Litli Bergþór - 01.12.2015, Blaðsíða 32

Litli Bergþór - 01.12.2015, Blaðsíða 32
32 Litli-Bergþór sérstöku uppáhaldi hjá mér. Ég man eftir því fyrsta haustið okkar, að ég fór út í fjós að sækja mjólk og Bragi bað mig um að gefa hrútunum. Ég hafði aldrei kynnst hrútum. Það þurfti að fara upp í króna til þeirra til að gefa þeim og mér leist ekkert á þá, svo ég kastaði tuggunum upp í jötuna til þeirra. Þeir voru örugglega alveg steinhissa á þessu háttalagi. En seinna urðu þeir bestu vinir mínir. Sérstaklega hrúturinn Habakkuk (hann hét eftir spámanni í biblíunni). Ég var að vinna í sláturhúsinu í Laugarási seinna, þegar Bragi kom með fé til slátrunar og þar á meðal var vinur minn Habakkuk. Þegar hann sá mig við réttina, kom hann til mín blessaður og þar kvaddi ég hann. Lífið í sveitinni var auðvitað talsvert öðruvísi en ég var vön. Þessi einangrun, að geta ekki haft samband við vinina í bænum. það var sveitasími og ekki hægt að segja neitt sem máli skipti í símann og það voru fá tækifæri til að komast að heiman. Mér finnst það hafa verið meira mál að flytja austur þá, en það er nú að flytja til útlanda. Ég var vön hrærivél og kæliskáp, sem mamma og pabbi höfðu útvegað sér frá Bandaríkjunum, en það voru ekki slík þægindi fyrir austan, enda ekki komið veiturafmagn. Þegar við fluttum var heldur ekki nóg af góðu vatni, það var svokallaður „hrútur“ fyrir neðan brekkuna, sem dældi vatni upp í ker hér uppi á lofti og þaðan var sjálfrennandi vatn. Nokkrum árum eftir að við fluttum var svo lögð vatnslögn ofan af Fellsfjalli. - Nafnið Vatnsleysa þýðir í raun vatnsengi, eða staður sem losar vatn. Ekki að það vanti vatn. Það var ljósavél hér, sem var sameiginleg fyrir báða bæina svo við höfðum ljós þar til slökkt var á kvöldin. En veiturafmagnið kom ekki fyrr en fyrir jólin 1962. Eldavélin var Aga-koksvél, sem var alveg yndisleg, því hún hitaði svo vel upp húsið. Við böðuðum oft börnin í ylnum fyrir framan hana. En það mátti ekki drepast í henni, því þá var mjög erfitt að kveikja upp í henni aftur. Síðasta verk á kvöldin var alltaf að hræra í brauð fyrir morgundaginn og það var gott að fá nýbakað brauð að morgni. Í fyrsta sinn sem Ágústa fór í frí, gleymdi ég að bæta á vélina um kvöldið svo það var dautt í henni morguninn eftir. Ég skil ekki enn hvernig mér tókst að koma upp glóð í henni, en það tókst að lokum. Einfalt hefði verið að fara til Stínu í Vesturbænum og fá glóð hjá henni, en ég var of þrjósk til þess. En þetta kom ekki fyrir aftur! Þarna var líka kola þvottapottur og þegar ég ætlaði að þvo fyrir mig í fyrsta sinn, ætlaði tengdapabbi að hjálpa mér að kveikja upp, en þá var ég búin að því, því ég hafði reynslu af því að kveikja upp frá því í sumarbústaðnum hjá mömmu og pabba. Maturinn var mikið saltkjöt og saltfiskur, það var bundinn spotti í sporðinn á saltfiskinum og svo var farið með hann niður í gil í afvötnun. Daginn eftir var hann soðinn. Hér var ekkert sem hét nýr fiskur, hann var fluttur uppeftir með mjólkurbílnum á opnum palli og lá þá oft í sólinni. En við vorum með frystihólf í sláturhúsinu á Selfossi, þar sem var geymt kjöt, hálfsoðið slátur o.fl. Þessar vörur var svo hægt að fá sendar með mjólkurbílnum uppeftir. Súrmatur var ekki notaður því Þorsteinn var ekki hrifinn af honum. Kökubaksturinn var eitt. Ég hafði ekki áður kynnst þessari óskaplegu kökuneyslu sem tíðkaðist í sveitinni og fannst hún skrítin. Þessi eilífi bakstur og nauðsyn þess að hafa allt til alls þegar gestir komu. Þinghúsið var enn notað fyrsta árið mitt fyrir austan og þá voru allir, sem mættu þar á fundi, í mat og kaffi hjá okkur. Þegar böll voru komu líka hljómsveitirnar inn í kaffi eftir böllin, sem var spennandi þó það kostaði vökur! Það var rafstrengur frá díselstöðinni í þinghúsið til ljósa. Við byrjuðum á því að búa inni á foreldrum Braga með Ingu Birnu, en árið 1963 innréttuðum við risið og fluttum þar upp þegar Ragnheiður fæddist. Þorsteinn fæddist svo 1967 og Kristrún 1976. Það var mikill Ágústa bætir koksi í Aga-eldavélina.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.