Litli Bergþór - 01.12.2015, Blaðsíða 14

Litli Bergþór - 01.12.2015, Blaðsíða 14
14 Litli-Bergþór Við hjónin höfðum oft hugsað um að það gæti verið sniðugt að fá svín til gagns og gamans á garðyrkjustöðina okkar. Við höfðum heyrt að þau væru mjög góð til að vinna land sem væri komið í órækt. Einnig héldum við að svín væru alætur og myndu því éta alls konar grænmetisafganga og þannig væri hægt að gjörnýta allt sem til félli. Okkur óx þó alltaf í augum girðingarvinnan sem myndi fylgja þessu, því ekki vildum við eiga á hættu að svínin færu að valsa um allt í Laugarási. Áhyggjurnar af girðingarmálunum hurfu einn góðan veðurdag síðastliðið vor, þegar ég áttaði mig á að við ættum mjög gott svæði fyrir svín á milli gróðurhúsanna tveggja; um 350 fermetra svæði þar sem aðeins þurfti að girða fyrir á einn veg. Þarna mynduðu gróðurhúsin veggi á tvo vegu og það var skjólgirðing á einn veg. Ég nefndi þetta við Ingólf, manninn minn og sagði að ég hefði fengið góða hugmynd. Þegar ég fæ hugmynd þýðir það hjá honum, yfirleitt, að eitthvað hræðilegt sé að fara að gerast og ennþá verra er, ef ég segist hafa fengið góða hugmynd. Hann hlustaði samt á mig og reyndi að malda eitthvað í móinn, nefndi sem dæmi, að grísirnir myndu kannski brjóta glerið í gróðurhúsinu. Ég taldi það seinni tíma vandamál og við myndum leysa það þegar þar að kæmi. Það fór svo að við fengum tvær gyltur, 5 vikna gamlar, frá Laxárdal,10 mínútna langan kúrs í svínarækt og smá fóður í poka. Grísirnir þurftu að vera í sæmilegum hita fyrstu vikurnar og við settum þá í lítið plastgróðurhús og reyndum að hafa þar skyggt svæði til að þeir myndu ekki sólbrenna, en þeir brunnu samt, og þá bárum við á þá aloe vera- Svínarækt á Engi Sigrún Elfa Reynisdóttir: áburð. Grísirnir reyndust ekki vera alætur. Þeir vildu varla grænmetið. Tómata átu þeir þó og lífræna ávexti sem ég fékk á Akri. Í byrjun þurfti að saxa allt smátt fyrir þá og sjóða grænmetið. Þegar grísirnir komu fyrst inn í gróðurhúsið byrjuðu þeir að róta með trýninu í moldinni og eftir daginn voru þeir búnir að snúa við moldinni í stórum hluta hússins og voru alveg uppgefnir. Þannig sá maður hvað það er sterkt í eðli þeirra að róta í jörðina og hvað það veitti þeim mikla ánægju. Grísirnir urðu strax eftirlæti alls starfsfólksins á Engi og það var ákveðið að hafa keppni til að finna á þá nöfn. Við sögðum stolt frá hamingjusömu grísunum okkar og nafnakeppninni á Facebook-síðunni okkar „Lífrænn grænmetismarkaður á Engi“. Þá komu okkur til mikillar furðu fram margar grænmetisætur sem voru ekki ánægðar með þetta og töluðu um að hætta að versla við Engi vegna þess að við héldum svín. Þarna komu einnig fram uppástungur um nöfn á svínin á borð við Hádegismatur og Kvöldmatur eða nr. 1 og nr. 2 eftir þeirri röð sem þau færu í sláturhúsið. Þarna held ég að fólk hafi aðeins gleymt hringrás lífsins, því þegar grænmeti er ræktað með lífrænni ræktun þarf alltaf að nota einhvern búfjáráburð og þá þarf að halda einhver dýr til þess. Líðan dýranna á meðan þau lifa skiptir líka miklu máli. Margar góðar uppástungur komu að nöfnum, en að endingu voru valin nöfnin Jarðarber og Kirsuber á gylturnar litlu. Jarðarber var strax miklu frekari en Kirsuber og við urðum því að gefa þeim mat í tvo dalla til að Kirsuber fengi nóg að éta. Þegar búið var að gera skýli fyrir grísina á milli gróðurhúsanna var ákveðið að færa þá á nýja staðinn. Planið var að binda band um magann á þeim og síðan átti að teyma þá á nýja svæðið. Það tókst að binda bandið um svínin, en lengra komumst við ekki með það plan. Grísirnir vildu alls ekki láta teyma sig eitt eða neitt, öskruðu og hrinu svo ógurlega og hristu sig og stóðu alveg þverir og fastir fyrir og ekki hægt að hnika þeim. Það var eins og við værum að murka úr þeim líftóruna. Vinnukonan mín, hún Tanja, tók þá til sinna ráða og greip annan grísinn og bar hann yfir í sælureitinn og svo var hinn grísinn borinn þangað líka, en hljóðin voru ægileg.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.