Morgunblaðið - 25.10.2018, Side 61
MINNINGAR 61
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 25. OKTÓBER 2018
höfðu keypt þar. Það sýndi sig
síðan þegar þú stofnaðir Thors-
hip 2007, rétt fyrir hrun, að þú
hugsaðir ávallt stórt og lést ekk-
ert stoppa þig. Allar hrakspár
léstu sem vind um eyru þjóta,
hélst þínu striki. Afraksturinn er
vel rekið fyrirtæki með marga
starfsmenn. Það kom þá ekkert
annað til greina en að ég hæfi
störf hjá þér og varð vinátta okk-
ar enn sterkari.
Kalli vildi ekki láta koma sér á
óvart því allt varð að vera 100%
og þær kröfur gerði hann mest
til sjálfs sín. Hann var hreinn og
beinn, sagði hlutina eins og þeir
voru og ekki áttu allir auðvelt
með að þola það. Þessir eiginleik-
ar hans komu honum áfram og
maður vissi alltaf hvar maður
hafði hann og það var ein ástæða
þess hve vinátta okkar var ein-
læg. Hann var ekki mikið fyrir
blaður og hélt hlutum mikið út af
fyrir sig og var þess vegna
stundum kallaður „The secret
service“.
Við náðum ávallt vel saman og
með tímanum þróaðist með okk-
ur einstök vinátta og bættust
konur okkar síðan við og hefur sá
vinskapur haldist alla tíð síðan.
Sameiginlegt áhugamál, veiði og
síðar golfið, styrkti vináttuna
enn frekar. Þrátt fyrir mikla
vinnu var fjölskyldan honum
mikils virði og hann passaði alltaf
upp á að þau hefðu það gott og
liði vel. Kalli var kominn á þann
stað að hann var byrjaður að
njóta lífsins með Láru sinni og
það var eitt af því sem hann
kunni svo sannarlega að gera og
var t.a.m. mikill matgæðingur.
Hugur minn og fjölskyldu
minnar er hjá fjölskyldu þinni,
elsku vinur, og mikið vildum við
að við gætum linað þeirra sáru
sorg. Elsku Lára, sem alla tíð
hefur staðið eins og klettur við
hlið þér, börnin þín Hörður,
Haukur og Auður, tengdabörn
og barnabarn sem þú varst svo
stoltur af munu ekki fá að njóta
þín í framtíðinni og eftirlifandi
foreldrar, sem manni finnst að
aldrei eigi að þurfa að horfa á
eftir barni sínu til hinstu hvílu.
Við biðjum Guð að gefa fjöl-
skyldu Kalla og vinum styrk á
þessum skelfilega erfiðu tímum.
Elsku vinur, ég gæti skrifað
svo margt fleira og minningarnar
svo ótal margar en læt hér staðar
numið.
Far í friði, vinur minn.
Hjörleifur Hjörleifs-
son, Laufey Stefáns-
dóttir og börn.
Fallinn er frá gamall og góður
vinur, Karl Harðarson, langt fyr-
ir aldur fram. Hann var um
margt merkilegur maður; ein-
staklega geðgóður og skemmti-
legur félagi sem laðaði fólk að
sér – var sannarlega hrókur alls
fagnaðar þegar sá gállinn var á
honum.
Kalla kynntist ég fyrst í gegn-
um KR og Vesturbæinn en að-
allega þó þegar við gengum báðir
í Verslunarskóla Íslands á átt-
unda áratug síðustu aldar í hópi
góðra vina. Mér er óhætt að
segja að þessi ár hafi haft afger-
andi áhrif á alla þá sem sóttu
skólann á því tímabili og bundið
fólk saman traustum vináttu-
böndum. Auðvitað tvístraðist
hópurinn um síðir í allar áttir
eins og lög gera ráð fyrir en eftir
stóðu minningar sem oft voru
rifjaðar upp þegar fundum okkar
bar saman.
Ég var svo heppinn að vera
bekkjarfélagi lífsförunautar
Kalla, Ragnheiðar Láru Jóns-
dóttur, og einhvern veginn
fannst manni þau vera sköpuð
fyrir hvort annað; bæði sérlega
hláturmild, glaðlynd og heil-
steyptar manneskjur. Ég var
alltaf sannfærður um að líf
þeirra saman yrði farsælt. Kalli
hafði lag á fólki, kom sér alls
staðar vel og samferðamönnum
hans fannst gott að hafa hann í
kringum sig. Hann var ekki að-
eins gæfumaður í leik og starfi
heldur einnig góður liðsmaður
hvort sem það var á íþróttavell-
inum, í skóla, sem fjölskyldumað-
ur eða í vinnu. Æskuheimili hans
á Kaplaskjólsveginum var reglu-
legur áningarstaður á leið okkar
út og suður og þar mættu okkur
foreldrarnir með opinn faðm –
alltaf kát og hress. Ekkert fór á
milli mála að þau voru stolt af
sínum manni. Ég minnist umtals-
fróms manns sem aldrei fór í
manngreinarálit. Ég minnist vin-
ar í raun.
Ég votta Ragnheiði Láru og
börnum þeirra mína dýpstu sam-
úð sem og foreldrum Kalla, þeim
Herði og Geirlaugu, og Bryndísi
systur hans. Ég sakna vinar í
stað.
Sigurður Gylfi Magnússon.
Mig setti hljóðan þegar ég
frétti af láti góðs vinar og félaga.
Leiðir okkar Karls lágu fyrst
saman fyrir 30 árum þegar hann
starfaði hjá stórflutningadeild
Eimskips, en ég vann þá hjá
ÍSAL í Straumsvík m.a. við
flutninga fyrirtækisins til og frá
landinu.
Margir fundir vegna samninga
bæði heima og erlendis á árum
áður milli fyrirtækjanna eru mér
minnisstæðir, oft var hart tekist
á um ýmis atriði en alltaf fóru
menn sáttir frá borði að lokum.
Fljótlega eftir að Karl hætti
hjá Eimskip árið 2006 og stofnaði
sitt eigið fyrirtæki, ThorShip,
hófst samstarf okkar við breyt-
ingar á flutningum álversins sem
fólust í því að reka og eða leigja
tvö sjálfstæð skip sem önnuðust
alla flutninga ÍSAL til og frá
landinu, utan súrálsflutninga.
Það var mikið lán fyrir mig að
kynnast Karli og lærði ég mikið
af honum bæði um skipakost,
flutninga og ekki síður í mann-
legum samskiptum, einkum við
samningagerð þar sem lagni
hans við viðskiptavinina naut sín
afar vel.
Heiðarleiki og háttprýði voru
Karli í blóð borin og fann ég það
oft á viðsemjendum okkar hvað
þeir mátu hann mikils.
Ég veit að ég mæli fyrir munn
margra hjá ÍSAL sem kynntust
Karli að hans verður sárt saknað.
Ég votta Ragnheiði Láru,
börnum þeirra og fjölskyldu
mína dýpstu samúð.
Þórarinn Sófusson.
Kynni okkar Kalla hófust í
Versló og síðan vissum við af
hvor öðrum í gegnum tíðina eftir
að hann byrjaði hjá Eimskip, en
hægt er að segja að kynnin hóf-
ust af alvöru þegar ég hóf störf
hjá ThorShip í mars 2009. Þá
voru Kalli og Bjarni nýbyrjaðir
með ThorShip og fengu mig til
liðs við sig. Okkar vinskapur og
samstarf hefur alltaf verið gott í
gegnum árin. Oft var grínast
með að við værum gömlu menn-
irnir í fyrirtækinu. Við höfum
gert ýmislegt í gegnum tíðina
með vinnufélögunum og var frá-
bært þegar hópurinn fór saman
til Bretlands á þessu ári eins og
við höfum gert undanfarin ár
innanlands. Nutum við þess að
vera saman og njóta lífsins. Lára
og Kalli voru byrjuð í golfi og var
það okkur hjónum mikil gleði að
geta boðið þeim með okkur í
Öndverðarnes í sumar til að spila
með okkur. Vorum búin að tala
um að gera þetta aftur en fljótt
skipast veður í lofti. Ekki átti ég
von á því þegar þú fórst til Spán-
ar í frí með Láru að við myndum
ekki sjást oftar. Takk, Kalli, fyrir
mjög góð viðkynni og vinskap.
Ég vil gjarnan lítið ljóð
láta af hendi rakna.
Eftir kynni afargóð
ég alltaf mun þín sakna.
(Guðrún V. Gísladóttir)
Elsku Lára og fjölskylda. Ég
og Unnur sendum þér og þínum
innilegar samúðarkveðjur á
þessum erfiðu tímum.
Valgeir.
Kalli Harðar, vinur minn og
samstarfsmaður, er fallinn frá,
þessar ömurlegu fréttir bárust
mér föstudaginn 5. október. Ég
kynntist Kalla þegar við vorum
um svipað leyti gerðir að for-
stöðumönnum hjá Eimskip er-
lendis, hann hjá Eimskip í Nor-
egi og Svíþjóð og ég í Danmörku.
Fyrstu kynni af fjölskyldu
hans voru þegar þau hjónin og
krakkarnir komu til Árósa og
gistu hjá okkur Fanneyju
skömmu fyrir jólin 2002.
Við fjölskyldan fórum svo til
þeirra til Fredrikstad sumarið
eftir og tóku Kalli og Lára á móti
okkur með kostum og kynjum.
Kalli var höfðingi heim að sækja
eins og allir vita sem voru þeirr-
ar gæfu aðnjótandi að kynnast
honum. Með okkur fjölskyldun-
um tókust frá fyrstu kynnum
sterk vinabönd.
Kalli stofnaði Thorship um
áramótin 2006-2007 nokkrum
mánuðum síðar hafði hann sam-
band við mig og bauð mér að ger-
ast meðeigandi í Thorship. Ég
var á þessum tíma nýlega fluttur
heim með fjölskylduna frá Bret-
landi og var að byggja hús og
með fjórðu stelpuna á leiðinni.
Ég þurfti ekki að hugsa mig um,
sagði við hann „ég er klár í slag-
inn“, svo mikið traust bar ég til
Kalla.
Maður hittir ekki marga menn
eins og Kalla um ævina, líklega
var hann einstakur. Framsýnn,
duglegur en umfram allt skyn-
samur og stálheiðarlegur.
Við hófum siglingar á milli
Rotterdam og Straumsvíkur
sumarið 2008, korter í hrun. Svo
kom hrunið og við sátum tveir á
Selhellu 13, sem við höfðum
skömmu áður tekið á leigu,
horfðum hvor á annan og sögð-
um: hvað höfum við komið okkur
út í núna? Að leggja árar í bát
kom ekki til greina því uppgjöf
var ekki til í orðabók Kalla.
Kalli var einn sá traustasti og
skipulagðasti maður sem ég hef
hitt, hann hugsaði fyrir öllu.
Hann var hreinskilinn og tal-
aði ómengaða íslensku þegar það
átti við. Ég hef lært mikið af hon-
um þau ár sem við störfuðum
saman og er það mikil gæfa fyrir
mig að hafa fengið að kynnast
honum.
Kalli var mikil félagsvera, var
vel liðinn alls staðar, þekkti
marga og naut trausts. Passaði
vel upp á þá sem stóðu honum
næst, sannkallaður foringi og al-
gjör klettur.
Kalli var gríðarlega ósérhlíf-
inn og hræddist aldrei að taka
slaginn. Hann valdi sína sam-
ferðamenn af kostgæfni og við
sem eftir stöndum búum að því á
þessum erfiðu tímum.
Það var gaman að vera með
Kalla, við hjónin fórum með hon-
um og Láru í margar ógleyman-
legar utanlandsferðir og eigum
við yndislegar og dýrmætar
minningar úr þeim ferðum.
Missir okkar sem fengum að
kynnast Kalla er mikill og skilur
hann eftir sig stórt skarð.
Það eru forréttindi og heiður
að hafa fengið að kynnast þér og
eiga samleið með þér sl. 10 ár í
blíðu og stríðu, elsku vinur.
Þinna krafta er nú óskað á
æðri stöðum, ég hugga mig við
góðar minningar, megi Guð gefa
Láru og fjölskyldunni styrk í
þessari miklu sorg.
Það er komið að leiðarlokum
hjá okkur, kæri vinur, megi góð-
ur Guð geyma þig.
Þinn vinur að eilífu,
Bjarni Hjaltason.
Kveðja frá
Píluvinafélagi KR
Ljúfur drengur hefur lagt upp
í ferðalagið sem okkur sem lifum
á þessari jörð er öllum ætlað og
ekki verður umflúið, en í þetta
sinn var það alltof fljótt. Karl
Harðarson vinur minn lést
skyndilega þann 5. október sl. 59
ára að aldri.
Kalli var eðal KR-ingur og
fékk það með móðurmjólkinni en
foreldrar hans, sómahjónin
Hörður Sófusson og Geirlaug
Karlsdóttir, voru bæði keppnis-
fólk með KR. Hann í yngri flokk-
unum í fótbolta og hún mark-
vörður í meistaraflokki og
landsliðskona í handbolta.
Eftir að þau hættu keppni
hafa þau bæði starfað mikið fyrir
KR í ýmsum stjórnum og nefnd-
um þannig að Kalli átti ekki
langt að sækja KR áhugann.
Hann æfði og keppti í fótbolta
og handbolta með félaginu alla
yngri flokka og eftir að hann
hætti keppni hefur hann tekið
virkan þátt í ýmsu félagsstarfi.
Þegar pílan byrjaði í KR fyrir
margt löngu varð hann strax
virkur þar, duglegur að taka þátt
í mótum og náði fljótt góðum tök-
um á íþróttinni og varð einn af
betri pílukösturum félagsins.
Píluvinir fóru nokkrar ferðir
til Bretlands hér á árum áður til
að kasta pílu og skreppa á völlinn
og fór Kalli þær flestar og betri
og skemmtilegri ferðafélaga var
vart hægt að hugsa sér.
Hann stýrði Píluvinafélaginu
2007-2013 og var aðaldriffjöðurin
í árlegum kúttmagakvöldum
Píluvina og tók þar svo sannar-
lega til hendinni, bæði í undir-
búningi og framkvæmd og fyrir
það er þakkað í dag.
Eftir nám í Verslunarskólan-
um hóf hann störf hjá Eimskip.
Þar vann hann í nokkur ár og var
m.a. yfir skrifstofu félagsins í
Noregi um skeið.
Síðar stofnaði hann flutninga-
félagið Thorship hf. og stýrði því
af miklum myndarbrag. 2014
færði hann svo enn frekar út kví-
arnar og stofnaði flutningafyrir-
tæki í Hollandi. Þetta var auðvit-
að krefjandi vinna og henni
fylgdu mikil ferðalög og álag.
Kalli var gæfumaður í einka-
lífinu, átti góða foreldra og syst-
ur, yndislega konu, mannvænleg
börn og nú nýlega fæddist fyrsta
barnabarnið.
Þau kveðja nú elskulegan son,
bróður, eiginmann , föður og afa
og eru þeim öllum sendar inni-
legar samúðarkveðjur, með bæn
um styrk á erfiðri stund.
Kalli var lengst af heilsugóð-
ur, en því miður lá óvinurinn í
leyni og reiddi til höggs þegar
enginn átti sér ills von, en eigi
má sköpum renna.
Á kveðjustund eins og þessari
hrannast minningarnar upp og
þær eru allar góðar og forsjón-
inni þakkað fyrir að hafa fengið
að vera honum samferða um
stund.
Blessuð sé minning Karls
Harðarsonar.
Guðmundur Pétursson.
Ég vil minnast vinar míns
Kalla Harðar.
Vinátta okkar og samvera
tengdist ýmiss konar tómstunda-
iðju, svo sem laxveiði, pílukasti,
að fara á leiki með KR og spila
golf. Við kynntumst fyrst dreng-
ir við æfingar hjá KR en árum
síðar kom ég í veiðihóp, þar sem
Kalli var fyrir og jukust sam-
skipti okkar enn frekar upp frá
því.
Kalli var til forystu fallinn og
tók að sér standa að og skipu-
leggja alls kyns atburði svo sem
veiðiferðir, stórmót í pílu, kútt-
magakvöld og pílukeppnisferðir
til annarra landa. Gekk hann
fumlaust að slíkum verkum
vopnaður minnis- og verkefna-
listum.
Kalli var slyngur veiðimaður
og kastaði flugu vel. Þótt hann
væri iðinn við veiðarnar gaf hann
sér einnig tíma til að ræða málin
á árbakkanum. Í veiðiferðum
okkar sáum við sjálfir um matinn
og þar nutum við hæfileika Kalla,
en hann var úrvals kokkur. Hann
sá til þess að maturinn og allt
honum tengt brást aldrei og átti
það stóran þátt í að veiðiferðirn-
ar voru ómetanlegar samveru-
stundir með góðum vinum.
Kalli var nokkuð einarður í
skoðunum og fór ekki alltaf með-
alveginn. Hann gat verið þrjósk-
ur, sem stundum gat komið sér
vel, t.d. í veiði. Umræður um
landsins gagn og nauðsynjar
voru jafnan á léttu nótunum en
fyrir kom að hann æsti sig upp
yfir málefnum, sem voru honum
hjartfólgin, og oft tengdist slíkt
gamla góða KR.
Fáir voru jafningjar Kalla
þegar kom að því að þekkja fólk.
Væru nefndir til sögunnar ein-
hverjir, sem hann kannaðist ekki
við, var hann ekki fyllilega sáttur
fyrr en honum hafði tekist að
koma viðkomandi fyrir sig með
tengingu í ætt, skóla, vinnu,
heimili eða hvað annað þess
háttar. Eitt sinn á göngu neðan
úr miðbæ, um Vesturbæinn og út
í Frostaskjól, taldi hann upp og
sagði frá fyrrverandi eða núver-
andi íbúum í nærri öðru hverju
húsi, sem á leið okkar varð og
þótti mér nóg um.
Fyrir um tveimur árum fór
Kalli ásamt Láru að stunda golf
af krafti. Fram að því hafði geng-
ið erfiðlega að draga hann út á
golfvöll. Hann náði fljótt góðum
tökum á undirstöðuatriðunum. Í
fyrsta sinn þegar við fjórir veiði-
félagarnir tókum saman hring
var Kalli nýkominn úr golfskól-
anum. Kom hann okkur verulega
á óvart með því að slá bæði langt
og beint, sérlega reyndist hann
vera mikil sleggja með drævern-
um. Þá er það til marks um að
golfið lá vel fyrir honum að á
meistaramóti Nesklúbbsins sl.
sumar vann Kalli 4. flokk karla.
Fráfall Kalla var skyndilegt.
Hann átti ýmsu ólokið. Fyrsta
barnabarnið fæddist í vor og von
er á öðru nú í vetur. Ekki er vafi
á að Kalli hefði notið sín vel í afa-
hlutverkinu.
Ég votta Láru, börnum þeirra
þremur, foreldrum Kalla og syst-
ur innilegustu samúð mína.
Kristinn Ingason.
Þegar ég fékk símtalið frá
mömmu að Kalli væri dáinn þá
kveikti ég ekki, hélt áfram að
vinna eins og ekkert hefði gerst,
örugglega svipað og Kalli hefði
gert í mínum sporum. Þetta gat
ekki verið satt. Ég kláraði vinnu-
daginn eins og ekkert hefði
gerst, en undir niðri var ég mjög
reiður og neitaði að trúa þessu.
Í alvöru þessi góði maður sem
kenndi mér svo margt er farinn,
hversu ósanngjarnt er þetta líf,
hann var ekki einu sinni orðinn
60 ára gamall, átti svo margt eft-
ir, nýbúinn að eignast barnabarn
og annað á leiðinni, svo margt í
framtíðinni til að hlakka til.
Mín fyrsta alvöru minning um
Kalla var af Miðbrautinni sum-
arið 1999 þegar KR varð Íslands-
meistari og við Hörður fórum á
Eiðistorg að safna dósum, fyllt-
um ófáa pokana og fórum síðar
með þá á Miðbrautina. Viku síðar
hafði Kalli farið með dósirnar og
svo kom hann með peningaum-
slag með mínum hlut, þetta lýsir
honum svo vel, sanngjarn og
traustur í öllu því sem hann
gerði.
Seinna meir kynntist ég Kalla
meira, bæði í gegnum KR og í
ófáum matarboðum sem hann
hélt, annar eins toppmaður er
vandfundinn.
Kalli var kröfuharður á allt en
ávallt sanngjarn. Hann var sá
sem hélt hvert styrktarkvöldið á
fætur öðru í KR (kútmaginn og
pílukvöld) og var ég hans tengi-
liður í KR í seinni tíð. Auðvitað
gerði ég allt sem hann bað um,
hann var kröfuharður en þegar á
reyndi skilaði það sér svo marg-
falt til baka og gerði mig að
miklu betri manni í framhaldinu.
Enginn skóli myndi kenna mér
það sem ég lærði af Kalla og því
miður munu ekki fleiri læra það
af honum sem hann kenndi mér,
en það er okkar að halda minn-
ingu hans á lofti og tileinka okk-
ur það sem hann lagði fyrir.
Ég lærði svo ótalmargt af
Kalla og í samskiptum við hann
að ef ég þyrfti að þylja það upp
væri það efni í bók. Árlegra
skötuboða þeirra Kalla og Láru
verður lengi minnst. Vinskapur
pabba og mömmu við Kalla og
Láru var einstakur, leikhúsferð-
ir, ferðalög innanlands og utan,
þau deildu bæði gleði og sorgum
þó gleðistundirnar hafi verið
miklu fleiri
Nú eru augun mín orðin bólg-
in og hugurinn dapur því Kalli
fyrirmynd mín í svo mörgu er
farinn á svo snöggan hátt.Votta
ég Láru, Herði, Hauki, Auði og
foreldrum Kalla, Herði og Geir-
laugu, og Bryndísi systur hans
mína dýpstu samúð.
Kær kveðja,
Sveinbjörn Þorsteinsson.
Hann Kalli var einstakur og
höfum við Anna Fríða bæði verið
svo lánsöm að fá að þekkja hann
og umgangast. Kalli var mjög
hlýr og opinn og leið manni alltaf
vel í kringum hann.
Okkur finnst stundum vera
langsótt að útskýra tengslin mið-
að við hvað fjölskyldur okkur eru
nánar, en Anna Fríða er bróð-
urdóttir Láru, eiginkonu hans,
og því skáfrænka Kalla. Sagði
Kalli þó sjálfur að þau Lára væru
í raun „deputy“ amma og afi
strákanna okkar þar sem for-
eldrar Önnu búa í Eyjum. Lýsir
það kannski helst nánu sambandi
okkar. Þá bjó Anna Fríða um
stund hjá þeim á Fjörugrandan-
um eftir að hafa flutt upp á land
til að fara í skóla.
Strákarnir okkar hafa oft
fengið að vera í pössun hjá þeim
og Kalli passaði alltaf upp á að
eiga nóg til af ís í frystinum, ef
hann kláraðist var farið beint út
á Eiðistorg og því kippt í liðinn
og jafnvel stoppað á nammibarn-
um í leiðinni.
Kalli var mikill gestgjafi og fá-
ir sem kunnu þá list betur, vissi
maður að ef hann bauð til veislu
eða skipulagði mannfögnuð þá
átti maður von á góðu. Það voru
ekki síst litlu hlutirnir sem
skiptu máli, allt var skipulagt í
þaula. Árleg jólagleði fyrirtæk-
isins var honum hjartans mál,
maturinn og vínið með, skemmti-
atriðin, umhverfið, sætaskipan
og fleira var allt úthugsað af mik-
illi kostgæfni enda hann sjálfur
mikill sælkeri og fagurkeri.
Ég kynntist Kalla fljótlega
eftir að hafa kynnst Önnu Fríðu.
Man vel eftir því þegar hann gaf
sig á tal við mig í fyrsta skipti í
barnaafmæli hjá bróður hennar
þegar ég þekkti ekki marga í
fjölskyldunni. Strax náðum við
vel saman. Við fluttum stuttu
seinna til Þýskalands þar sem ég
var í námi og vann þar að verk-
efnum fyrir hann með náminu.
Hef ég unnið hjá honum síðan og
hefur ávallt ríkt gagnkvæmt
traust okkar á milli. Fyrir það
verð ég ævinlega þakklátur.
Í viðskiptum var hann mjög
traustur, orð hans stóðu eins og
klettur. Hann var alltaf mjög ein-
beittur og skarpur, hann gat
vissulega verið hreinskilinn og
beinskeyttur og stóð á sínu en
hann var aldrei ósanngjarn og
vissi viðmælandinn yfirleitt upp
á sig sökina ef í brýnu sló.
Eins og flestir sem þekktu
hann, vissu voru hlutirnir oft ým-
ist svartir eða hvítir, alveg eins
og búningarnir hjá liðinu hans,
KR, og lá hann ekki á skoðunum
sínum. Hann sagði hlutina eins
og þeir eru og var ekki að tala
mikið í kringum þá, en alltaf á
skemmtilegan og hnyttinn hátt,
enda einstaklega orðheppinn
maður.
En þrátt fyrir að hafa oft
sterkar skoðanir þá gat hann líka
skipt um skoðun, sem var ekki
síður góður eiginleiki. Og þó
hann hafi verið íhaldssamur að
einhverju leyti, sérstaklega þeg-
ar kom að hefðum, var hann
mjög framsýnn og talaði fyrir
þróun og breytingum, ekki síst
þegar kom að nýjustu tækninni.
Elsku Kalli, þú fórst alltof
fljótt frá okkur. Á svona stundu
hugsar maður um allt sem var
ógert. En samfylgdin með þér er
ómetanleg, hvort sem það var
fjölskyldu- eða viðskiptamegin í
lífinu. Þín verður sárt saknað á
okkar heimili og er nú stórt og
SJÁ SÍÐU 62