virtist alltaf bjargast.
Þessi saga finnst mér svolítið lýsandi
fyrir stöðuna í dag og það hvernig hugsunin
um fæðingaþjónustu er mótuð. En spurn-
ingin er hvað viljum við og hvað erum við
tilbúnar til þess að gera í stöðunni? Eitt er
víst að ekkert kemur af sjálfu sér. Við ljós-
mæður eigum að mínu mati mörg sóknar-
tækifæri en maður verður víst að taka þátt
til þess að eiga möguleika á að vinna! Það
er enginn annar að fara að tala máli okkar
já eða því að treysta lífeðlisfræði barn-
eignarferlisins ef við hugsum stærra. Við
gætum víkkað út okkar starfssvið, teygt
okkur lengra í ungbarnavernd, tekið meiri
þátt í krabbameinsskoðunum, getnaðarvarn-
arráðleggingum og fleiru. Með því móti
væri hægt að auka þörf fyrir ljósmæður í
smærri byggðarlögum sem gæti auðveldað
það að þétta net ljósmæðra um land allt.
Það gæti mögulega opnað möguleikann á
því að hafa ljósmóður á bakvakt allan sólar-
hringinn í um eða innan við 100 km fjar-
lægð frá öllum konum. Nágrannaljósmæður
gætu þá mögulega aðstoðað hver aðra til að
minnka vaktabyrði og styðja hverja aðra
við að bjóða upp á aukna þjónustu í hinum
dreifðari byggðum.
Það er krefjandi að vera einn á litlum
stað og við verðum umfram allt að bera
virðingu fyrir ákvarðanatöku hverrar og
einnar og muna að það er allt annað að vera
einn á Vopnafirði að taka ákvörðun, t.d. um
að flytja konu í fæðingu, eða vera í vest-
urbæ Reykjavíkur. Það mat sem hver og
ein okkar gerir er ávallt háð stað og stund
miðað við hvað virðist réttast hverju sinni.
Ásrún Ösp Jónsdóttir
ljósmóðir