Morgunblaðið - 25.10.2018, Síða 74
Valgerður Þ. Jónsdóttir
vjon@mbl.is
Það verður stuð og stæll á Ólöfu Jöru
Skagfjörð Guðrúnardóttur þegar
hún stígur fram á fjalirnar sem aðal-
stjarnan, Sally Bowles, í söng-
leiknum Kabarett, sem Leikfélag
Akureyrar frumsýnir í Samkomu-
húsinu á Akureyri annað kvöld í leik-
stjórn Mörtu Nordal, leikhússtjóra.
„Willkommen, Bienvenue, Velkom-
in!“ hrópar kabarettstjórinn í Kit
Kat klúbbnum, hinn skrautlegi MC,
sem Hákon Jóhannesson leikur, um
leið og hann vísar áhorfendum inn í
tryllta og myrka afkima skemmtana-
og næturlífsins í Berlín fjórða ára-
tugarins þar sem allt er leyfilegt
nema áhyggjur og hversdagsleiki.
„Samkomuhúsið er fullkomin um-
gjörð fyrir verkið, hæfilega stórt til
að skapa nánd við áhorfendur þannig
að þeim líði eins og þeir séu komnir
inn í klúbbinn til að taka þátt í leikn-
um,“ segir Jara og heldur áfram:
„Þegar ég var hér í bænum um
páskana að heimsækja yngstu systur
mína, sem var nýbúin að eignast
barn, sá ég Shakespeare eins og
hann leggur sig í Samkomuhúsinu og
fann orkuna í húsinu. Ég hugsaði
með mér að einhvern tímann langaði
mig að vinna í þessu magnaða og fal-
lega húsi, sem ég hafði ekki komið
inn í síðan ég var lítil.“
Eitt af draumahlutverkunum
Í huga Jöru var „einhvern tímann“
þó ekki alveg í náinni framtíð, enda
hefur hún búið í New York frá því
hún hóf nám í Circle in the Square
Theatre leiklistarskólanum árið 2012
og eftir útskrift tveimur árum síðar
fremur haft augastað á leiksviðinu
þar í borg. En tækifærið kom fyrr en
hana óraði fyrir – og líka til að vera
meira með litla systursyni sínum.
„Mánuði seinna sendi vinur minn,
Jóhann Axel Ingólfsson, sem einnig
er í sýningunni, mér hlekk um opnar
prufur fyrir söngleikinn. Ég kann-
aðist við Þorvald Bjarna Þorvalds-
son, tónlistarstjóra, hafði unnið með
honum áður, og sendi honum stutt
skilaboð: „Hæ, má ég prufa fyrir
þetta hlutverk Sally Bowles, eitt af
draumahlutverkunum mínum.“
Hann sagði bara já og síðan sendi ég
honum myndband þar sem ég syng
lag úr söngleiknum. Eftir samskipti
við þau Mörtu á Skypinu og Inter-
netinu var ég svo ráðin,“ segir Jara.
Kabarett eftir Joe Masteroff, sem
byggður er á leikriti eftir John van
Druten og Berlínarsögum Christo-
pher Isherwoods, er meðal frægustu
söngleikja heims og reglulega settur
upp í stórum sem smáum leikhúsum,
fyrst á Broadway í New York 1966.
Tónlist og textar eru eftir John Kan-
der og Fred Ebb. Uppfærsla LA er í
þýðingu Karls Ágústs Úlfssonar.
Vinsældir Kabaretts náðu nýjum
hæðum með samnefndri kvikmynd
1972, sem sópaði til sín átta Óskars-
verðlaunum þ. á m til Lizu Minelli
sem bestu leikkonu í aðalhlutverki.
„Ég á bara mína Sally“
„Ég þekki söngleikinn mjög vel, sá
tvisvar sinnum uppfærslu leikhóps-
ins Á senunni í Íslensku óperunni
2005 og síðan bæði á Broadway og í
einhverju öðru leikhúsi í New York.
Hins vegar var svo langt síðan ég sá
kvikmyndina að ég mundi lítið eftir
henni og horfði því á hana aftur þeg-
ar ég fór að undirbúa mig. Mér finnst
Kabarett einstaklega heillandi söng-
leikur og ekki vera þetta dæmigerða
söngleikjaform. Í Kabarett fara höf-
undarnir ótroðnar slóðir og segja
rosalega flókna og mikla sögu.
Heimavinnan í leiklistarskólanum í
New York fólst svolítið í að fara mik-
ið í leikhús og skoða hvaða sýningar
og hlutverk gætu hentað manni. Ka-
barett var mjög ofarlega á blaði hjá
mér, bæði af því mér finnst tónlistin
og Sally Bowles svo skemmtileg.“
Spurð hvernig manneskja Sally
Bowles sé og hvað hún sé að pæla
svarar Jara að hún sé afskaplega lítið
að pæla, en hafi þó sinn metnað og
vissulega einhverja bresti. „Sally er
bjartsýn, svolítill nautnaseggur, sem
nýtur lífsins og finnst heimurinn
vera til fyrir hana. Hún skilur ekkert
í hvernig sumir nenna alltaf að
sökkva sér niður í alls lags leiðindi og
trúir því að allt fari vel að lokum,“
segir Jara og viðurkennir að sumt í
fari Sally sé ekki svo ýkja ólíkt henni
sjálfri, til dæmis bjartsýnin og góða
skapið.
„Annars er Sally aldrei eins, það
er engin ein leið til þess að leika
hana. Hver og einn leikari skapar
hana með sínum hætti. Ég á bara
mína Sally og horfi á hana með mín-
um gleraugum, en til að fá innblástur
las ég auðvitað bókina sem söngleik-
urinn byggist á og horfði á nokkrar
uppfærslur sem til voru á bókasafni í
New York. Í öllu þessu grúski mínu
komst ég líka að raun um að Sally er
byggð á alvörukonu og henni líkaði
víst ekkert sérstaklega vel við Sally
eins og hún birtist í bókinni.“
Ástin í glundroðanum
Sögusviðið Kabaretts er Berlín ár-
ið 1931 um það leyti sem nasistar eru
að komast til valda í borginni og
Weimarlýðveldið að líða undir lok.
Hryllingurinn eykst allt um kring og
tilveran breytist í martröð. Í öllu um-
rótinu og ringuleiðinni lifa og hrær-
ast Sally og Cliff í skemmtanalífi
borgarinnar, Kit Kat klúbbnum þar
sem misjafn sauður er í mörgu fé.
Þótt glundroðinn ráði alls staðar
ríkjum lætur ástin ekki að sér hæða.
„Ástarsögurnar í sýningunni eru í
rauninni bara leið til að lýsa vá sem
kemur inn í samfélag í molum og
hvernig fólk bregst við. Sumir sjá að
ekki er allt með felldu, aðrir loka
augunum, en margir eygja von og
tækifæri. Áhorfendur horfa á verkið
í ljósi sögunnar, þeir vita hvernig fór
og dæma viðbrögð sögupersóna sam-
kvæmt því. Sjálfar hafa þær ekki
hugmynd um hvaða örlög bíða
þeirra. Kabarett er ádeiluverk sem
vekur hjá manni spurningar um eig-
in afstöðu til ýmissa mála. Mann-
fólkið hefur í grunninn ábyggilega
ekki breyst mikið, þótt við teljum
okkur hafa lært af reynslunni og sög-
unni. Margt bendir enda til að við
séum ekki komin mikið lengra en
sögupersónurnar í Kabarett,“ segir
Jara.
Erindi til samtímans
Efnislega finnst henni söngleik-
urinn því eiga erindi til samtímans.
„Ég bý í Bandaríkjunum þar sem
fólk í kringum mig kaus mann, sem
varla er mennskur,“ útskýrir hún.
Víkur nú samtalinu vestur um haf,
þar sem Jara býr með eiginmanni
sínum, Yadin Goldman, leikara og
ljósmyndara. Og er ekkert á leiðinni
heim til Íslands, a.m.k. ekki í bráð.
„Mig hefur alltaf dreymt um að búa í
útlöndum. Ég sótti um í nokkrum
leiklistarskólum bæði í London og
New York. Mér fannst strax að ég
ætti heima í New York og varð him-
inlifandi þegar ég fékk inngöngu í
skólann minn. Eftir útskrift hef ég
leikið í nokkrum söngleikjum og leik-
ritum, til dæmis „Galdrakarlinum í
Oz“, „Heathers“ og „Carrie“ og feng-
ið ýmis verkefni gegnum tengslanet
sem ég er óðum að byggja upp. Á
meðan ég hef gaman af og orkuna
ætla ég ótrauð að halda áfram í
„harkinu“.“
Jara segist fremur sækja í hlut-
verk í söngleikjum en dramatískum
verkum. Henni finnist gott að tjá sig
og segja sögur gegnum tónlist og
hafi yfirhöfuð mikið yndi af alls kon-
ar söngleikjum. Og hún er ekki alveg
reynslulaus á því sviðinu, lék m.a. í
„Grease“, „Buddy Holly“, „Oliver“
og Kardimommubænum áður en hún
fór utan til náms.
Með marga bolta á lofti
„Tónlistin hefur alltaf verið stór
partur af mínu lífi,“ segir Jara, sem
hefur spilað á píanó og verið í alls
konar kórum frá unga aldri, stundað
tveggja ára nám í djasssöng í FÍH og
er núna að læra á trommur.
„Söngleikir eru sannarlega krefj-
andi, en ég er orðin vön að leika,
dansa og syngja samtímis og vera
þannig með marga og krefjandi bolta
á lofti samtímis. Manni leiðist að
minnsta kosti aldrei,“ segir Jara.
„Og allra síst á Kabarett þar sem
áhorfendur geta tekið þátt í fjörinu
og speglað sig um leið í Sally Bowles
og aðstæðum hennar og annarra.“
Willkommen, Bienvenue, Velkomin!
Kabarett-Sally er aldrei eins
Ólöf Jara Skagfjörð Guðrúnardóttir leikur söng- og dansdrottninguna Sally Bowles í Kabarett
Leikfélag Akureyrar frumsýnir söngleikinn annað kvöld Marta Nordal leikstýrir
Ljósmynd/Auðunn Níelsson
Fín Auður Ösp Guðmundsdóttir,
leik- og búningahönnuður, sér um
að Jara sé frambærileg í Kabarett
sem söngdívan fína Sally Bowles
Ljósmynd/Indíana Ása Hreinsdóttir
Á æfingu Jara ásamt samleikurum sínum, Hjalta Rúnari Jónssyni, sem leik-
ur Cliff Bradshaw, og Andreu Gylfadóttur sem Frau Schneider.
74 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 25. OKTÓBER 2018
10%
afsláttur
af öllum
trúlofunar- og
giftingarhringapörum
Hátúni 6a | Sími 577 7740 | carat.is | acredo.is