Litli Bergþór - 01.12.2016, Blaðsíða 40

Litli Bergþór - 01.12.2016, Blaðsíða 40
40 Litli-Bergþór Veðrið í sumar og haust. Sumarið heilsaði með góðu gróðrarveðri í júní og almennt var þetta gott sumar og gjöfult og frekar þurrt. Stundum svalt á nóttum í júlí, en oftast hlýtt í sólinni á daginn og smáskúrir ef einhver úrkoma var. Sérstaklega milt og blítt veður var í ágúst. Haustið var líka gott og hlýtt, skúraveður í september nema þurrt síðustu vikuna. Í október og nóvember komu nokkrar myndarlegar haustlægðir með hvassviðri og töluverðri rigningu inn á milli. Einhverjar frostnætur voru í nóvember, en hiti annars oftast rétt ofan við frostmark og snjólaust. Í desember rigndi mikið. Refaveiðar. Samkvæmt Magnúsi Kristinssyni, refaskyttu í Austurhlíð, var legið á 15 grenjum í júní og júlí í sumar, en tvö gren til viðbótar höfðu verið yfirgefin. Voru 4 gren ofan byggðar, en hin öll í byggð. Fjögur þessarra grenja voru ný. Náðu þeir samtals 71 dýri, þar af 20 fullorðnum grendýrum, 4 hlaupadýrum og 47 yrðlingum. Auk þess náðu aðrir að fella fjögur hlaupadýr og tvo yrðlinga til viðbótar. Fjölskylduhátíðin Tvær úr Tungunum var haldin í ágúst. Var margt um að vera að venju: Gröfuleiknin var á sínum stað og vann Gretar Grímsson á Syðri-Reykjum hana í fjórða sinn. Fornbílar og traktorar settu skemmtilegan blæ á svæðið og ýmislegt var í boði fyrir yngri kynslóðina. Uppsveitahringurinn var bæði hjólaður og hlaupinn og haldið var krakkahlaup í tengslum við hann. Sú nýbreytni var að opið var í skúrnum hjá Guðna Lýðssyni í Kistuholtinu þar sem hann og fleiri unnu á spunavél, vefstól og rokk. Leikhópurinn Lotta var með sýningu, hoppu-kastalar voru á svæðinu og loftboltar. Kvenfélagið hélt markað í Aratungu og seldi hátíðargestum kaffi. Um kvöldið lék hljómsveit Geirmundar Valtýssonar fyrir dansi í Aratungu. Veðrið var hið þokkalegasta og tóku íbúar í Reykholti sig til og voru með skreytingar í hverfum sínum. Tillaga kom um að skreyta á einhvern hátt víðar í Tungunum en ekki varð úr því að þessu sinni. Ottó Eyfjörð Jónsson er nýr starfsmaður framkvæmda- og veitusviðs Bláskógarbyggðar. Hann býr á Laugarvatni Þegar hafin var viðhaldsvinna við leikskólann Álfaborg í sumar kom í ljós að raki og mygla grasseraði í húsnæðinu. Starfsemi leikskólans var því flutt í húsnæði Bláskógaskóla í Reykholti og skyldi vera þar á meðan á viðgerðum stæði. Sveitarstjórn skipaði vinnuhóp í framhaldi af þessu um framtíðarfyrirkomulag húsnæðismála leikskólans. Í kjölfarið var tekin sú ákvörðun á fundi sveitarstjórnar að leikskólinn verði í grunnskólanum þar til uppbyggingu nýs húsnæðis lýkur. Þar sem töluvert af búnaði og leikföngum leikskólans eyðilagðist efndu Foreldrafélag leikskólans og Kvenfélag Biskupstungna til styrktarkvölds þann 27. október. Samkoman, sem jafnframt var 30 ára afmælishátíð leikskólans, skartaði glæsilegri tónlistardagskrá, uppboði og kaffiveitingum í umsjá kvenfélagsins. Söfnuðust þó nokkrir fjármunir þó svo aðsókn væri heldur slakari en vonast var til. Umhverfisverðlaun Bláskógabyggðar voru afhent á Tveim úr Tungunum og að þessu sinni féllu þau í skaut þeim Ingólfi Guðnasyni og Sigrúnu Elfu Reynisdóttur fyrir garðyrkjustöðina á Engi. Þar hafa þau stundað lífræna ræktun í mörg ár og selja vörur sínar heima á sumrin. Auk þessa eru þau með fallegan lækninga- og kryddjurtagarð, völundarhús sem mótað er af limgerði og berfótastíg þar sem fólk getur upplifað að ganga berfætt á margskonar undirlagi. Bláskógaskóli var settur 23. ágúst. Í Bláskóga- skóla í Reykholti eru 74 nemendur og 28 í leikskólanum Álfaborg. Á Laugarvatni eru 48 í grunnskóladeild og 21 í leikskóladeild. Samtals eru því 171 nemandi í leik og grunnskóla Bláskógabyggðar Tungnaréttum var flýtt um eina viku í haust og voru þær haldnar laugardaginn 10. september. Var það gert vegna þess að sláturleyfishafar ákváðu að álagsgreiðslur yrðu hæstar á tímabilinu 31. ágúst til 16. september. Stefnt er að því að Tungnaréttir verði eftirleiðis annan laugardag í september. Hvað segirðu til? Helstu fréttir úr Tungunum seinni hluta árs 2016 Leitaði um allt að þessum tveimur úr Tungunum sem voru í myndbandinu en fann þær ekki. Þær voru svo ansi laglegar. Ottó Eyfjörð Jónsson.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.