Litli Bergþór - 01.12.2015, Blaðsíða 36

Litli Bergþór - 01.12.2015, Blaðsíða 36
36 Litli-Bergþór Þegar horft er frá Höfða yfir Hrosshagavíkina í átt að Reykholti þá blasir við manni svolítill skógarreitur stutt frá bæjarhúsunum á Reykjavöllum. Framan af vakti þetta mér ekki mikla forvitni, enda skógarreitir ekki óalgengir vítt og breitt um héruð. Fyrir nokkuð mörgum árum komst ég síðan að því að þessi skógarreitur hefði að geyma nýbýli úr landi Torfastaða/Vegatungu sem heitir Rimi. Ekki var ég mikið nær enda eðli skógarreita að maður sér ekki það sem leynist innan þeirra og lengi var þessi reitur mér jafn framandi og regnskógar Amason. Tíminn leið og á endanum komst ég að því hvaða fólk ætti þetta land og varð því málkunnug. Svo kom að því einn daginn að ég átti erindi heim að Rima vegna þess að svo hafði talast til milli mín og húsfreyjunnar á bænum að ég fengi hjá henni landnámshana til að kynbæta stofninn hjá mér. Það var tekið vel á móti mér og húsfreyjan, sem heitir Elín Siggeirsdóttir, fór með mig í leiðangur um eignina. Þar var þá að finna nokkur býflugnabú, gróðurhús og tvær skemmur, auk íbúðarhússins og svo auðvitað hænsnakofans sem minn tilvonandi kynbótahani var geymdur í. Við innkeyrsluna að Rima má líka sjá forláta bifreið sem nú þjónar þeim tilgangi að veita gæsum og öndum skjól fyrir vondum veðrum og öðru sem gæsir og endur vilja leita sér skjóls fyrir. Mér fannst ákaflega skemmtilegt að ganga um þetta skóglendi þar sem maður sér ekkert nema tré og svo allt í einu birtist eitthvað sem maður hafði ekki hugmynd um að væri þarna. Enda bý ég á mínum hól þar sem víðsýnt er til allra átta og fátt um tré. Þegar kynnisferðinni var lokið tók ég nýja hanann minn undir hendina, snaraðist inn í bílinn minn og ók glöð og ánægð heim á leið. Eftir þessa heimsókn langaði mig að vita meira um þetta býli og ábúendur þar og falaðist því eftir viðtali fyrir Litla-Bergþór og var það auðsótt mál. Hvernig landspildan kom til sögunnar og af Eiríki presti og börnum hans Eins og margir eldri Tungnamenn vita, og jafnvel töluvert margir yngri líka, þá voru Eiríkur Þ. Stefánsson (1878-1966) og Sigurlaug Erlendsdóttir (1878-1966) prestshjón á Torfastöðum allt til ársins 1955. Þau hjón eignuðust tvö börn; soninn Þórarin Stefán (1908 – 1926) og dótturina Þorbjörgu. Hún var fædd 20. september 1913 og dó á sínu 91. aldursári 2. janúar 2004. Árið 1955 hætti séra Eiríkur prestsskap. Það var venja í þá tíð að fráfarandi prestur fengi í sinn hlut „Kannski að við reynum bara fyrir okkur í refabúskap“ Viðtal við Elínu Siggeirsdóttur á Rima Svava Theodórsdóttir: hjáleigu prestssetursins til ábúðar. Á þessum tíma var Torfastaðakot, sem nú heitir Vegatunga, hjáleiga Torfastaða. Þetta hugnaðist prestshjónunum ekki en fengu í staðinn fimm hektara landspildu neðarlega í landi Torfastaða/Vegatungu neðan Reykjavalla. Þessi spilda var gerð að erfðafestulandi, en það er land sem leigt er með óuppsegjanlegum samningi og leigurétti sem erfist eins og aðrar eignir að uppfylltum vissum skilyrðum. Spildan var valin með tilliti til þess að rétt við hana er heitur hver sem þau fengu afnotarétt að og var því spildan ákjósanleg til að þar væri hægt að reisa garðyrkjubýli. Þau voru þá fyrst og fremst með dóttur sína, Þorbjörgu og mann hennar í huga. Þorbjörg giftist 3. júní 1943, Ásgrími Jónssyni, frá Ytri-Húsabakka í Skagafirði, (1917-1986). Hann var menntaður garðyrkjufræðingur og kynntust þau þegar hann var að vinna á Syðri-Reykjum. Þau bjuggu til að byrja með á Torfastöðum og eignuðust þar þrjú börn: Guðrúnu Erlu (f. 1944-1997), Stefán (f. 24. júlí 1946) og Konráð, (f. 19. júní 1951). Árið 1952 fluttu þau síðan að Laugarvatni og þar bættist Eiríkur í hópinn (f. 1952-1975). Á Laugarvatni sá Ásgrímur um garðyrkjustöð sem var í eigu skólanna á staðnum. Þau, byggðu sér hús á Laugarvatni með lítilli íbúð í austurenda. Í þá íbúð fluttu Sigurlaug og Eiríkur eftir að Eiríkur hætti prestsskap og þar bjuggu þau á meðan ævin entist þeim. Þorbjörg og Ásgrímur fluttu til Reykjavíkur árið 1972. Ásgrímur dó 69 ára að aldri svo aldrei varð af því að þau nýttu sér landskikann góða undir garðyrkjubýli. Hjónin á Rima, Elín Siggeirsdóttir og Konráð Ásgrímsson.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.