Litli Bergþór - 01.12.2016, Síða 39

Litli Bergþór - 01.12.2016, Síða 39
Litli-Bergþór 39 hann keypti eftir alþingishátíðina 1930. Sennilega var hann þó bara eitt ár með aðstöðuna hér heima en flutti hana síðan upp að Gullfossi og var með hana eitt sumar þar, áður en Sveinlaug tók við. Þessi Sveinlaug rak áður Hótel Hafnarfjörð. Hvernig sem upphafinu var háttað, sá Sveinlaug um veitingarekstur við Gullfoss þar til um 1950, þá komin um sjötugt. Fljótlega 1934 eða 1935 tóku þau hjón í notkun veitingaskálann sem þau byggðu á pallinum fyrir sunnan fossinn. Árið 1936 var skálinn síðan stækkaður og tók þá um 100 manns í sæti, að sögn blaðs sem ekki lýgur. Þá var skálinn kominn í þá mynd sem sjá má á ljósmyndinni sem hér fylgir. Þegar Sveinlaug hætti aðkomu að rekstrinum tók Sigríður Björnsdóttir (1906-1977) við honum og hafði síðan reksturinn með höndum þar til yfir lauk haustið 1969, að því er virðist. Njörður í Brattholti man fyrst eftir veitingaskálanum þegar hann kom að Brattholti 1949 til sumardvalar, þá 7 ára. Hann hafði þá og síðar meðal annars þann starfa með höndum að fara með mjólk að Gullfossi. Lára í Brattholti starfaði í veitingaskálanum sumarið 1965 og Kristín Hólmgeirsdóttir, síðar í Einiholti sumarið eftir. Eflaust hafa fleiri núlifandi Tungnamenn komið að starfsemi þessa veitingaskála með einum eða öðrum hætti. Skálinn var opnaður á vorin þegar vegurinn varð fær, en það var stundum ekki fyrr en um eða eftir miðjan júni. Þessi vegur var harla lélegur og þegar frostið var að fara úr honum mynduðust hvörf í hann og hann varð af þeim sökum kolófær á skammri stund. Síðan var skálinn opinn fram á haustið, eða 2-3 mánuði. Yfir hásumarið var ávallt mikil umferð ferðafólks að fossinum og sérstaklega er Nirði minnisstætt þegar endalausar raðir af leigubílum óku hjá í rykmekki. Það mun helst hafa verið þegar skemmtiferðaskip komu til Reykjavíkur. Í veitingaskálanum störfuðu 5-6 stúlkur og Lára telur að þar hafi verið sæti fyrir um 50 manns. Gestum stóð til boða að kaupa mat og bakkelsi og var allt unnið á staðnum. Lára minnist þess, þegar þetta ber á góma, að bóndasonurinn Bragi á Vatnsleysu kom til þeirra með nautsskrokk í heilu lagi, sem síðan var unninn ofan í gestina. Rafmagn var framleitt með ljósavél og vegna hávaða í henni var oft slökkt á henni á kvöldin. Ef hún bilaði voru nágrannar kallaðir til, t.d Óskar á Brú eða Trausti í Einiholti. Neysluvatnið var leitt í skálann með lögn sem lá ofanjarðar og í hitum á sumrin myndaðist stundum loft í lögninni og allt varð vatnslaust, sem, eins og nærri má geta, gat verið bagalegt. Allur þvottur sem til féll var þveginn í höndum og hengdur til þerris fyrir utan skálann. Það var svo undir hælinn lagt hvernig það fór, því oft voru vandræði vegna moldroks austan yfir ána, þegar þannig viðraði. Bakhlið skálans var ekki langt frá gljúfrinu og þau Njörður og Lára muna ekki betur en allur úrgangur hafi farið þar fram af, enda viðhorf til umhverfismála nokkuð önnur en nú. Ferðamennirnir sendir út í móa Það er í sjálfu sér allt í lagi, þó að Gullfossskálanum hafi verið lokað, en það er afleitt, að salernunum á staðnum var lokað um leið, sagði einn ferðaskrifstofumaður í viðtali við Vísi í tilefni þess, að erlendir ferðamenn eru nú sendir í hópum út í móa við Gullfoss, ef þeir þurfa á því að halda. Gullfossskálanum var lokað fyrirvaralaust um síðustu helgi, hlerar settir fyrir glugga og hurðir, en eigandi mun ekki hafa talið hagkvæmt að halda rekstrinum áfram í sumar. Ferðaskrifstofurnar, sem senda í sameiningu ferðamenn nær daglega til Gullfoss og Geysis eru nú að reyna að fá salernin aftur opnuð, en þær telja salernin ekki í einkaeign eiganda Gullfossskálans, þar sem opinber styrkur hafi fengizt til að reisa þau. Vísir, 14. ágúst, 1969 Með lokun veitingaskálans við Gullfoss hófst ný og all átakamikil saga, en henni verða ekki gerð skil hér og nú, hvað sem síðar kann að verða. Heimildir: Njörður Jónsson og Lára Ágústsdóttir í Brattholti, bæði viðtal í Litla Bergþór, 2. tbl. 2002 og heimsókn til þeirra í nóvember, 2016. Samtímaumfjöllun í dagblöðum og tímaritum af ýmsu tagi, sem finna má á vefnum timarit.is

x

Litli Bergþór

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.